Mánaðarskipt færslusafn fyrir: mars 2010

Ánægður með úrslitin

Ég má til með að segja að ég er ánægður með úrslit atkvæðagreiðslunnar í gær.

– – –

Fólk hefur verið að deila um það um hvað var verið að kjósa og um hvað var ekki verið að kjósa.

Skiljanlega.

Þegar ég tjáði mig í upphafi árs um mögulega neitun Ólafs Ragnars lá málið tiltölulega ljóst fyrir: Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði Já þýtt samþykki á lögunum, Nei hefði þýtt ekki aðeins höfnun laganna heldur sennilegast líka risastóra löngutöng framan í umheiminn og þið getið bara átt ykkur. Að öllu óbreyttu.

Svo þykknaði plottið.

Bretar og Hollendingar komu að borðinu með nýtt og betra tilboð, og meðfylgjandi kröfu um aðkomu og samþykki allra stjórnmálaflokka á alþingi við lausnina. Teik itt or lív itt, mæ frend.

Og sat í grófum dráttum við það þegar kosningar voru haldnar. Svo Já þýddi ekki lengur ósk um lausn deilunnar – hinumegin við borðið beið enn betra tilboð og hálfmarklaust að fara þá að taka því verra. Og nei þýddi ekki lengur það risavaxna fokkjú sem það hefði þýtt ella, heldur ekki endilega neitt meira en það að frekar væri óskað eftir betri samningi, eins og þeim sem virtist í kortunum.

Málin voru, svo gripið sé til frasanna, í farvegi.

– – –

Auðvitað hafði hver sínar ástæður. Þær hafa verið þuldar upp. Sumir vildu ekki borga skuldir óreiðumanna. Sumir vildu fella ríkisstjórnina. Sumir vildu senda „skýr skilaboð til umheimsins.“ Hver hafði sitt að segja með sínu nei-i.

En það er dálítið óhæft til túlkunar á heildinni. Það var bara eitt nei í boði.

– – –

Svo um hvað var verið að kjósa? Hverjir voru kostirnir? Eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við nei? Og ekki síður, eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við já?

– – –

Niðurstaðan verður að segjast skýr. 62,7% kosningabærra landsmanna nýttu kosningaréttinn. Af þeim sögðu 93,2% nei. Það segir okkur í hið allraminnsta að yfir fimmtíuogátta prósent þjóðarinnar höfnuðu lögum númer eitt frá tvöþúsundogtíu.

Það er, hvað sem hver segir, afgerandi niðurstaða. Hvernig sem hún er túlkuð. Hvað sem hún nú annars þýðir.

Hvað áttu öll þessi fimmtíuogátta prósent sameiginlegt? Og hvað áttu þær sameiginlegt, þær tæplega tvöþúsund og sexhundruð sálir sem merktu við já?

Hvað gekk þeim til?

– – –

Eins og áður sagði: Málin eru í farvegi. Tilboðið liggur fyrir. Íslenska samninganefndin er að vinna í málunum. Leitað er eftir samstöðu allra aðila. Hálfgert þjóðstjórnarfyrirkomulag á hlutunum.

Og þetta var vitað fyrir. Þetta er nánast það eina sem var vitað áður en gengið var til kosninganna: Lögunum um gamla samninginn yrði hafnað (lög um annan enn eldri og ósamþykktan tækju aftur gildi) og haldið yrði áfram vinnunni um þann nýja sem fyrir lá.

Það eina sem hefði getað sett það í uppnám hefði verið samþykkt laga 1/2010.

Það er eina skynsamlega ástæðan sem ég sé í hendi mér fyrir þau 2599 sem merktu við já.

Skynsamlega? Er hægt að kalla þetta skynsamlega ástæðu?

– – –

Það er þetta með kröfuna um aðkomu allra aðila. Að allir verði að koma að borðinu. Þjóðstjórn um lausn. Ef fólk trúir því ekki að það muni leiða til farsællar lausnar fyrir þjóðina er skiljanlegt að það kjósi frekar að samþykkja lakari samning en þann sem enn er ósamið um, þótt hann sé betri.

Betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, má segja.

Og þeir sem kjósa nei, þeir væntanlega setja traust sitt frekar á farveginn.

– – –

Eins og áður: Fólk gæti borið mismunandi vonir til þess framhalds. Að það leiði til lægri vaxtaprósentu og betri greiðsluskilmála. Að það leiði til uppreisnar æru fyrir hinn hrjáða íslenska almúga. Að það leiði til þess að flosni upp úr viðræðunum. Að AGS verði rekinn úr landi. Að við fáum gamla góða fólkið okkar aftur í ríkisstjórn.

Fyrsta skrefið liggur fyrir. Fólk getur borið ólíkar vonir til þess sem kemur á eftir. En fyrsta skrefið er ljóst: Samningaviðræðum verður haldið áfram.

– – –

Þetta er það sem mér sýnist mega lesa útúr niðurstöðunum án þess að vera að gera neinum neitt upp.

2599 manns trúðu ekki því að áframhaldandi samningar myndu leiða til betri niðurstöðu en lög 1/2010.

58.4% þjóðarinnar vildu hafna lögunum og fá áframhaldandi viðræður í kjölfarið. Með ólíkum vonum um framhaldið, en þó þetta sameiginlegt.

– – –

Með hliðsjón af því sem ég hef sagt áður er augljóst að ég fagna þessu: Hinn almenni kjósandi hefur axlað sína eigin ábyrgð á því hvernig málum skuli fram haldið, svo langt sem hún nær. Meirihlutinn er ótvíræður, skilaboðin eru skýr (ef ekki neitt yfirmáta afmörkuð).

Þetta segi ég þrátt fyrir mína eigin takmörkuðu trú á samninganefndarferlinu eins og það blasir við í dag. Ég tel tölverðar líkur á að þetta lendi allt í heilu heljarinnar allsherjar klúðri, með ófyrirséðum og ófyrirsjáanlegum skaða fyrir íslenskan efnahag og íslenska sjálfsmynd (ef hægt er að segja að eitthvað slíkt sé til).

Ég verð alsæll ef það kemur í ljós að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona að svo sé. Ég tel mig ekki með forspárri mönnum.

Að minnsta kosti 58.4% kosningabærra manna eru ósammála mér. Það segir mér að Íslendingar eru ennþá bjartsýn þjóð að eðlisfari, þrátt fyrir allt. Það er líka eitthvað til að gleðjast yfir.

En jafnvel þótt fari á versta veg þá yrði það afleiðing ákvörðunar sem tekin var á afgerandi máta af meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.

Allt orkar tvímælis þá gert er. Til góðs eða ills, þá er þetta ákvörðun sem er tekin á óafneitanlega ábyrgð mín og þín, hvers einasta óbreytts Íslendings á gólfinu, hvers einasta starfsmanns á plani. Við tókum þessa ákvörðun – meirihlutinn ræður.

Það er akkúrat það sem við þurftum að gera.

Og því ber að fagna.

Túlkun kosningaúrslita – ágæt forskrift frá Mogganum

Fólk mun mikið deila um hvernig túlka eigi úrslitin eftir kosningar dagsins. Hvernig á að ráða í úrslit þarsem í raun er einungis einn valkostur í boði? Hvað getur það mögulega sagt okkur?

Það er ekki eins og Íslendingar hafi áður gengið til kosninga þarsem í raun var bara einn möguleiki á kjörseðlinum, er það nokkuð?

Eða hvað?

– – –

Nú man ég ekki fyrir víst hvort í tví- eða þrígang hefur verið gengið til forsetakosninga þar sem „utangarðs“-frambjóðandi hefur farið fram gegn ríkjandi forseta. En hitt man ég að í eitt skipti voru úrslit á þann veg að deila mátti um þau: Í forsetakjörinu 2004, þar sem Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson (hvar er hann núna?!) buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni sumarið eftir hina alræmdu neitun á fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar.

Skoðum hvaða forskrift leiðari Morgunblaðsins frá 28. júní 2004 gefur okkur fyrir að ráða í úrslit við svipaðar kringumstæður og munu blasa við okkur í kvöld:

Úrslit forsetakosninganna á laugardaginn var eru (svo!) alvarlegt áfall fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Eftir átta ára setu á Bessastöðum mættu um 28 þúsund Íslendingar á kjörstað til þess að skila auðu og láta með þeim hætti í ljósi andúð sína á vinnubrögðum forsetans og afstöðu. Um 80 þúsund kjósendur sáu ekki ástæðu til að koma á kjörstað, sem að hluta til má skilja sem vísbendingu um andstöðu einhverra úr þeirra hópi við forsetann og endurkjör hans. Um 13 þúsund kjósendur greiddu Baldri Ágústssyni atkvæði, sem snemma í vor var lítt þekktur meðal landsmanna.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands í átta ár og hefði átt að komast langt með það á þessum tíma að fylkja þjóðinni að baki sér sem forseta, þótt hann væri einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins á sinni tíð. Það hefur þó ekki tekizt betur en svo, að í þessum kosningum hlaut hann einungis atkvæði um 42,5% kosningabærra Íslendinga til þess að gegna forsetaembættinu áfram.
Allt eru þetta skýrar vísbendingar um að ótrúlega stórum hópi kjósenda hefur mislíkað hvernig forsetinn hefur sinnt embættisstörfum sínum og skyldum.

Þetta eru tölur sem er ekkert verra að hafa til hliðsjónar en hverjar aðrar. Ef, þegar upp verður staðið,fjöldi þeirra sem heima sitja, skila auðu eða ógildu, eða merkja við „já“ nær slíkum tölum að ekki nema um fjörutíu til fjörutíuogfimm prósent kosningabærra manna merkir við „nei,“ sem nánast allir (nema einhverjar furðuskepnur eins og undirritaður) halda fram að hafi verið eini raunhæfi kosturinn, þá ætti samkvæmt þessari ágætu forskrift leiðarahöfundar Moggans að vera kristaltært að úrslitin séu „alvarlegt áfall“ fyrir þá sem hafa hvatt fólk til að fella lögin. Það ættu að geta talist „skýrar vísbendingar“ um að „ótrúlega stórum hópi kjósenda“ hafi mislíkað þetta fíaskó alltsaman.

Með öðrum orðum: Það hlyti Mogginn þá að kalla „skýr skilaboð.“

Og ef ég man rétt, þá er það akkúrat það sem „við“ þurfum að senda til „umheimsins.“

Ekki satt?

– – –

Einhversstaðar þar fyrir ofan bíður grátt svæði. Ef talan verður sirkabát, segjum, kringum sextíu prósentin má sennilega fara að deila um hversu skýr skilaboðin eru. Og svo má náttúrulega fara að rífast um það hver þau séu, þessi skilaboð sem sumir myndu þá halda fram að væru skýr en aðrir óskýr.

Og ættu þá allir að una glaðir við sína þrætubók enn um sinn.

– – –

Sjáum til. Ég bíð pínu spenntur.

Tvær mögulegar ástæður fyrir að segja „Já“ í kosningunum á laugardaginn kemur

Ég, eins og margir, hef sveiflast pólanna á milli í Icesave málinu síðustu mánuði. Síðast þegar ég tjáði mig (daginn fyrir ekki-undirskriftina hans Ólafs Ragnars) vonaði ég hálfpartinn að forsetinn myndi neita að skrifa undir og samningurinn færi í þjóðaratkvæði. Bara svo hinum almenna kjósanda yrði þröngvað til að taka sína eigin ábyrgð á fíaskóinu.

Svo fór það náttúrulega svoleiðis, og í einhvern tíma fannst mér þetta alveg voðalegt. Svo fannst mér það ágætt. Svo fannst mér þetta bara fáránlegur sirkus og tilgangslaus vitleysa. Svo fannst mér þetta aftur ágætt. Og finnst enn, á sömu forsendum og áður.

Mér finnst þetta samt enn allt vera hinn fáránlegasti sirkus.

– – –

Ég tvísté lengi lengi og vissi ekkert hvað ég ætti að kjósa: nei eða já, skila auðu eða sitja heima. Var í síðustu viku kominn niðurá að gera upp á milli tveggja seinni kostanna. Og það að ég skyldi vera hérna úti í Þýskalandi, í klukkutíma fjarlægð frá konsúlnum og auk þess með eigin ábyrgð á að koma mínu (líkastil auða) atkvæði uppá skerið gerði valið í raun auðvelt.

Svo var það bara í gær eða fyrradag að það small hjá mér dálítið svakaleg staðreynd. Og önnur í dag, kannski ekki alveg eins svakaleg, en þó allrar athygli verð.

Tökum þær í öfugri röð.

– – –

(Það eru svo enn aðrar ástæður sem aðrir hafa nefnt, fyrir sitt leyti, fyrir hverjum af kostunum fjórum. Ég sé enga ástæðu til að rekja þær hér – ég er ekki að gefa tæmandi yfirlit, bara benda á tvo punkta sem mér sýnist hafa orðið útundan í umræðunni.)

– – –

Hver sá sem eitthvað veit, veit að ef núgildandi lögum um greiðslur vegna Icesave-skuldbindinga gamla Landsbankans verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá taka gildi þau gömlu frá síðasta sumri, þessi með skilmálum og lánakjörum þess sumars frá Bretum og Hollendingum (hvernig var það, voru þeir ekki eitthvað verri en þeir sem verið er að fara að kjósa um á laugardaginn? Ég man það ekki fyrir víst…) og tilsvarandi fyrirvörum sem alþingi setti eftirá. Og Bretar og Hollendingar vildu ekki gangast undir á sínum tíma.

Þessi lög voru samþykkt, frá hendi íslenska ríkisins. Og í raun er Bretum og Hollendingum enn í lófa lagið að samþykkja þau skilst mér, eins og t.d. Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í dag.

Kannski ekki líklegt. En ekki útilokað.

Eins og staðan er í dag er ég ekkert svo viss að meðalkjósandinn vilji þau frekar en það sem fyrir liggur í dag. Ég bara veit það ekki – hefur einhver vegið það og metið?

En það yrði að minnsta kosti alltaf síðra en það sem lá á borðinu og beið eftir undirskrift fyrr í vikunni.

– – –

Ég vek athygli á að það er ekki hægt að velja það sem okkur langar. Það er ekki í boði. Það bjóðast tveir kostir (eða fjórir, vilji maður telja svoleiðis), og ekki nóg með að báðir séu afleitir, heldur er ekki hægt að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar verða af hvorum fyrir sig.

Það er ekki nóg með að þetta sé rússnesk rúlletta. Þetta er rússnesk rúlletta þar sem hvert einasta hólf getur verið hlaðið, eða öll tóm, eða hvað sem er þar á milli.

Mér dettur í hug spurningin sem hann Harrý hreinlætisskerti sagði að maður þyrfti að spyrja sig: „Do I feel lucky?“

– – –

Hin ástæðan er ósköp einföld. Og hræðir mig hálfu meir.

Setjum sem svo að Hollendingar og Bretar sýni það langlundargeð að setjast aftur að samningaborði eftir að lögin verða felld í atkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Enn þess krafist að íslenska samninganefndin hafi umboð frá öllum flokkum á alþingi.

Þetta gefur strax augaleið, er það ekki?

Ef tekur að nálgast lendingu í málinu þarsem reynt er að lágmarka skaðann beggja vegna borðs, þarsem Bretum og Hollendingum er bættur skaðinn án þess að þeir hagnist á sjálfum vaxtaprósentunum, þá veit ég hvar ég hef fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna: Þeir hafa viljað koma þessu útaf borðinu mánuðum saman. Ég er til í að trúa því að Hreyfingarliðið þekki vitjunartímann. Og anskotakornið, einverra hluta vegna held ég meiraðsegja að Sjálfstæðismenn undir forystu Bjarna Ben myndu á endanum gera sér ljóst mikilvægi þess að fá lúkningu á málið.

En framsóknarmenn undir forystu Sigmundar Davíðs get ég bara ekki séð fyrir mér gera neitt annað en að slá hendinni á móti hverju sem býðst. Allt til að geta slegið sér uppá því heimafyrir. Það er ekkert flóknara: Það er sú strategía sem felur í sér mesta pópúlíska skammtímagróðann.

Það ætti að vera nóg fyrir þá að þrjóskast við út árið 2011, fram yfir stóru gjalddagana sem bíða okkar þá og gera allar mögulegar Icesave greiðslur árið 2016 býsna saklausar í samanburðinum.

Það er mun auðveldara að digta upp átórítet til að slá sjálfan sig til riddara þegar ríkið er hrunið og landið stjórnlaust.

– – –

(„Well, do ya, punk?“)

– – –

(P.S. Lenti í þeirri innsláttarvillu við ritunina að káið datt úr nafni Landsbankans. Það var dálítið spúkí.)