Nokkur meðmæli í misóvæntar áttir

Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera neinn taglhnýtingur Egils Helgasonar. Reyndar þvert á móti. Ég hef verið honum svo hrópandi ósammála í svo fjöldamörgu gegnum tíðina (Íslamista/Naívistaumræðunni, Draumalands/virkjanadebattinum, kirkju/trúleysisdeilunum, 101-lofsöngnum, sitthverju úr kaldastríðinu, etsetera) að það hálfa væri nóg. En þessa dagana virðist hann einn af fáum sem virkilega leggja sig fram um að komast að því hvað er að gerast, hvað er búið að gerast, hvað á eftir að gerast, afhverju í andskotanum þessu var öllusaman leyft að gerast. Hann lætur ekki segja sér fyrir verkum. Hann hefur sínar eigin skoðanir (sem ég er, eins og áður er getið, ekki endilega alltaf sammála, en finnst þó alltaf þess verðar að ræða). Og hann er með hæsta prófílinn. Ég mæli með þættinum hans í gær – viðtal hans við Jón Baldvin var … magnað (og svo kitlaði mig pínu að hann skyldi troða inn kommentinu um Hvítþvottabókina í blárestina). Silfur Egils er skylduáhorf þessa dagana.

(Ég áskil mér samt vitaskuld fullan rétt til að lýsa frati á skoðanir hans hvenær sem mér þóknast, þrátt fyrir lofrulluna.)

– – –

Talandi um að vera ósammála Agli Helgasyni: Ég vil lýsa yfir ánægju minni með mótmælin á laugardaginn var. Og að þau verði endurtekin á laugardaginn kemur. Megi laugardagar til mótmæla verða sem flestir.

Mótmæli.

-Ef við stoppum til að pæla aðeins í því, þá hefur íslenskan skammtað okkur óttalega máttlaust orð til að lýsa hugtakinu. Sem, ég veit það ekki, skýrir kannski að hluta hvað Íslendingar hafa verið seinþreyttir til mótmæla í seinni tíð.

Mótmæli.

Það sem þarf að gera er ekki að mæla hlutum í mót. Mótmæli eru ekki til þess að fólk geti viðrað óánægju sína með það sem er búið og gert. Ekki eingöngu. Mótmæli geta þá fyrst orðið til einhvers ef settar eru fram kröfur um aðgerðir. Ákveðnar, skýrt afmarkaðar aðgerðir sem ekki fer á milli mála hvort fylgja skuli fram eða ekki. Tildæmis krafa um að opinber starfsmaður segi af sér, eða verði vikið frá ella (minni aftur á viðtalið við JB, þar sem ekki fór á milli mála hvert væri nauðsynlegt fyrsta skref að stíga). Kröfurnar hefðu mátt vera fleiri en þessi eina á laugardaginn (og verða það vonandi þegar mótmælum heldur áfram) en hvað sem öðru líður er það hún sem ríður á að orga hæst. Það leysir ekki vanda þjóðarinnar á einu bretti að skipta út einum seðlabankastjóra, en það virðist nauðsynlegt fyrir nánast allt sem þarf að koma í kjölfarið.

Enn eru þrjár vikur í að ég geti mætt á Austurvöll sjálfur. En ef þau verða þar ennþá, þá kem ég.

– – –

Ég er ánægður með Dorrit Moussaieff.

Ég endurtek: Ég er ánægður með Dorrit Moussaieff. Ég er ekki að djóka með þetta.

Ekki misskilja. Margt sem hún og Ólafur sögðu og gerðu meðan allt virtist leika í lyndi og smjörið draup af hverju jöklabréfi er heimskulegt eins og það horfir við í dag. Og þeir eru til sem fannst það heimskulegt þá þegar, og tek ég hatt minn ofan fyrir þeim – það voruð þið sem höfðuð rétt fyrir ykkur (má ég samt, áður en lengra er haldið, minna á að ÓRG er einn af fáum frammámönnum sem hefur lýst yfir einhverju sem nálgast iðrun eða eftirsjá í tengslum við þetta alltsaman).

En þau voru ekki ein um vitleysuna. Er það nokkuð? Ha?

Og við sem sjálf vorum löngu búin að leggja þann klafa á embættið að það snérist um akkúrat það sem þau gerðu: Að sinna PR. Kynna land og þjóð á erlendri grund. Þetta var djobbið sem við borguðum þeim fyrir. Lái þeim hver sem vill – og ég skil sosum þá sem það vilja. Ég held ég sé bara ekki sammála þeim.

Öðru máli gegnir þegar snýr að ráðleggingum hennar til hnípinnar þjóðar í krísu. Menn sem ég allajafna tek að minnsta kosti jafnmikið mark á og Agli Helgasyni (dæmi 1; dæmi 2) ausa úr hlandkoppum reiði sinnar yfir því að frúin skuli dirfast að tjá sig um það hvernig skuli draga fram tóruna þegar harðnar á dalnum. Þar er ég þeim ekki aðeins ósammála: mér finnst þeir vera að tala útum rassgatið á sér.

Ég endurtek: Rassgat.

Ég tek fyrstuhandarfrásagnir um ömmu Davíðs Oddssonar (muuu!) ekki nema rétt svo trúanlegar. En ég man þá tíð þegar móðir mín, í þeim þrengingum sem foreldrar mínir lifðu fyrir aldarfjórðungi, braut saman og geymdi álpappírinn til að nota hann aftur. Og jóla- og afmælisgjafapappírinn. Vaskaði upp Gunnars majónesdollurnar (blessuð sé minning hans) og VitaWrap plastfilmurnar til að nota undir og yfir (respektíft) afganga af kálbögglum, hrognum og siginni grásleppu.

Eftir því sem ég best veit gerir hún þetta enn þann dag í dag.

Svo ég er fullkomlega sammála forsetafrúnni. Mér finnst þetta jafnvel (og hér hætti ég mér kannski útá brúnina) skýra að hlutatil afhverju hún kemur úr efnafjölskyldu: Börnunum er kennt aðhald, hvað sem líður ríkidæmi foreldranna. Græddur er geymdur demantur.

Mig grunar að ólundin yfir húsráðum forsetafrúarinnar sé runnin af sama meiði og ástæður þess að við erum í þessum vanda til að byrja með: Við þrjóskumst við að hlusta á og taka mark á þeim sem sjá okkur utanfrá og vilja leggja okkur til ráð. Við erum svo fljót að fyllast öfund og heimóttarskap. Heimsku, í þess orðs bókstaflegustu og upprunalegu merkingu.

Þið getið bara sjálfir étið álpappír, þarna.

– – –

Að lokum má ég til með að benda á Dagblaðið Nei, fyrir þá sem ekki vita af því ennþá. Óháðasta íslenska dagblaðið í dag. Skyldulesning upp á hvunn dag