GPdV 2009: Suður-Týról

Ég held að mig langi til að skrifa eitthvað um pólitík. En ég þyrfti þá fyrst að sofa á því nokkrar nætur í viðbót. Þangað til skal talað um eitthvað sem skiptir máli.

Suður-týrólska forkeppnin fyrir Grand Prix der Volksmusik fór fram þann 8. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks en einungis fjórir hlutu nægjanlega náð fyrir eyrum símnotenda til að taka þátt í úrslitakeppninni í München þann 29. næstkomandi. Og má með sanni segja að keppnin hafi verið hörð, enda mikið af hæfileikafólki og ástríðufullum Volksmusiköntum í héraði. Enn eitt árið stefnir í sterka keppendur frá Suður-Týról.

Hann Alexander Pezzei er ekki nema rétt nýskriðinn á þrítugsaldurinn, hann er borinn og barnfæddur Suður-Týróli og talar meiraðsegja ladínu (ladínsku?) að móðurmáli. Hann hefur helgað líf sitt Volksmusik allt frá sex ára aldri og þetta er að minnsta kosti þriðja skiptið sem hann tekur þátt í GPdV. Núna náði hann fjórða sætinu inn í úrslitin (með 11,64% atkvæða) með aðstoð þriggja gjörvulegra alpahornablásara. Sjáið Alex und die grödner Alphornbläser flytja lagið „Wenn i auf Bergeshöhen steh“ (sem ég held að þýði „Er ég stend á fjallstindi“ – hann er ekki að syngja á móðurmálinu heldur á einhvunnlags þýðversku):

Það eru ekki síður stórar kanónur sem náðu sér í þriðja sætið inn í úrslitin (með 14,34% greiddra atkvæða): söngvabræðurnir Vincent og Fernando með lagið „Die Engel von Marienberg“. Þeir eru hinir suður-týrólsku Simon og Garfunkel fyrir Volksmusik – syngja engilþýðum tvíröddum við settlegan undirleik og eru þessutan alltaf svo smartir í tauinu:

Vincent og Fernando

Þvímiður hef ég ekki náð að grafa upp hvernig þeir tóku sig út á landskeppniskvöldinu, en í sárabætur má hlusta á brot úr laginu um engilinn af Maríufjalli sem þeir sungu sig með inní úrslitin. Mér sýnist þetta á öllu vera alveg rosalega gott lag:

Vincent & Fernando – Der Engel von Marienberg

Sem er meira en ég get sagt um annað sætið (með 15,15% atkvæða), lagið „Mein Reschen am See“ með hljómsveitinni Sauguat (sem vill þó svo skemmtilega til að þýðir einmitt rosalega gott). Þeir sem hafa brennandi áhuga geta hlustað á lagið eins og það leggur sig með glærusýningu af hljómsveitinni og túrhestamyndum á þjónvarpinu. Öðrum ætti að nægja að sjá hvernig þeir taka sig út strákarnir, með ofurstuttu hljóðbroti úr téðu lagi:

Sauguat
Sauguat

Sauguat – Mein Reschen am See

Sigurvegari kvöldsins var fólksrokksveitin Volxrock (ég hef ekki hugmynd um á hvaða tungumáli þessi heimasíða er), sem hlaut 18,77% innhringdra atkvæða með laginu „Wenn du kannst.“ Og það fyllilega verðskuldað, verð ég að segja. Þetta eru mjög hæfileikaríkir strákar og með víðari tónlistarsmekk en maður sér vanalega í þessum bransa: Þeir geta troðið upp með allt frá hefðbundnu Volksmúsíkurgömludönsunum, gegnum Schlager og allt útí argasta rokk og ról: Status Quo og Creedence Clearwater Revival. Jafnvel AC/DC fyrir unga fólkið. Sigurlagið er léttur og leikandi slagari sem hrífur alla með í söng og dans sem það geta (wenn du kannst):

Þeir gera þetta vel, strákarnir.

3 replies on “GPdV 2009: Suður-Týról”

Comments are closed.