Grand Prix der Volksmusik: Suður-Týról og Oswald Sattler

Árið 2000 voru ákveðin tímamót í Grand Prix der Volksmusik: Suður-Týrólar bættust í hóp Þjóðverja, Austurríkismanna og Svisslendinga og urðu fjórða þjóðin í keppninni. Þeir komu inn með miklu trukki og unnu strax í fyrstu atrennu; reyndar ekkert skrýtið, enda tefldu þeir fram ómótstæðilegri formúlu: Dúett Volksmusik-goðsagnarinnar Oswald Sattler og óþolandi krakkakrúttsins og appelsínuhöfuðsins Jantje Smit. Bæði sjón og heyrn eru hér sögu ríkari, þetta er skylduáhorf hverjum mögulegum áhugamanni um Volksmusik – sigurlag Suður-Týról frá 2000, Ich zeig dir die Berge:

Oswald Sattler var þarna – þrátt fyrir ungan aldur – vel sigldur þátttakandi í Grand Prix der Volksmusik. Sem innfæddur Suður-Týróli hafði hann þó framtil þessa neyðst til að keppa undir merkjum annarra landa, og má þar sérstaklega nefna þegar hann sigraði fyrir hönd Þýskalands árið 1990 með suður-týrólskum félögum sínum í hljómsveitinni Kastelruther Spatzen með laginu Tränen passen nicht zu dir. Þar má glöggt sjá hve hreina og öfluga útgeislun hann hefur á sviði – hann þarf nánast ekkert að gera til að eiga sviðsljósið með húð og hári þar sem hann stendur hógvær með gítarinn og syngur með í bakgrunninum. Tékkið endilega á hlekknum (því miður er ekki boðið upp á að sýna þetta hér í innskoti): svona geta bara sannir listamenn.

Suður-Týról hefur komið mjög sterkt inn og sigrað í fjögur skipti af þeim níu sem keppnin hefur verið haldin síðan fjölgaði. Austurríki hefur sömuleiðis fjórum sinnum borið sigur úr býtum, en Svisslendingar einu sinni. Þýskaland hefur hinsvegar mátt þola mikla eyðimerkurgöngu þar sem þeir unnu síðast árið 1994 (senn sér þó fyrir endann á henni leyfi ég mér að vona, en meira um það síðar). Endum á gullvægri perlu sem sigraði fyrir hönd Suður-Týról árið 2006 – snyrtipinninn Rudy Giovannini, fríðleikshnátan Belsy og Monti Pallidi karlakórinn kyrja þjóðlagasálminn Salve Regina. Þetta kemur út tárunum á öllum nema köldustu steinhjörtum:

Næst verður farið yfir forkeppnisfyrirkomulagið, byrjað að segja frá komandi úrslitakeppni og úrslitalögin kynnt frá fyrsta landinu af fjórum. Ég get fullyrt að það er von á góðu.

4 replies on “Grand Prix der Volksmusik: Suður-Týról og Oswald Sattler”

  1. Kærar þakkir fyrir menningarfræðsluna. Hins vegar verð ég að skamma þig fyrir að Þýskaland verði allt í einu „þeir“.

  2. P.S. Hvað geturðu sagt mér um söngvarann í Kastelruther Spatzen? Er hann alltaf svona pervertalegur?

  3. Þakka þér sömuleiðis Magnús, ég var farinn að óttast að ég væri bara að hrópa þetta í eyðimörkinni.

    Og gleður mig að þú skulir spyrja. Hann Norbert Rier er söngvari Kastalarústaspassanna og hefur verið í bandinu allt frá árinu 1979. Ég held að hann hafi byrjað á trommunum áður en hann flutti sig í framlínuna, hafi tekið Phil Collins á þetta. Ég þori þó ekki alveg að leggja hausinn að veði.

    Hann er enn fremstur í flokki Spassanna eins og sjá má á heimasíðunni þeirra (http://www.kastelrutherspatzen.de/) og þeir skarta enn sama glæsilega átfittinu, þótt Norbert sé því miður búinn að fórna hormottunni. Hann er líka öflugur hestaræktandi og hefur skrifað sjálfsævisögu sína, „Danke Fans!“ eins og fræðast má um á hans eigin heimasíðu (http://www.norbert-rier.com/).

    Rétt er að hvetja til þess að hafa kveikt á hátölurunum við það að heimsækja báðar ofangreindar síður. Góðar stundir.

  4. Mikið óskaplega er Hjörvar heppinn að eiga svona góðan vin sem þig Magnús, konan hans nennir ekki einu sinni að hlusta og horfa á þessi tóndæmi! 😉 Þakka þér fyrir.

Comments are closed.