Ég greip með mér tvær ræmur á leið gegnum fríhöfnina hingað út: Sjónvarpsþættina Pressa og Brúðgumann. Ég gat ekki stillt mig og horfði á Pressuna strax fyrstu dagana eftir að ég kom hingað út, sjónvarps- og internetlaus á síðkvöldum. Og var bara nokkuð hrifinn. Þessir þættir sýna íslenskt líf frá sjónarhorni sem maður var ekki vanur að sjá í bíó eða sjónvarpi: Allir þessir bílar á stofnbrautunum, foreldrar að skutla börnunum, öll GSM-samtölin. Og að sjálfsögðu ógleymanleg krufningasenan í þriðja þætti.
Svo horfðum við hjónin og tengdamamma á Brúðgumann í kvöld. Hún var frábær.
Ég greip tvö eintök af henni með mér og gaf hitt honum Holm sem er búinn að veita ómetanlega aðstoð við að koma öllum okkar málum hérna á koppinn. „It’s a very funny comedy I’m told,“ sagði ég við hann þegar ég afhenti hana. „It’s based on Chekov’s Ivanov.“ Hann virtist ekki alveg sannfærður, en tók gjöfinni vel.
Hann hefur ekki fært það í tal enn hvort þau séu búin að horfa á hana (hann á indæla konu sem vinnur líka á klíníkinni), kannski kann hann ekki við það – húmorinn skilar sér kannski ekki alla leið upp á meginlandið. Mér varð hugsað til þess hvernig þau hjónin tækju bröndurunum um rúninginn á þýsku túristakerlingunum.
Mig grunar að þeim þyki það hreint býsna fyndið. En ég hef reyndar ekki enn tékkað á hvernig það kemur út í ensku þýðingunni.
Mér fannst dálítið furðulegt í fríhöfninni að það var ekki hægt að kaupa íslenskar myndir með þýskum texta. En það hefði kannski lítið uppá sig – það ætti þá frekar að fara alla leið og döbba þetta.
(Hilmir Snær döbbaður á þýsku. Það er eitthvað undarlega klámmyndalegt við tilhugsunina.)
Í hádeginu í dag skellti ég mér í fyrsta skipti á grænmetisréttinn: Einhvunnlags baunapottrétt með barnamaísstönglum, grænmeti og soðnum bollum úr kartöfludeigi – Knödel. Alveghreint ágætt. Og kartöflusoðbollurnar tvímælalaust betur lukkaðar en þær sem ég keypti og reyndi að sjóða sjálfur í einverunni í apríl.
Í gær og fyrradag fékk ég mér hinsvegar pylsu. Ég veit að það er svipað og að segja „ég fór á þorrablót og fékk mér eina gerð af súrmat,“ bara margfalt meira svoleiðis. En það verður að duga.