Grand Prix der Volksmusik 2009: Svissneska forkeppnin

Næsta úrslitakeppni Grand Prix der Volksmusik fer fram að kveldi laugardagsins 29. ágúst í München. Þar munu keppa 16 lög, fjögur frá hverju þátttökulandanna. Nákvæmlega hvernig sigurvegarinn verður valinn veit ég ekki enn en geri ráð fyrir að símaatkvæðagreiðslur komi við sögu að einhverju leyti. Sent verður út beint og keppendur munu mæma af sannri fagmennsku og fádæma myndarskap.

Lögin fjögur frá hverju landi fyrir sig voru valin í undankeppnum í vor. Sú fyrsta fór fram 25. apríl í Sviss. Þar mættu tólf keppendur til leiks og átta sátu eftir með sárt ennið. Kosið var í símakosningu og í öllum fjórum löndum fylgdi sögunni strax á keppniskvöldinu hvað hvert lag hlaut mörg atkvæði og í hvaða vinsældaröð þau væru valin.

Í fjórða sæti svissnesku forkeppninnar (með 16.1% atkvæða)  lentu Pläuschler-frændurnir: tvímenningar sem hafa, þrátt fyrir ungan aldur, troðið upp saman í fimmtán ár, og skemmta enn af sömu innlifun og ennþá sé árið 1994. Harðlínumenn myndu fussa og sveia og segja að þetta sé nú bara Schlager, en ekki alvöru Volksmusik, en látum slíkar hártoganir liggja milli hluta og njótum flutningsins á „Ich kann nicht aufhör’n dich zu lieben,“ eða „Ég get ekki hætt að elska þig“:

Í þriðja sæti (16.3%) lenti hið stórskemmtilega „Chlefeler Schtimmig,“ með Geni Good und seine Glarner Oberkrainer (sem hlýtur að þýða eitthvað rosalega hresst). Þetta er hinsvegar fyrsta klassa óumdeild Volksmusik og meiraðsegja sótt beint í svissneska þjóðararfinn: Chlefele ku vera klappleikur sem skólakrakkar í kantónunni Schwyz stunda í dymbilviku með einhvunnlags heimasmíðuðum (og samnefndum) kastanéttuplötum. Það er algjört möst að fylgjast með eftirfarandi myndbandi þar til náunginn sem situr við skólaborðið fyrir miðju sviðinu fer að láta ljós sitt skína. Svo á hljómsveitarstjórinn Geni Good reyndar algjöran stjörnuleik á nikkuna líka. Sjón er sögu ríkari:

Sarah-Jane, sú sem lenti í öðru sæti (17.4%), er eldri en tvævetur í bransanum – hún vann svissnesku keppnina árið 2005 og komst þá alla leið uppí annað sætið í úrslitunum. Nú slær hún í gegn með slagaranum „Bliib doch bi mir,“ seeem ég hhheld að þýði „Vertu nú hjá mér,“ eða eitthvað svoleiðis. Þeir sem vilja geta horft á hvernig hún stóð sig í vefvarpi svissneska sjónvarpsins, en öðrum finnst eflaust yfirdrifið nóg að tékka á eftirfarandi hljóðprufu:

Söngkonan. Og viðfangið?
Söngkonan. Og viðfangið?

Sarah-Jane – Bliib doch bi mir

Sigurvegarar kvöldsins (19%) urðu svo Stefán Roos og söngvinir hans fagrir (SängerFREUNDe & Stefan Roos – já þeir skrifa sig svona) með óð sinn til móðurhjartans: „Das Herz einer Mutter.“ Hér er mynd af þeim félögum sigurreifum í lok kvölds og hljóðprufa af sigurlaginu. Einnig má sjá hvað þeir gera þetta vel strákarnir í svissneska vefvarpinu. Þetta er ekki aðeins hjartahreinn og fagur óður hjá þeim, heldur líka hverju orði sannari, enda erum við öll, með orðum Ali G., frá sama staðnum upprunnin.

Stefan Roos og viðsyngjandi vinirnir.
Stefan Roos og viðsyngjandi vinirnir.

SängerFREUNDe & Stefan Roos – Das Herz einer Mutter

Að lokum vil ég hvetja áhugasama til að tjá sig um keppendurna og lögin – það sýnist eflaust sitt hverjum og erfitt að gera upp á milli alls þessa hæfileikafólks. En hefur hver til síns ágætis nokkuð.

One reply on “Grand Prix der Volksmusik 2009: Svissneska forkeppnin”

Comments are closed.