Sirkus

Í dag var farið í sirkus. Börnin skemmtu sér hið besta við að horfa á gúmmístelpuna sem gat troðið sér ofaní ofurlítinn kassa, loftfimleikastúlkuna, konuna sem tamdi tígrisdýrin, hina sem hélt á lofti húlahringjum og, að sjálfsögðu, trúðastelpuna.

Það leynir sér ekki af ofantöldu að sirkuslíf í dag telst til láglaunastarfa.

Sirkusstjórinn var samt vitaskuld karlkyns. Hann tamdi líka bæði hestana og fílana. En var ekki eins flottur og sú sem var með tígrisdýrin.

Þeir voru reyndar aðeins fleiri, karlmennirnir. En það er með þetta eins og annað, að argúmentið er einhvernveginn sterkara þegar maður vandar valið á staðreyndunum sem nefndar eru málinu til stuðnings.

Ég vil taka fram að ofanritað er ekki ætlað sem dulin dylgja á Evrópusambandsumræðuna á Íslandi. Nema síður sé.

En krakkarnir, sumsé, skemmtu sér hið besta. Sú snögga spurði reyndar með ótta í röddinni undir hverju atriði hvort þetta yrði nú ekki örugglega allt í lagi. Sérstaklega undir tígrisdýrunum. Ég velti fyrir mér hvort ekki ætti frekar að fara að tala um þá hjartalitlu – það er óttalega margt sem hræðir hana þessa dagana. Hún fríkaði nánast út þegar við lentum í haglélinu í dýragarðinum í Stuttgart, hún er dauðhrædd við þrumurnar og eldingarnar sem bresta á nánast annan hvern dag, þegar rignir er hún hrædd um að það sé svo mikið að það sé bara allt að fara að fyllast, og þar fram eftir götunum.

Undir kvöldið fórum við út að borða á uppáhaldsveitingastað krakkanna. Hann brást ekki, frekar en fyrri daginn. Það besta við hann, fyrir utan yfirmáta góða þjónustu og gómsætan ítalskan mat á góðu verði, er að hann er í þarnæstu götu, í passlegri göngufjarlægð frá heimilinu. Og krakkarnir undantekningarlaust leystir út með nammi í verðlaun fyrir hraustlega matarlyst og góða hegðun.

Á morgun verður síðasti dagurinn þeirra ömmu og afa hjá okkur. Svo verð ég einn með skarann þartil frúin snýr aftur heim í kotið á mánudaginn.

Svínagúllas með gulrótum í hádegismatinn. Það hét einhverju rosalega sniðugu þýsku nafni sem ég lagði á minnið og gleymdi svo.

Og þar fór það.

2 replies on “Sirkus”

Comments are closed.