Ekki gera ekki neitt

Ég veit ekki hvað ég mun kjósa í komandi kosningum.

Ég veit ekki hvenær þær verða.

Ég veit ekki einu sinni að fullu um hvaða kosti verður að velja.

En, fokkitt, eitt sem alveg víst er: ég mun ekki skila auðu.

Í uppsiglingu eru mikilvægustu alþingiskosningar í áratugi, í manna minnum jafnvel. Og mér sýnist á öllu að það hafi aldrei verið eins mikilvægt að fólk geri upp á milli kostanna, myndi sér skoðun og kjósi samkvæmt henni.

Ég hef heyrt fólk segja: „Það er sami rassinn undir öllu þessu liði.“ „Þetta eru allt sömu vitleysingarnir.“ „Það er ekki allur munur á kúk og skít.“

Líður þér eins og þér finnist þetta? Eða er ef til vill einn flokkur framar öðrum sem þú myndir alls ekki kjósa?

Aha. Hver þá?

Ekki segja það upphátt.

En leggjum dæmið svona upp: Það eru fimm flokkar á þingi. Sennilega verða svona 3-4 framboð í viðbót. Segjum, tjah, átta kostir í allt, svona til dæmis. A nice round number. Þar af er einn sem þú getur alls ekki hugsað þér að kjósa.

Ekki segja það upphátt.

Ef þú velur besta (eða illskásta) kostinn af öllum hinum, þá fær sá allt þitt atkvæði óskipt.

Ef þú skilar auðu, þá fær sá kostur sem þú getur alls ekki hugsað þér að styðja einn áttunda af atkvæði þínu.

Einn áttundi. af tilleggi þínu. er vatn. á myllu. kölska.

Ekki segja það upphátt.

Svo, eins og ég segi, myndaðu þér skoðun og kjóstu. Ekki skila auðu. Ekki sitja heima.

Ef þú sérð nú þegar langt að að það er ekkert þarna úti sem fellur nógu vel að þínu skapi, þá er rétti tíminn núna til að segja þér að drattast upp af rassinum og ræsa bara af stað þitt eigið framboð. Eða gera áhlaup á samtök sem eru til fyrir eða í mótun akkúrat eins og er – reyndu að gera þitt til að framtíðin mótist eftir þínu eigin höfði.

Bara ekki skila auðu. Ekki sitja heima.

Þú veist hverjir þú vilt að fái nákvæmlega ekkert af atkvæði þínu.

Ekki segja það upphátt.

En þetta verða kosningarnar þegar það hvað fólk kýs ekki verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr.

Ekki segja það upphátt.

Og ekki, alls ekki skila auðu.