Góðar stundir

Ég hef átt nokkrar ágætar stundir síðustu daga.

– – –

Á CBS vinnur íslensk kona, tæpum áratug eldri en ég. Okkur hefur orðið vel til vina og höfum sérstaklega þurft að tala mikinn um ástandið eftir að fjármálarússibaninn fór af stað fyrir mánuði síðan.

Hún og maðurinn hennar buðu mér í kvöldmat á fimmtudagskvöldið var. Þau heita Svava Jónsdóttir og Jakob Schiötz og eiga dóttur sem er örlitlu eldri en Logi. Sú litla var feimin við mig fyrsta kastið. Gott að vita að ég hef ekki enn glatað hæfileikanum til að hræða lítil börn.

Kvöldstundin var notaleg: ljómandi gott lasagna og írskt kaffi á eftir. Eins og vanalega þegar svoleiðis er í boði sagði ég Söguna af Tuma Tómassyni, fyrrum deildarstjóra á Veiðimálastofnun. Einnig mikið rætt um vísindaskáldskap.

Svo „skeði slys,“ eins og sagt er, svo skella þurfti litlu dömunni í bað og þaðan í rúmið. Ég hlustaði á móður hennar syngja „Dvel ég í draumahöll“ meðan hjalað var undir og pabbinn skúraði eldhúsgólfið.

– hamingja –

Í dag hnippti svo hún Svava í mig og hyggst draga mig með sér í félagsvist hjá Íslendingafélaginu á föstudagskvöld kemur. Ljómandi verður gaman þá.

– – –

Síðdegis á laugardag renndi ég yfir Eyrarsundið og skrapp í pizzu til vina minna í Lundi, VallaTralla og BrynjuLillu. Við vorum rétt sest að borðum þegar við fréttum af slysi af öðru tagi en getið var um að ofan. Allt um þau ævintýri útlistar Brynja sjálf á sinni síðu með blóðugum myndum og alles.

(vil bara færa hér til bókar að stundum er ekkert til í veröldinni sem hljómar jafn fallega og barnsgrátur)

Hápunktur kvöldsins var sjóbað og gufa með heimilislækninum (það orð öðlaðist alveg nýja merkingu þetta kvöld) og föður hrakfallabálksins. Það var yndislegt alveghreint. Yndislegt. Hvað hét staðurinn aftur? Ég man það ekki…

Fyrir svefninn blaðaði ég í ágætum bókum sem heimilisfaðirinn gaukaði að mér: The Novel of Roy Orbison in Cling-film eftir Úlrek Hárbursta og Real Ultimate Power: The Official Ninja Book eftir Róbert Hamborgara. Þær fá báðar mín bestu meðmæli, sérstaklega sú fyrri, sem stendur fyllilega undir þeirri yfirlýsingu höfundar að vera ítarlegasta bók sem rituð hefur verið um viðfangsefnið.

Lundur er annars með fegurri bæjum.

– – –

Þjóðmálin. Hvað getur maður sagt.

Nei, í alvörunni. Hvað getur maður sagt? Hvað er hægt að segja?

Púff.

Konan eggjaði mig til að skrá mig á indefence listann.

Það er margt sem aflaga fór þannig að við erum í dag í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Erum í. Í dag. Hryðjuverkastimpill þeirra Browns og Darlings var ekki það alvarlegasta. Langt því frá. En hann er á listanum yfir hluti sem hefðu ekki þurft að gerast, samt sem áður. Svo mér fannst full ástæða til að skrá mig á hann.

– – –

Annar listi sem er jafnvel enn þarfara að skrá sig á: http://kjosa.is/

Þú gerir það fyrir mig í staðinn ástin mín, er það ekki?

4 replies on “Góðar stundir”

  1. dvel ég í draumahöll er eitt af því fallegasta sem ég veit, takk fyrir síðast Hjörvar það var svo gaman að hitta þig og gera þig í þátttakenda á okkar daglega lífi.
    knús til þín og þinna yfir hafið í báðar áttir

Comments are closed.