Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Það var óvenju lítið að gera í Frankfurtarflughöfn þegar við tékkuðum okkur inn. Ég hef aldrei séð svona lítið að gera þarna. Spurning hvort spili stærri rullu: Rísandi Eyjafjallajökull eða fallandi evra. Eða bara hrein hending.

Sáum súluna stíga upp af honum og yfir skýjaþykknið út um kýraugað á stjórnborða þegar flugið var lækkað til lendingar. Tignarlegt. Og alltíeinu langaði mig ekkert sérstaklega til að keyra þangað og skoða nánar. Þetta er ekki jákvæðasta og mest aðlaðandi orka í heimi að horfa á hana.

Jaðrar kannski við lög að segja svona? Geta ferðaþjónustuaðilar nokkuð kært mig fyrir að segja svona upphátt?

Við fengum Moggann og ég greip tækifærið til að fletta honum, í fyrsta skipti í meira en ár. Ég komst að því að það er að minnsta kosti ekki búið að eyðileggja bridsdálkinn.

Horfði á Bjarnfreðarson í „inflight entertainment.“ Og fannst hún hinsvegar stórkostleg.

– – –

Það er orðið mjög athyglisvert þegar maður kemur svona sjaldan til landsins að sjá hvernig mynd er máluð af landinu með auglýsingaskiltunum sem heilsa manni þegar gengið er frá borði í Keflavík. Nú er orðið mjög sláandi hversu mikil athygli er lögð á að prómótera íslenskan útivistarfatnað (sem var reyndar fyrir), ullarvörur og heimilisiðnað (sem er nýrra trend). Og hvað það er gert á svakalega hipp og kúl máta. Ég sá þarna auglýsingamyndir af fólki í ullarpeysum sem voru svo slick að langaði mest að troða ullarsokki í brókina þegar maður sá þær. Algjöra listgerninga í ímyndarsköpun.

Ojæja, það situr þá eitthvað eftir af gróðærinu: Auglýsingagúrúar sem þekkja leiðirnar að brautunum sem hægt er að virkja í hausnum á okkur. Og þætti þá sumum til einhvers unnið. Eða tapað, ef við viljum líta svoleiðis á það.

Spjaldið sem skar sig úr og stakk í augu eins og Höfðatorgsturn í Árbæjarsafninu var auglýsing fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, mér liggur við að segja svokallaða. Eftir því sem mánuðirnir líða verður allt einhvern veginn meira og meira rangt við það. Maður sá rautt við að horfa á auglýsingaspjaldið. Rautt spjald.

Keypti Ítrekun Mugisons og Go með Jónsa í fríhöfninni, með nokkrum DVD fyrir krakkana (íslenska talið fyrir krakkana sko). Fékk svo í kvöldmatnum ábendingu frá mági mínum um einn disk í viðbót sem mér myndi líka: Diskinn frá í fyrra með Kimono. Hef kannski augun opin fyrir honum í fríhöfninni á leið út aftur.

– – –

Annars erum við öll komin í Grafarvoginn þarsem við gistum yfir nótt áður en við fjögur feðgin fljúgum norður yfir heiðar í fyrramálið (ef Earth, Wind and Fire leyfa okkur það). Frúin kemur svo sömu leið hálfum öðrum sólarhring á eftir okkur. Þetta lítur allt sæmilega út í augnablikinu, en maður trúir því þá fyrst að þetta gangi þegar maður horfir uppá Súlur útum landganginn á vélinni.

Svo aftur í Reykjavík í næstu viku, þetta verða fimmtán dagar og fjórtán nætur í allt.