Punktar frá Vestur-Þýskalandi

Merkilegt hvernig lífið gengur einhvernveginn í bylgjum alltafhreint.

– – –

Ég hef átt yndislegt sumarfrí frá því ég var hérna síðast: Svissnesku Alparnir, ítölsku Dólómítarnir, Suður-Týról, Svartiskógur og Rínardalurinn.

Segið svo að maður noti ekki tækifærið til að skoða sig um meðan maður er hérna úti.

– – –

Það lítur æ meir út fyrir að ég muni skreppa upp á skerið í rétt rúma viku einhverntíma í október. Þó er það enn á huldu. En ekki eins mikið á reiki og mögulega fyrirhuguð för mín til Toulouse í sama mánuði.

Þetta skýrist alltsaman.

– – –

Íslensk þjóðmál? Nei. Ég reyndi það nokkrum sinnum síðan síðast en fannst það einhvern veginn ekki þess virði. Það er eins og völlurinn hafi verið tekinn yfir af viðrinum og öskuröpum.

Þessu óskylt: Ég veit ekki hvort ég á að hryggjast eða gleðjast yfir nýjasta slúðrinu ofanúr Hádegismóum. Mestanpart er mér þó bara sama – það er orðinn óratími síðan mér fannst mark á Mogganum takandi. Og það eru nokkrir mánuðir síðan mbl.is datt úr fyrsta sæti þeirra veffréttamiðla sem ég fletti. Geri ráð fyrir að það þokist enn neðar héðan af ef fréttirnar standa heima. Mér og mínum að meinalausu.

– – –

Finnst þetta bara sýna enn betur en áður (var það hægt?! ég hélt ekki) að Morrissey karlinn er með þetta – hversvegna enginn elskar okkur lengur og allir eru svona dónalegir og vondir við okkur. Hann segir þér hversvegna, hann segir þér hversvegna, hann segir þér hvehehehehehersvegna (þótt þú trúir honum ekki):

Annars er líka alveg ágæt útgáfa af sama lagi með henni Kirsty MacColl á þjónvarpinu. Sem ég vissi ekki að væri til fyrr en um daginn.

– – –

Voðalegt hvað ég er farinn að ruglast á lyklaborðinu. Í vinnunni er ég með stillt á þýska lyklaborðið a.m.k. hluta úr deginum. Einna verst hvernig það víxlar á y og z. En skorturinn á þ og ð og almennt flakk á ýmsum þörfum táknum hjálpa ekki til heldur.

– – –

Einhverntíma langar mig til að skrifa um skemmtilega karaktera hér í bæ: Sundskýlumanninn í Gamla Lystigarðinum og Hressa karlinn í Franska Hverfinu. En þeir munu þurfa heila færslu hvor.

– – –

Skruppum sumsé í helgarferð niður Rínardalinn um helgina sem leið. Gistum á farfuglaheimilinu í hinum stórfenglega Stahleck-kastala yfir þorpinu Bacharach á föstudagskvöldið áður en við héldum áfram niðreftir. Á laugardagskvöldinu bauðst okkur næturstaður hjá vinafólki í Bonn.

Dálítið skrítin tilfinning sem kom yfir mig á sunnudagsmorgninum. Við fórum öll niður í stærðarinnar skemmtigarð niðri á Rínarbökkunum. Suðuraf sást grilla í Deutsche Post turninn yfir trjátoppana. Við tíndum kastaníuhnetur og fengum okkur ís. Krakkarnir príluðu á leikvellinum. Svo gengum við um garðinn og það var eitthvað við skýjaþekjuna yfir okkur held ég (þótt veðrið væri ágætt) eða kannski bara það að það var eitthvað óáþreifanlegt en þó furðulega sterkt kaldastríðsvæb þarna í garðinum, eitthvað við bogalínurnar í stöllunum í hlíðinni eða blómin í beðunum niðri á völlunum – maður átti von á að sjá skuggalega menn hvíslast á um ríkisleyndarmál á einhverjum trébekknum.

Í smástund leið mér eins og ég væri í Vestur-Þýskalandi.

Það vill segja, mér leið eins og það væri ennþá Austur-Þýskaland þarna hinumegin. Og ég væri staddur í höfuðborginni hins.

Svo leið það hjá eins og annað.

– – –

Eiginlega ekki annað hægt en að enda þetta á sigurlagi Grand Prix der Volksmusik árið 2009. Þeir tóku þetta á lokasprettinum þeir bræðurnir, Vincent og Fernando. Og erfitt að vera mjög fúll fyrir hönd hans Oswalds, enda voru þeir bara hreinlega betri þarna á kvöldinu sjálfu. Það small eitthvað hjá þeim sem hann vantaði karlinn:

Svo held ég að ég láti duga af þýskum söngvakeppnum í bili. Að minnsta kosti þangað til líður að Bundesvision keppninni hans Stefan Raab í febrúar á næsta ári.