Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 2

Sá skapmikli svaf í ferðabarnarúmi inni hjá okkur hjónum í nótt sem leið. Eða, svo langt sem það náði. Það fóru eitthvað plaga hann í honum eyrun þegar komið var fram yfir miðnættið, svo svefninn var laus hjá okkur öllum þremur það sem eftir lifði.

– – –

Ég var búinn að gleyma hverafýlulyktinni af heita vatninu. Hún rifjaðist upp undir sturtunni í morgun. Eða maður var náttúrulega svo samdauna henni sem hvunndagslegur íbúi.

– – –

Annan daginn í röð var lánið með okkur með flugið – við lentum á Akureyrarflugvelli í hádeginu þar sem amma beið með Skódann. Síðdegis fór ég með strákinn á heilsugæsluna til að láta líta í eyrun á honum – hann svaf í flugvélinni og vaknaði hálfu argari en áður. Þrýstingsbreytingarnar eflaust ekki til að bæta ástandið í miðeyranu.

Á heilsugæslunni hitti ég gamlan vin, sem vildi svo vel til að var heilsugæslulæknirinn sjálfur. Við mæltum okkur mót með fleirum í lauginni á morgun.

Ég er samt hræddur um að amma fái að passa strákinn á meðan.

– – –

Amma fór svo með systurnar í hesthúsið meðan við langfeðgarnir sátum heima allir þrír. Strákurinn var ekkert alltof hrifinn þegar við karlarnir stóðum fastir á því að horfa á endursýningu á Stiklum Ómars Ragnarssonar. En lúffaði. Sofnaði svo í fanginu á mér.

– – –

Lítið rætt um pólitík í dag – minna en í síðustu heimsókn. En eitthvað þó. Og allt á sama máli, ólíkt því sem einhvern tíma var.

– – –

Frúin verður við jarðarför fyrir sunnan á morgun og kemur svo undir kvöldmatinn.

Humm. Við þurfum eitthvað að tímastilla það með hliðsjón af því að við feðgin verðum í sundi á Skódanum og jeppinn í viðgerð á verkstæði.

Sjáum til.