Jæja, ekkert búinn að tjá mig af þeirri einföldu ástæðu að ég hef hvorki heyrt né séð haus né sporð á neinnar þjóðar kvikindum. Nema þá kvikindinu henni Jóhönnu. Svo hví þá ekki að blogga bara sín fyrstu hughrif í beinni meðan við horfum á keppnina í portúgalska ríkissjónvarpinu: Ég, frúin og tengdamamma.
Svartfjallaland: Fyrsta graðkelling kvöldsins (og væntanlega ekki sú síðasta). Hápunkturinn þegar dansfolinn þuklaði uppundir pilsduluna á henni (blessunarlega missti tengdamamma af því mómenti). Verst hvað lagið var mikið bleh.
Tékkland: Enn að leita að formúlunni greinilega. Ég er hræddur um að þetta verði ekki kvöldið sem staðfestir málsháttinn „Allt er þá þrennt er“ fyrir þau greyin. Sem mér finnst reyndar miður, enda ber ég taugar til lands og þjóðar.
Belgía: Rokkabillý! Alla leið! Jöööss!!! Elviseftirherma og allt! Langbesta lagið það sem af er kvöldi. En samt ömurlegt. En samt æði.
Hvíta Rússland (hvort er það eitt orð eða tvö?): Alltaf sömu yfirdrifnu sjóin þarna austanað, einhverveginn. Æðislegur þessi austurevrópski hreimur á enskunni líka. Að maður tali nú ekki um Kjöthleifslúkkið. Vá. Tengdó finnst þetta skást það sem af er. Og ég skil hvað hún er að fara. En hvað var eiginlega málið með vofurnar í silkidulunum?!
Svíþjóð: Charlotte Nielsen skólinn í lúkkinu. Eh bíddu. Nú er lagið byrjað, og það er nú bara nokkuð … öhhh… glatað. Hef ekki séð Svíann svona lélegan síðan þeir sendu Las Vegas söngvarann með reðurgúmmístöngina þarna um árið. Já, hún getur sungið en… hvernig gerðist þetta?!!! Má maður ekki líta af þessari keppni í eitt ár og þá bara fer allt í vitleysu?!
Armenía: Ahhh. Sumt klikkar aldrei. Þar á meðal er þjóðlega sándið frá Armeníu. Og þessutan … þá er ég bara pínu skotinn í þessu. Takturinn nokkuð góður, mixið og svona. Helst að vanti krókinn. Hvar er krókurinn stelpur? Allavega, gleymdi að telja upphátt undir Svíþjóð áðan, en er svona að velta fyrir mér hvort hér skuli talið þriðja graðkellinganúmer kvöldsins.
Andorra: Ein af mínum uppháhaldsþjóðum alltafhreint. Ég sé að Valli Sport hefur sparkað Harasystrum úr Elektra og troðið þeim inn í Andorrakeppnina eftir að hafa mistekist að meikaða á skerinu. Og skellt einni katalónskumælandi Dolly Halliwell í framlínuna í staðinn. Dálítið skotinn, en aðallega bara afþví að þetta er Andorra.
Sviss: Vá maður. Bara Editorslínan alla leið. Designerlúkk, þunglyndiskúl og allt svona dálítið væld, en samt alltaf þannig að snyrtimennskan er í fyrirrúmi. Þetta fer áfram, ef allt er með felldu. Og á það sennilega bara alveg skilið. Dálítið ánægður með þetta.
Tyrkland: Hananú. Nú er keppnin greinilega byrjuð. Og minntist einhver á graðkellingar? Takturinn minnir mig reyndar grundamlega mikið á gríska sigurlagið frá því fyrir nokkrum árum. Og lagið að öðru leyti ekki eins gott (ekki það að ég vilji tala vel um frummyndina). Hér er eitthvað fyndið sem bíður ósagt um spila inná þjóðararfinn. En lagið fer lengra. Ójá.
Ísrael: Þetta er bara ágætt lag. Já. Alveg ágætt. Annars hefur ár frá ári gerst sífellt erfiðara að taka tónlistina úr sambandi við þjóðfélagslega samhengið. Og er orðið ómögulegt eftir atburði síðasta árs. Það er bara ekki hægt lengur. En ég segi samt aftur: Þetta lag var ágætt.
Búlgaría: Vá. Þetta byrjar eins og stórslys í uppsiglingu. Vá. Bara … vá. Það er bara allt svo rangt við þetta. Þetta var fíaskó af stórfenglegri stærðargráðu. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að maður getur ekki annað en elskað þessa keppni.
Ísland: Bara … flott. (Og ekki verra að hafa komið á eftir Búlgaríu.)
Makedónía: Noh. Óskilgetinn sonur Bon Jovi bara mættur á staðinn. Þetta er svo sannarlega númer sem er sleipt í hálku. Það hefur lengi vantað meira af snjóþvegnu gallabuxnarokki, ekki bara í Evróvisjón, heldur í tónlistina almennt. Ég hef bara lúmskt gaman af þessu, játti hann uppá sig og glotti í kampinn.
Rúmenía: Ef mér skjöplast ekki, þá er þetta fyrsta snípsíða pils kvöldsins. En lagið er óttalega litlaust.
Finnland: Öh. Ókei… á dauða mínum átti ég von, en ekki teknótrassi frá Finnlandi. Já, ókei, þarna kom pínu hefímetalgítar. Í hálfa sekúndu. En það er eitthvað við þetta sem gengur upp, þvert ofaní sjálft sig. Og þau geta sungið. Og raddað. Ég er með gott væb fyrir þessu.
Auglýsingar. Nú fer þetta bráðum að verða búið.
Portúgal: Þetta er bara dálítið flott. Eftir að hafa verið úti á þekju frá örófi alda eru Portúgalir í seinni tíð farnir að fatta hvernig á að spila þetta. Ánægður með þá.
Malta: Næstsíðasta lagið. Allt frá barnæsku hefur mér þótt Maltneski entransinn óttalega óspennandi. Það er ekki að breytast í kvöld. Voðalega næntís eitthvað. And not in a good way.
Bosnía-Hersegóvína: Hmmm… ég er á báðum áttum með þetta. Í sjálfu sér sáttur við lagið og sándið í því (balkneska skólann og svona) en útlitið og sviðshreyfingarnar … ég veeeeeit það ekki. Æéveidaggi.
Mitt algjörlega út-í-bláinn gisk á þau tíu sem fara áfram:
Svartfjallaland, Hvítarússland, Armenía, Sviss, Tyrkland, Ísland, Makedónía, Finnland, Portúgal og Bosnía-Hersegóvína.
Svíþjóð og Rúmenía eru á þröskuldinum, og þá á kostnað Svartfjallalands, Íslands eða Portúgals. Aðrir eru sennilega öruggari.
Er núna að horfa á lögin sem fara beint í úrslitin. Ég er núna fyrst að heyra þau (einsog önnur) en get þó laumað að þeim innanbúðarupplýsingum að Dita von Teese mun taka þátt í þýska númerinu. Sem reyndar er mun skárra en oft áður, sýnist mér. Og þá er ég að tala af fyllsta hlutleysi. Ég geri fullteinsvel ráð fyrir óvæntum árangri Þjóðverja á laugardaginn kemur, jafnvel töluvert uppfyrir fimm neðstu sætin.
Úrslit: Tyrkland, Svíþjóð, Ísrael, Portúgal, Malta, Finnland, Bosnía-Hersegóvína, Rúmenía, Armenía og Ísland.
Vá. Ég var búinn að skrifa voðalega sólilókíu um að fara að halda með Portúgal, en svo kom það á lokametrunum. Þetta er, ef ég man rétt (sem þarf ekki að vera), annað skiptið sem Ísland meikar það upp úr undanriðli, og í annað skipti sem það er tíunda og síðasta landið uppúr umslaginu. Getur einhver staðfest þetta?
En voðalega var maður úti á þekju. Svartfjallaland, Hvíta-Rússland, Sviss og Makedónía sitja öll eftir. 60% skor. Svíþjóð, Rúmenía (hvorttveggja inni í myndinni), Ísrael og Malta (hvorttveggja mun óvæntara) í staðinn. Eflaust annaðhvort af þeim tveimur síðari að koma inn fyrir tilstilli dómnefnda. Sem er sosum ekki til að æsa sig yfir.
En 60% skorið mun ég reyna að bæta. Og þá ekki seinna en annað kvöld.
Læt getið í restina að ég beilaði á spítalaeldhúsið og fékk mér falafel í hádeginu, í fyrsta sinn frá því ég kom hingað. Og þætti sumum lengi haldið út.