Svona kaus ég

Einhverntíma í náinni framtíð mun þetta blogg lifna á ný. Og þá líkastil í formi hvunndagslegra frásagna íslensks fjölskylduföður fjarri heimahöfum. Einhverntíma eftir að núgeysandi bloggstormur er genginn yfir og rykið sest aftur. Núna ætla ég bara rétt að reyna að blása upp í vindinn. Af því mér finnst það skipta máli.

Ég verð í Þýskalandi um kosningahelgina. Hef verið hérna frá síðustu mánaðamótum. Svo þetta er ekki kosningahelgin mín, prívat og persónulega. Ég kaus fyrir fjórum vikum síðan, utan kjörfundar. Og ég segi það hér og nú: ég kaus Vinstri-græna.

Ég hugleiddi aðra kosti. Fæsta þeirra að vísu neitt voðalega lengi:

 • Ég var einu sinni Samfylkingarmaður. Og er sammála þeim í mörgu, tildæmis því að það er leitun að skárri langtímalausn á vandamálum íslensk efnahags og atvinnulífs en innganga í Evrópusambandið. En ég treysti Samfó bara ekki ennþá. Ekki lengur. Mér fannst óskiljanlegur og ófyrirgefanlegur hundroðshengilsháttur á flokksforystunni eftir að kerfið hrundi, ónóg endurnýjun á sömu forystu í kjölfarið miðað við samábyrgð flokksins í hörmungunum, og neyðarlegur hringlandi og sjálfbirgingur með það hvernig sama forysta þorði ekki einu sinni (og það kannski réttilega) að treysta flokksmönnum sínum fyrir því að “rétt” yrði raðað á lista í prófkjörinu í Reykjavík.
 • Framsókn treysti ég bara ekki, komma, þrátt fyrir meinta endurnýjun. Ég efast um að ég muni nokkru sinni gera það. Fyrir utan að ég er ekkert hrifinn af hugmyndum þeirra til lausna á vandamálunum.
 • Ég hef frá fornu fari borið hlýrri hug til Frjálslynda flokksins en margir. Ég hef megnustu óbeit á útlendingahræðslumanginu sem hefur loðað við þá, en frá upphafi hefur mér þótt Frjálslyndir vera einir um að vilja ráðast á okkar dystæka fiskveiðistjórnunar- og veiðistýringarkerfi frá grunni og sparka því útí það hafsauga þar sem það á heima. Lets feis itt: það kerfi framseljanlegra aflaheimilda sem á stóra sök á því hvar við erum í dag hefur frá upphafi verið harðlega gagnrýnt af Frjálslynda flokknum, einum flokka. En útlendingahræðslan, innbyrðis hjaðningavígin og alhliða hrun útilokuðu hann sem raunhæfan kost í stöðunni.
 • Sjálfstæðisflokkurinn. Hic sunt leones. Og þarf að eyða orðum á Lýðræðishreyfinguna? Ænei.
 • En ég játa að mér var dálítið hlýtt til Borgarahreyfingarinnar, svona almennt séð. Og er enn. En þegar ég kaus fannst mér bara svo margt á huldu með hana ennþá.

Þegar upp var staðið voru Vinstri-grænir eini flokkurinn á þingi (eða ókei, annar af tveimur) sem var ósnortinn af öllum bankahrunsskandölunum, hann stillti upp traustu og fersku fólki í kjördæminu mínu (Reykjavík norður) og mér þótti honum best treystandi til að koma með raunhæfar framtíðarlausnir á þeim vanda sem búið er að koma íslensku þjóðinni í. Í þeim málum þarsem skoðanir mínar féllu ekki að eins og flís við rass treysti ég fulltrúum flokksins til að taka hlutlægar ákvarðanir og vinna eftir lýðræðislegum leiðum að góðum og sanngjörnum lausnum. Og þrátt fyrir það sem áður sagði um Samfylkinguna hef ég haft velþóknun á störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þessi skoðun mín stendur óhögguð í dag. Ég hef reyndar fylgst með Borgarahreyfingunni taka á sig mynd úr fjarlægð, vaxa fiskur um hrygg síðustu vikur og koma sínum stefnumálum betur á framfæri. Ég er hrifinn af framtakinu og óska þeim sem allrabestu kjörgengi. En ef ég væri að fara að kjósa á morgun myndi ég greiða atkvæði á sama hátt og fyrir mánuði síðan. Ég myndi kjósa VG. Ég vil sitjandi ríkisstjórn áfram og dytti ekki annað í hug en að veita henni stuðning minn til þess. Ég myndi kannski nýta mér einhverjar útstrikanir (sem ég hafði ekki búið mig undir er ég kaus utan kjörfundar). Og ég ætla rétt að vona að allir sem hafa eitthvað að athuga við uppröðun þess lista sem þeir kjósa nýti sér rétt sinn til útstrikana. Ég vil sjá met í útstrikunum á morgun. Það virkar, það er hægt, það hefur verið gert áður.

Að síðustu vona ég að allir þeir sem eru að gæla við að skila auðu skoði hug sinn vel áður en þeir gera það. Ef viðkomandi er ósáttur við hvern einn og einasta af þeim kostum sem í boði eru er það skiljanlegt. Há prósentutala auðra og ógildra seðla segir sitt um óánægju, má segja. En það er líka hægt að velja um framboð hverra fylgi er augljóslega óánægjufylgi vegna ríkjandi ástands (og ég minni aftur á útstrikanir). Með því að greiða einum lista atkvæði er um leið verið að hafna öllum hinum. Á meðan að praktískt séð fellur hvert autt atkvæði tildæmis að fjórðungi til Sjálfstæðisflokksins (og að helmingi til ríkisstjórnarflokkanna, svo sanngirni sé gætt).

Ef þeim sem skilar auðu finnst þetta allt í lagi, þá á sá hinn sami að skila auðu. Ef ekki, þá þarf viðkomandi að hugsa sinn gang. Þeir sem stefna á að skila auðu (eða sitja heima) hafa um tvo betri kosti að velja, frá mínum bæjardyrum séð. En þeirra er valið. Þetta er erfið og persónuleg ákvörðun.

Góða helgi.

P.S. Að síðustu vil ég vekja athygli á þeirri mikilvægu kosningareglu að sá sem ætlar að skila auðu má ekki strika út eða eiga á nokkurn annan hátt við röð frambjóðenda á listum, því þá úrskurðast seðillinn ekki auður, heldur ógildur.

Join the Conversation

 1. Avatar

1 Comment

 1. Það er oft rætt um þessar útstrikanir sem leið til að hafa áhrif á röð frambjóðanda en því er ekki haldið á lofti að það er til önnur aðferð: Í kosningalögum segir:
  Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
  Maður getur semsagt raðað listanum sem maður kýs eins og maður vill hafa hann. Mér finnst skrítið að það er næstum aldrei talað um þetta, þótt þetta geri í raun prófkjör mestmegnis óþörf.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *