Túlkun kosningaúrslita – ágæt forskrift frá Mogganum

Fólk mun mikið deila um hvernig túlka eigi úrslitin eftir kosningar dagsins. Hvernig á að ráða í úrslit þarsem í raun er einungis einn valkostur í boði? Hvað getur það mögulega sagt okkur?

Það er ekki eins og Íslendingar hafi áður gengið til kosninga þarsem í raun var bara einn möguleiki á kjörseðlinum, er það nokkuð?

Eða hvað?

– – –

Nú man ég ekki fyrir víst hvort í tví- eða þrígang hefur verið gengið til forsetakosninga þar sem „utangarðs“-frambjóðandi hefur farið fram gegn ríkjandi forseta. En hitt man ég að í eitt skipti voru úrslit á þann veg að deila mátti um þau: Í forsetakjörinu 2004, þar sem Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson (hvar er hann núna?!) buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni sumarið eftir hina alræmdu neitun á fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar.

Skoðum hvaða forskrift leiðari Morgunblaðsins frá 28. júní 2004 gefur okkur fyrir að ráða í úrslit við svipaðar kringumstæður og munu blasa við okkur í kvöld:

Úrslit forsetakosninganna á laugardaginn var eru (svo!) alvarlegt áfall fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Eftir átta ára setu á Bessastöðum mættu um 28 þúsund Íslendingar á kjörstað til þess að skila auðu og láta með þeim hætti í ljósi andúð sína á vinnubrögðum forsetans og afstöðu. Um 80 þúsund kjósendur sáu ekki ástæðu til að koma á kjörstað, sem að hluta til má skilja sem vísbendingu um andstöðu einhverra úr þeirra hópi við forsetann og endurkjör hans. Um 13 þúsund kjósendur greiddu Baldri Ágústssyni atkvæði, sem snemma í vor var lítt þekktur meðal landsmanna.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands í átta ár og hefði átt að komast langt með það á þessum tíma að fylkja þjóðinni að baki sér sem forseta, þótt hann væri einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins á sinni tíð. Það hefur þó ekki tekizt betur en svo, að í þessum kosningum hlaut hann einungis atkvæði um 42,5% kosningabærra Íslendinga til þess að gegna forsetaembættinu áfram.
Allt eru þetta skýrar vísbendingar um að ótrúlega stórum hópi kjósenda hefur mislíkað hvernig forsetinn hefur sinnt embættisstörfum sínum og skyldum.

Þetta eru tölur sem er ekkert verra að hafa til hliðsjónar en hverjar aðrar. Ef, þegar upp verður staðið,fjöldi þeirra sem heima sitja, skila auðu eða ógildu, eða merkja við „já“ nær slíkum tölum að ekki nema um fjörutíu til fjörutíuogfimm prósent kosningabærra manna merkir við „nei,“ sem nánast allir (nema einhverjar furðuskepnur eins og undirritaður) halda fram að hafi verið eini raunhæfi kosturinn, þá ætti samkvæmt þessari ágætu forskrift leiðarahöfundar Moggans að vera kristaltært að úrslitin séu „alvarlegt áfall“ fyrir þá sem hafa hvatt fólk til að fella lögin. Það ættu að geta talist „skýrar vísbendingar“ um að „ótrúlega stórum hópi kjósenda“ hafi mislíkað þetta fíaskó alltsaman.

Með öðrum orðum: Það hlyti Mogginn þá að kalla „skýr skilaboð.“

Og ef ég man rétt, þá er það akkúrat það sem „við“ þurfum að senda til „umheimsins.“

Ekki satt?

– – –

Einhversstaðar þar fyrir ofan bíður grátt svæði. Ef talan verður sirkabát, segjum, kringum sextíu prósentin má sennilega fara að deila um hversu skýr skilaboðin eru. Og svo má náttúrulega fara að rífast um það hver þau séu, þessi skilaboð sem sumir myndu þá halda fram að væru skýr en aðrir óskýr.

Og ættu þá allir að una glaðir við sína þrætubók enn um sinn.

– – –

Sjáum til. Ég bíð pínu spenntur.