Mig minnir að það hafi verið í desember 2001 sem Vox Academica hélt mjög minnisstæða aðventutónleika í Landakotskirkju. Frá upphafi hafði kórinn haldið litla aðventutónleika á hverju ári í kapellu Háskóla Íslands fyrir vini og vandamenn. Ekkert auglýst né rukkað inn, bara látið berast. En þegar þarna var komið sögu höfðu tónleikarnir sprengt utanaf sér kapelluna og horfði til vandræða. Svo ákveðið var að flytja þá yfir í Landakotskirkju, en halda samt í þá hefð og þann jólaanda að hafa ókeypis inná þá. Þeir voru eitthvað auglýstir, en ekki mikið samt. Þeir máttu bara koma sem koma vildu.
Það varð húsfyllir og fólk stóð meðfram veggjum.
Þeir hófust á hefðbundinn hátt: kórinn kom gangandi inn gólfið og söng „Hátíð fer að höndum ein.“ Ýmis aðventu-, Maríu- og jólalög úr litúrgíunni voru sungin, en einnig voru á prógramminu metnaðarfyllri stykki sem gerðu kröfur til bæði kórs og hlustenda: Alleluia eftir Randall Thompson. Ubi Caritas eftir Maurice Duruflé. Agnus Dei eftir Samuel Barber (sjá færslu gærdagsins). Totus Tuus eftir Henryk Górecki. O Magnum Mysterium eftir Morten Lauridsen.
Þetta voru rafmagnaðir tónleikar. Gríðarlegur súxess. (En settu kórinn reyndar í vanda ári síðar þarsem eiginlega var ekki lengur fært að hafa ókeypis á aðventutónleikana – æ síðan hefur verið rukkað málamyndagjald við innganginn.)
Ég var sérstaklega hrifinn af síðastnefnda verkinu. Svo mjög að ég mátti til með að heyra meira eftir höfundinn. Svo ég pantaði mér diskinn Lux Aeterna, með samnefndu verki og nokkrum öðrum, þar með töldu O Magnum Mysterium. Lux Aeterna hefur verið í uppáhaldi hjá mér æ síðan.
Morten Lauridsen er Bandaríkjamaður, fæddur árið 1943 og búsettur í Suður-Kaliforníu. Hann samdi Lux Aeterna til minningar um móður sína og verkið var frumflutt árið 1997. Þetta er einhvers konar sálumessa, en þó ekki nema rétt svo. Hún hefst og endar eins og hefðbundin sálumessa, en kaflarnir inn á milli koma annarsstaðar að og eiga það eitt sameiginlegt að vísa í ljós og birtu. Dagurinn er bjartur og laus við alla reiði og bræði. Engan þarf að frelsa frá eilífum dauða. Miskunnin er alltumlykjandi.
1. Introitus / 2. In Te, Domine, Speravi:
3. O Nata Lux / 4. Veni, Sancte Spiritus:
5. Agnus Dei – Lux Aeterna: