Jæja, það rétt slapp. Á síðustu stundu duttum við inná hollenska stöð sem sýnir seinna kvöldið. Ég var farinn að halda að við fyndum þetta ekki. En það slapp, ég er kominn með Rothausinn í aðra hendina og allt orðið sirkabát einsog á að vera. Fyrir utan að heyra ekki í honum Sigmari blessuðum, heldur þessu bévaða hrognamáli í staðinn.
Króatía: Jæja. Það er bara þjóðlega línan, öllum að óvörum. Söngvarinn vill greinilega vera voða sexý en óttalega freðýsulegur, þrátt fyrir góðan vilja. En syngur skammlaust, heyrist mér. En tengdó er ennþá að spjalla við vinkonu sína á Skæpinu hinumegin í stofunni svo ég heyri þetta ekki alveg nógu vel. Virðist samt alltílagi.
Írland: Með lagið „Et cetera.“ Voðalega býður það upp á fyndið grín á þeirra kostnað. En ég sé að Elektrulínan hefur verið tekin víðar en í Andorra. Ég kunni bara ágætlega við þetta, þetta á sér von fyrir utan að Írland hefur ekki átt það auðvelt uppá síðkastið.
Lettland: Ef ég væri frá Lettlandi get ég skilið að mér þætti þetta dálítið flott. En ég er bara ekki frá Lettlandi. En samt… það er eitthvað við þetta… Ég glotti útí annað, og ekki nema til hálfs að því, frekar en með því.
Serbía: Neinei, bara kominn húmorvinkill á þjóðlegu línuna. Bara verst hvað hann er óttalega lítið fyndinn. Fer Serbía samt ekki alltaf í gegn, sama hvað hún sendir?
Pólland: Eitt af mínum uppáhaldslöndum í seinni tíð. Fyrsta ballaða kvöldsins og einhvernveginn alveg kominn tími á hana. Fyrsta númer kvöldsins með svona „alveg týpískt“ Júróvisjónlag, stelpan getur sungið og hefur í grófum dráttum allt með sér til að komast áfram. Mér finnst lagið reyndar óttalega leiðinlegt. En það er aukaatriði.
Noregur: Þá er það lagið sem allir segja að muni vinna. En bíddu… út á hvað? Já ókei, hann er sætur strákurinn. Syngur svona nokkurnveginn ófalskt… Já ókei. Þetta er að síast inn hjá mér. Það er sjarmi þarna. Þetta er ekki alvitlaust.
Þessir kynnar eru hinsvegar hreinasta hörmung. En að dæma af fyrsta fjórðungi finnst mér þetta sterkari riðill en í fyrrakvöld.
Kýpur: Dálítið brothætt byrjun. Og heldur áfram. Flutningur ekki alveg eins lýtalaus og hann þyrfti að vera fyrir svona lag. Söngkonan ekki alveg með röddina í þetta. En lagið var ekki alveg ómögulegt.
Slóvakía: Neeei nú fer þetta að verða alveg ágætt af sætum stúlkum sem geta næstum sungið rólegu lögin sem þær eru að flytja. Nei ókei, núna kemur loðinbarði í fráhnepptum jakkafötum til að redda þessu. Nema að hann gerir það ekki. Og þar kom hái áhrifatónninn… Ái. Nei ókei, hann var bara upphitun fyrir þennan hérna. Öhh… ái.
Danmörk: Lagið hans Ronan Keating, svo mikið hef ég frétt. Og fundinn Dani sem er eins og skapaður af rifi úr honum Ronan, meiraðsegja. Nú ætla ég að sjá hversu oft áður en laginu lýkur ég get skrifað vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla nei ókei. Bara eldglæringar. En samt, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, og vær so gúð.
Slóvenía: Ókei, sæmilega kúl júróruslbyrjun, en hvenær fer hún að syngja?! Og hvenær birtist hún á sviðinu? Lagið er rúmlega hálfnað, við erum enn í intróinu og söngkonan er ekki enn komin á sviðið. Er hún með bólu á nefinu eða eitthvað? Nei ég skil. Þetta var svona trikk til að við værum enn svo uppnumin yfir að sjá hana loksins að við tækjum ekki eftir að hún nær ekki háu tónunum. Voðalega furðulegt alltsaman.
Ungverjaland: „Dance with me.“ Afsakið. Ég er bara… vá. Þetta má segja að sé slæmt á alla mögulega vegu, en samt alltaf af fullkominni einlægni og virðingu fyrir viðfangsefninu. Ég. er. impóneraður.
Azerbadjan: Hér gerir minn kröfur. Loksins almennilegt júrótrass. Bara verst hvað þau eru fölsk greyin. Spurning: Er júrótrassið dautt? Erum við að horfa uppá fjörbrot evróruslsins? Neeeei varla. En þetta er ekki þess glæstasta móment.
Grikkland: Jei! Sakis Rouvas! Bara Johnny Logan evróruslsins mættur! Ég kemst reyndar aldrei yfir það hvað hann er líkur Samúel Erni Erlingssyni. Og viðlagið er með uncanny resemblance við titillagið úr Fame. En við erum samt hérna loksins með alvöru evrórusl-entrans í þessari keppni. Það var mikið.
Litháen: Land sem hefur ekki riðið feitum hesti frá keppninni undanfarið. Ooooog er ekki að fara að breyta því í ár, er ég hræddur um. Lítið meira um það að segja. Loginn í lófanum flott gimmikk í restina, en samt.
Moldavía: Ég hef bara dálítið gaman af þessu. Og við öll. Tengdamamma er ánægð með þetta.
Albanía: Eitt af mínum uppáhalds frá fornu fari. Og jibbí. Það er græn diskógeimvera á sviðinu, bendir frúin á. Og þá loksins sá ég hana – ég gleymdi mér yfir snípsíða pilsinu. Breik og látbragðsdans og allt. Og svo er einhver tónlist þarna líka víst. Það er bara eitthvað verulega rangt við þetta alltsaman.
Það er bara eitthvað lítillega bilað við þetta kvöld eins og leggur sig. Ég ætla að fá mér annan Rothaus.
Úkraína: Ó-kei. Súludans í hamstrahjólum og. rómverskir. gladíatorar. Hérna… er það bara ég eða… er þetta ekki dálítið gay?
Eistland: Eistland lítur út fyrir að hafa lánið fyrir sér í kvöld. Það er blessunarlega lágstemmdari kynþokki yfir þessu númeri en þeim næstu á undan. Og nýtur sín því betur. Allt blessunarlega yfirvegaðra og öruggara með sjálft sig en maður hefur séð svo nokkrum lögum skiptir. Leggst vel í mig.
Holland: Hvað. er. þetta?! Góðu fréttirnar eru að ég var farinn að örvænta um hvort það ætti ekki að vera neitt fyndið grínatriði í kvöld. Þetta bætti úr því. Ef við hugsuðum okkur Helga Björns, Herbert Guðmunds og Eyva, dressuðum þá upp í glimmergalla og létum Heru Björk skratsa undir í diskólagi eftir Indian Princess Leoncie, myndum við hrífast með? Neh, sennilega ekki. En það gæti orðið næstumþvi svona fyndið.
Jæja, aftur út í bláinn spái ég að þessi tíu haldi áfram:
Króatía, Pólland, Noregur, Grikkland, Moldavía, Úkraína, Eistland, Írland, Lettland, Danmörk.
Já, ég veit að hvorki Írland né Lettland eiga að hafa nokkurn séns í reynd, en það var bara eitthvað við bæði lög sem ég var dáldið skotinn í. En Serbía, Slóvakía, Slóvenía og Azerbadjan gætu þessvegna slegið út hvert sem er eða öll af þremur síðustu. Ég nenni ekki að pæla of mikið í grannþjóða- og díaspórupólitíkinni. En ég vona hins vegar af öllu hjarta að Ungverjaland stingi sér inn. Það myndi veita ómetanlegt comic relief á laugardagskvöldinu.
Albaníuatriðið mun hinsvegar ásækja mig í martröðum komandi nátta.
Við erum svo heppin að sjá tímadrápsatriðið strax í beinni. Jamm, þetta er voða þjóðlegt alltsaman. Þjóðdansaklúbbur Volgograd leikur listir sínar. Og tekur… Grikkjann Zorba?!
En. intressant.
Ókei. Þá eru úrslitin komin:
Aserbadjan, Króatía, Úkraína, Litháen, Albanía, Moldavía, Danmörk, Eistland, Noregur og Grikkland.
Grísaði á sjö af tíu. Litháen kom mér mjög á óvart. Annað var meira svona viðbúið. Og hægt að kætast yfir að fá að sjá græn/bláklædda gimpið aftur á laugardagskvöldið. Það er hrein gleði.
Ég geri ekki ráð fyrir að blogga á rauntíma á laugardagskvöldið – sennilega gestir í bænum, krakkarnir á fótum og svona. Auk þess sem ég get alveg hugsað mér að horfa bara á keppnina.
Ég hefði getað fengið mér eitthvað verulega schwäbískt í hádegismatinn. En ákvað að láta það bíða betri tíma. Svo í dag var það bara kjötbolla með krydduðum hrísgrjónum.