Um vekjaraklukkur, snooze-takka og þjóðfélagsástand

Mér finnst vekjaraklukkur vera mikil þarfaþing. Ein af merkustu uppfinningum og mestu framfaraskrefum mannkyns. En snooze-takkinn finnst mér aftur á móti vera óttalega gagnslaus uppfinning. Flest erum við undir þá sök seld að þurfa að koma okkur á fætur fyrir ákveðinn tíma flesta morgna. Það þarf að vekja börnin og koma þeim á ról, snyrta sig til og sinna öðrum morgunverkum, sjá til þess að allir fái morgunverð, gefa gæludýrunum ef einhver eru áður en haldið er til vinnu eða í skóla, leikskóla eða til dagmömmu. Öðru hvoru megin við upphaf unglingsáranna er börnunum svo falið að sjá um þetta sjálf. Þau fá sína eigin vekjaraklukku. Með eigin snooze-takka.

Ég man þetta sjálfur frá mínum eigin unglingsárum. Það kom fyrir að gripið var til snooze-takkans. Að kúrað var dálitla stund enn. Bara tíííu mínútur í viðbót. Það var blundað dálitla stund, jafnvel svifið um sinn inn í draumalandið, svo hringdi vekjaraklukkan aftur og í svefnrofunum var maður ekki alveg viss hvort maður væri að vakna eða sofna. Svo það var ýtt aftur á snooze-takkann. Bara einu sinni enn. Bara að kúra í pínustund í viðbót. Svo allt í einu var hrokkið upp við það að hálfur morgunninn var liðinn, skólinn löngu byrjaður og allt í óttalegu volli. Kannski jafnvel stöðupróf eða maður var tæpur á mætingu fyrir og námsferlinum stefnt í óþarfa tvísýnu. Seint og um síðir staðið í skólastofugættinni og stunið upp: „Fyrirgefið, ég svaf yfir mig. Ég gleymdi mér á snooze-takkanum.“

Þetta gerðist að vísu ekki oft. Ég komst einhvern veginn aldrei upp á lag með að temja mér þetta almennilega. Hef ekki notað þessa græju áratugum saman. En það eru einhverjir sem geta greinilega ekki án hennar verið. Það bara hlýtur að vera, fyrst hún er alltaf hönnuð inn í vekjarann.

En til hvers í ósköpunum? Hvaða gagn er af snooze-tökkum? Sá sem er vansvefta hefur gott af að sofa lengur, og það heilum svefni, ekki rumskandi á tíu mínútna fresti. Vekjaranum er ætlað að hringja til þess að láta vita af því að nú þurfi að fara á fætur: Ef hægt er að kúra tíu mínútum lengur, þá er mesta gagnið að vakna bara tíu mínútum síðar og drífa sig þá á fætur (þetta er meir að segja vísindalega sannað: ég las það í fyrirsögn á internetinu). Og ef það er ekki tími til að kúra, þá gerir snooze-takkinn ekkert nema ógagn.

Nóg um það.

Þessa dagana eru erfiðir tímar. Yfir íslenskar fjölskyldur hafa dunið áföll af, mér liggur við að segja, áður óþekktum stærðargráðum. Þegar þetta er ritað (í endaðan október 2008) er ekki nema hluti af áfallinu kominn fram. Enn er nánast ekkert farið að brjóta til mergjar hvað gerðist, hvernig það gat gerst og af hverju í ósköpunum því var leyft að gerast. Hvernig sú staða kom upp að því var leyft að gerast. Í mér ólgar reiði út í marga þá aðila sem hafa verið í fréttum af því hvernig fór. Ég áfellist líka sjálfan mig. Ekki fyrir það að ég hafi djammað of villt í íslenska lánapartíinu (þvert á móti – við hjónin tókum bæði með okkur þær lexíur frá æskuárunum að lifa ekki um efni fram og reyna alltaf að hafa borð fyrir báru), heldur yfir því að ég skyldi hafa leyft því að gerast að landi mínu og framtíð þess var allt að því stolið undan nefinu á mér. Það er sú tilfinning sem ég ber í brjósti.

Ég ber kvíðboga fyrir framtíðinni. Ég kvíði því, sem þriggja barna faðir, ekki aðeins hvernig persónulegir hagir mínir og konunnar minnar munu þróast á allra næstu árum, heldur einnig og ekki síður að hve miklu leyti skuldir okkar kynslóðar koma til með að lenda á herðum barna okkar. Jafnvel barnabarna. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af uppvexti barna minna og aðbúnaði allra næstu árin (þau eru tveggja, fimm og átta ára þegar þetta er ritað). Við foreldrar þeirra eigum það sameiginlegt að hafa alist upp á heimilum þar sem neita þurfti sér um ýmis þægindi og jafnvel þannig að „oft var brauðið skorið smátt,“ eins og skáldið sagði. Og það var fínt. Það var margt alveg hreint æðislegt við að vaxa þannig úr grasi. Hamingja æskunnar verður ekki metin út frá lánsfjárábyrgð eða mæld í gengisvísitölum.

En ég geri mér ljóst að þeir dagar munu koma þegar börnin mín, þá komin til vits og ára, munu staldra við og spyrja mig þeirra spurninga sem ég spyr mig sjálfur í dag: Hvernig gátum við foreldrar þeirra leyft þessu að gerast? Og ég veit ekki hvort svörin verði neitt skárri en þegar maður stóð skömmustulegur í skólastofugættinni forðum daga:

„Fyrirgefðu, barnið mitt. Við sváfum yfir okkur. Við gleymdum okkur á snooze-takkanum.“

(Birtist í nýútkomnu tímariti Barna og menningar, sem ég hvet alla áhugamenn um börn, og, ööh, menningu, að kynna sér og gerast áskrifendur með því að smella á bornogmenning hjá gmail.com. Við hjónin erum alvarlega að pæla í því, fyrir okkar leyti.)

2 replies on “Um vekjaraklukkur, snooze-takka og þjóðfélagsástand”

  1. Mikið ofboðslega ertu góður penni!!…. ég fékk gæsahúð við að lesa þetta og skammaðist mín jafnvel smá fyrir að vera svona snooze manneskja, ég nefnilega stilli klukkuna hálftíma fyrr bara til að geta snoozað á 5 mín fresti í heilan hálftíma. En ég fór aldrei á neitt eyðslufyllerí og er líka pirruð að börnin mín þurfa að standa skil á þessu feita klúðri sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu.

Comments are closed.