Nýir vendir flengja best

Eftir að ég frétti af afspurn (sbr. áramótaheit) tíðindi hádegisins hef ég verið hugsi. Og hvernig sem ég velti því fyrir mér (og þrátt fyrir að mér þyki leitt að heyra þetta fyrir hönd Geirs H. Haarde, svona persónulega), þá get ég ekki séð að þetta breyti neinu fyrir það sem mótmælendur hafa krafist til handa (og með velþóknun frá) íslensku þjóðinni.

Ég tek af öllu hjarta undir með Siggu Láru þegar hún segir: Við megum ekki persónugera vandann. Veikindi Geirs H. Haarde eru persónulegur harmleikur fyrir hann,  en fyrir alla aðra gerir þetta allar fyrri kröfur um breytingar enn brýnni en áður, ef eitthvað er.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að fá nýja ríkisstjórn strax (þar sem bætist við fyrri ástæður sú að fólk sem er plagað af alvarlegum veikindum hefur ekkert erindi í valdamestu stöður landsstjórnar).

Það er mikilvægara en nokkru sinni að fá hreina staðfestingu á að það verði kosningar svo fljótt sem auðið er.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að undir eins verði farið með nýja vendi um bæði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að láta í sér heyra ef maður er ekki sáttur við ástandið.

Og það er mikilvægara en nokkru sinni að hver sá sem er þessarar skoðunar láti það í ljós með hverju því friðsamlega andófi sem hann telur við hæfi.

Við fjölskyldan hyggjumst eiga okkur dagpart niðri á Austurvelli á morgun. Þarmeðtalið (en ekki eingöngu) um þrjúleitið.

Það er mikilvægara en nokkru sinni.