Kvenmannsverk, Leberkäse og kjúklingur

Einhvern veginn vill verkast þannig að þegar bóndinn sér einn um heimilið líður helmingi lengra á milli alls þess sem þarf að gera en ella.

Eða lengra.

Frúin hélt uppá skerið á laugardaginn var til að taka þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð. Í kvöld er hvíld fyrir alla þátttakendur (nema frúna) og svo eru enn þrjú kvöld í viðbót til að sjá döff leikhús. Drífa sig.

Það er Otto í sjónvarpinu. Með standöpp. Hann er fyndinn. Liddl:

En þetta var nú útúrdúr.

Allavega. Uppá skerið á laugardaginn. Með sömu vél kom faðir hennar í hina áttina til Frankfurt og hefur verið hjá okkur síðan. Á sunnudeginum sýndum við afa miðbæinn og toppurinn hjá krökkunum var að sjá eðlurnar við höllina uppi á hæðinni. Í gær var farið með hann í lystigarðinn (þar sem froskarnir höfðu mun hægar um sig en um daginn) og í dag var rúntað yfir í nágrannabæina Bebenhausen og Hagelloch.

Eða það er mér sagt. Sumir þurfa að vera í vinnunni.

Á morgun er svo stefnt á sirkus. Þeir sem smella á hlekkinn eru hvattir til að hafa kveikt á hljóðinu.

Í hádeginu í gær var boðið uppá Leberkäse, ofnbakaðan kjötbúðing sem hefur reyndar líka slegið í gegn hérna á heimilinu í kvöldmatinn. Við steiktum svoleiðis upp á pönnu í kvöld og framreiddum með spæleggjum, baunum og súrkáli, svo afi fengi einhvern vott af þýskri matargerð í heimsókninni. Og var gerður góður rómur að af öllum viðkomandi.

Í hádeginu fékk ég mér hinsvegar bara fyllta kjúklingabringu. Ekki mikið Schwäbískt við það nema kannski fyllingin sem var troðið inní hana.