Temavika kórtónlist (þriðji hluti): “Carmina Burana”

Carmina Burana eftir Carl Orff er eiginlega kunnara verk en frá þurfi að segja. Og hálffáránlegt að ég skuli ekki hafa tekið þátt í að syngja það ennþá.

– – –

Vorið 2001 söng Vox Academica Carmina Burana á tvennum tónleikum í Seltjarnarneskirkju. Ekki í fullri hljómsveitarútsetningu, heldur annarri eftir höfundinn sjálfan fyrir tvo flygla og slagverkssveit. Það er ágæt útfærsla – merkilega litlu síðri en sú með fullskipaðri hljómsveit, fannst mér.  Ég tók þátt í æfingum mér til mikillar ánægju framá næstsíðustu hljómsveitaræfingu. Þá lagðist ég í heiftarlega flensu, óráð og 40 gráða hita. Og þannig fór það.

(Ó, Forsjón…)

Mark mitt á þá tónleika einskorðaðist því við þýðingar á Carminutextunum sem ég snaraði til birtingar í tónleikaprógramminu. Þær voru notaðar aftur þegar Voxið söng Carminuna í Grafarvogskirkju haustið 2008. Þá var ég við störf í Danmörku. Og þannig fór það.

(Hvar sem forsjóninni lýstur niður skulu allir gráta með mér!)

– – –

Annað kvöld, fimmtudaginn 11. febrúar klukkan 19:30, flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands Carmina Burana í Háskólabíói. Með þeim verða Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Mark Tucker tenór, frændi minn Jón Svavar Jósepsson baritón, og Óperukórinn undir stjórn Garðars Cortes. Einnig eru á efnisskránni Bolero eftir Maurice Ravel, og Dansar frá Polovetsíu eftir Alexander Borodin. Stjórnandi á tónleikunum er Rumon Gamba.

Ég á bágt með að trúa öðru (án þess að vita fyrir víst) en að allt sé löngu uppselt. En tónleikarnir verða sendir út á Rás eitt. Ég ætla að hlusta. Af athygli og ánægju. (Svo fæ ég prógrammið í hendur seinna meir.)

Og einhvern daginn skal ég taka þátt í að syngja þetta.

– – –

Ég skelli ekki inn neinum þjónvörpum hérna núna. Hvet bara fólk til að gera eins og ég og stilla á RÚV annað kvöld.