Matseld

Rétt í þessu hringdi eggjaklukkan að láta frúna vita að hún mætti taka hitapokana af hellunni. Það er víst öxlin. En það minnir mig á þá skelfingu að ég steingleymdi að geta þess hvað ég fékk í hádegismatinn í gær. Það var jú ástæða þess að ég settist niður við skriftirnar til að byrja með.

Mér fannst dálítið gaman að halda þessu til haga þarna fyrripart sumars. Matardagbók. Ég man ekki afhverju ég hætti því.

– – –

Síðustu daga höfum við tínt slatta af kastaníuhnetum. Ekki til neins annars en bara að hafa þær á skál í stofunni – þetta er gullfallegt stáss. Þetta er víst óæta sortin, sú sem Tjallinn kallar Conkers.

(Ég veit það fyrir víst – ég prófaði að smakka hana. Segið svo að maður læri af reynslunni.)

Svo er líka svo róandi að taka tvær til þrjár og velta þeim í lófa sér.

– – –

Einhverntíma gæti ég skrifað hérna söguna af því þegar ég eitraði næstum fyrir sjálfum mér með því að bragða á ýviðarkönglum.

(Þeir voru bara svo girnilegir.)

– – –

Ég er að minnsta kosti í tvígang í þessari færslu búinn að stilla mig um að segja ku.

– – –

Í þessari bloggfærslu er ekkert rætt um það leikhús fáránleikans sem eru fréttir dagsins að heiman. Ekki orð.

– – –

Maturinn í gær? Það skal ég sko segja þér: Maultaschen skorin í bita og brösuð á pönnu með grænmeti. Borið fram með súrkáli og fersku salati. Stífþeyttur vanillubúðingur á eftir. Sehr lecker.

Í dag var það bara steik í soðsósu með soðnu blómkáli og salati. Enginn desert. En í kvöldmatinn steikti ég Leberkäse með eggjum og kartöflustöppu. Það er orðinn einn af uppáhaldsréttunum á heimilinu.

– – –

Frakkinn á næsta skrifborði kom í gærmorgun færandi hendi með flösku af frönskum bjór. „Frakkar kunna þetta náttúrulega ekkert sko,“ játti hann. „Nema þarna fyrir norðaustan, í grennd við Belgíu. Þaðan koma nokkrir góðir.“ Þar á meðal, segir hann, sá sem hann færði mér í gær. Hann bíður enn staðfestingar inni í ísskáp. En mér sýnist ég eiga von á góðu.