Það gerist einhvern veginn minna þegar frúin er ekki með manni. Svo það voru rólegheit á okkur fram eftir föstudegi. Það er komin þessi skemmtilega skábraut niður þrepin ofaní stofuna og það var hægt að dvelja sér lengi við að keyra bílana upp og niður. Strákurinn var svona mestanpart hressari en hann hafði verið daginn áður, svo hann fékk að fara með uppí hesthúsið hennar ömmu uppúr hádeginu. Hann þótti hinsvegar ekki hressari en svo að hann var skilinn eftir hjá ömmu og afa á meðan við feðginin fórum í sund að hitta gamla skólafélaga. Þar varð stelpunum svo vel til endurnýjaðra kynna við krakkana þeirra að þær fengu að fara með þeim heim í kvöldmat og ég fór einn heim til stráksins. Planið var að við myndum fara báðir feðgarnir að ná í frúna á flugvöllinn uppúr kvöldmatnum og sækja svo stelpurnar í bakaleiðinni. Þá var hinsvegar orðið svo lágt á honum risið að hann fór bara að sofa.
Eyjafjallajökull var til friðs. Af ferð minni með frúna frá flugvellinum til vinanna í Munkaþverárstrætinu fara engar sögur hér. En þar var setið frameftir kvöldi, spjallað og sötrað viskuvatn.
– – –
Á laugardeginum fórum við öll í dagsferð í Mývatnssveitina með föður mínum, systur og mági; einbíla, þarsem jeppinn tók sjö farþega. Stoppað í fuglasafninu, á aldarfjórðungsafmæli Mýflugs og etið rúgbrauð með reyktum silungi í Dimmuborgarsjoppunni. Goðafoss á leiðinni heim. Hin ágætasta för að öllu leyti. Systurfjölskyldunni boðið í lambalæri um kvöldið.
– – –
Í dag var farið í heimsóknir til vina, rætt um Evróvisjón, sveitarstjórnarkosningar, uppbyggingu menntakerfisins, hnignun ungdómsins í dag og andlegan, táknrænan og veraldlegan dauða fegurðarsamkeppna. Svo var endað í fermingarveislu í Laugaborg þar sem góðar veitingar voru þegnar og heilsað uppá frændfólk. Undir svefninn skutust stelpurnar svo og litu á hestana með ömmu sinni fyrir svefninn.
Á morgun er síðasti dagurinn hér fyrir norðan. Við fljúgum suður síðdegis og verðum fyrir sunnan það sem eftir er af Íslandsdvölinni.