Evróvisjónæði! (fyrsti hluti)

Ekki dauður enn, þótt ég hreyfi mig hægt.

Ég hef þagnað um lengri og skemmri tíma áður. Haft lítið fram að færa svo mánuðum skiptir. En eitt er á tæru. Öll þau rúmlega sjö ár sem ég hef bablað þetta hefur aldrei orðið messufall í kringum Evróvisjón. Og ég ætla sko ekki að fara að byrja á því núna.

– – –

Fyrra undankvöldið í ár verður annan þriðjudag héðan í frá, 25. maí. Þá verðum við (ef jörð og vindar leyfa) öll á skerinu, í annarra manna húsum. Svo það er ekkert sjálfgefið að ég endurtaki leikinn frá í fyrra, þegar ég tjáði mig um herlegheitin í rauntíma (sem ég hafði reyndar mjög gaman af, ég segi það fyrir mig). En þá hef ég allavega póstað þessu hérna.

Kvöldið byrjar á framlagi Moldavíu. Þetta er óttalegt hvítarusl, en fer nú sennilega áfram. Stelpan virðist geta sungið sæmilega skammlaust, strákurinn nær varla að eyðileggja það fyrir henni og sjóið stefnir í að verða eitt brjálæðislega yfirdrifið kitsj. Og rifni saxófónninn. Ekki minnast ógrátandi á þetta rifna saxófónsóló. Mér finnst að það ætti að frysta allar veraldlegar eigur hvers þess manns sem dirfist að nota rifinn saxófón í tónsmíð á almannafæri.

Fyrsti grínentrans kvöldsins er frá Rússlandi. Nei djók. En það er algjört möst að sjá þetta og njóta, bara fyrir þórðargleðina. Ég er samt ekki alveg viss um að Peter Nalitch sé gleymdur og grafinn, þrátt fyrir hörmulegt lag, grátbroslegan flutning og krampavekjandi fyndinn texta. Hann slefar sennilega í úrslitin á brottfluttum atkvæðum til þess að sitja svo eftir í neðri helmingnum á laugardagskvöldið.

Eistneska lagið heillar mig algjörlega uppúr skónum. Mjög sjarmerandi. Skemmtilega retró alltsaman og krókur sem límir sig pikkfastan við heilabörkinn. Ég verð illa svikinn ef hann Malcolm Lincoln kemst ekki áfram. En einhvernveginn finnst mér ég reyndar spá Eistlandi áfram á hverju ári og alltaf situr það eftir. Ég má til með að setja hérna inn lifandi flutninginn (ég mæli líka með kynningarvíðgesjóninni þar sem hann labbar um í snævi þöktum skógi með risavaxinn haus af David Byrne á herðunum):

Lagið frá Slóvakíu virkar vel. Kannski dálítið venjulegt, lágstemmt og ekki alveg verið að brjóta upp formið, en stúlkan heldur lagi og það er eitthvað pínu sjarmerandi við þetta dæmi alltsaman. Þetta fer sennilega áfram.

Lagið frá Finnlandi er dálítið spes. Þá á ég við spes á sama máta og finnsku lögin á liðinni öld voru spes, frekar en Lordi-spes. But in a good way. Það væri gaman að sjá krakkana í  Kuunkuiskaajat (nafnið segir allt sem segja þarf) fara áfram eins og furðulega margir spá þeim, en ég er ekki alveg sannfærður um að svo fari.

Lettland grunar mig að verði stórslys kvöldsins númer tvö. Hún Aisha er alls ekki örugg söngkona, lagið er lélegt og textinn til þess að gnísta tönnum yfir. En það má alls ekki missa af þessu — þetta gæti orðið spectacular failure.

Serbía fer sennilega áfram, enda kemur þaðan skásta lag kvöldsins af Balkanskaganum og balkanbítið keyrt uppí ellefu. En samt aðallega fyrir það að hin Balkanlög kvöldsins skuli vera slík óskapanna hörmung sem þau eru. Svo er krúttið hann Milan Stankovic svo skelfilega sætur og rakar ábyggilega einhverju inn á hárgreiðslunni. Sérstaklega ef hann skiptir um föt í miðju lagi.

Lagið frá Bosníu og Herzegóvínu er hinsvegar algjörlega ömurlegt. Andlaust iðnaðarrokk með banal texta og illa sungið í þokkabót. Ekki einu sinni þannig að hægt sé að hafa gaman af því, svo þetta ætti að vera kjörin pissupása fyrir þá sem þurfa.

Lagið frá Póllandi er. Humm. Pínu sjarmerandi, reyndar. Ef maður kemst yfir hversu byrjunin er skelfileg. Hann  Marcin Mrozinski kann að syngja nógu vel, svo lengi sem þessar hálfglötuðu bakraddir skemma ekki of mikið fyrir honum.

Belgía hefur sjaldnast riðið feitum hesti frá Evróvisjón í seinni tíð. En ég held svei mér þá að það gæti brugðið út af vananum þetta árið: Hann Tom Dice kemst áfram með gítarinn sinn ef eitthvað er sanngjarnt. Þrátt fyrir þetta sé í rauninni lítið annað en hreint og klárt Tracy Chapman rippoff.

Svo lengi sem ég man hefur mér þótt maltneska framlagið ömurlegt. Undantekningalaust. Það breytist ekki í ár. Og bætir bara í, ef eitthvað er. Þótt stelpan geti sungið, þá er lagið leiðinlegt og fuglamaðurinn hreintútsagt martraðarvekjandi. Þessi hörmung ætti að sitja eftir ef eithvað réttlæti er til í veröldinni. En Malta kemst reyndar vanalegast áfram, án þess að ég botni nokkru sinni neitt í því.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um Albaníu í ár. Það hefur tekist að finna alveg ágæta söngkonu, en lagið er meira svona meeeh. Þetta gæti oltið dálítið á sjóinu: Ef þau ná að kokka upp eitthvað á svipuðum skala og smaragðsgræna og augnalausa himpigimpið sem hefur ásótt martraðir mínar annað veifið frá keppninni í fyrra, þá flýgur þetta áfram. Albanía hefur líka einhvernveginn haft meðvind hingað til. Ég held varla að það breytist í ár.

Það er óvenju lítið varið í gríska lagið í ár: Söngurinn er ekki góður og einhvernveginn varla einsog þeir nenni þessu strákarnir. Hvar er Sakis Rövas þegar maður þarfnast hans? Samt er eitthvað sem segir mér að þetta eigi eftir að ná inn í úrslitin. Get ekki alveg útskýrt af hverju. En ég myndi gleðjast yfir að hafa rangt fyrir mér.

Ég er ekki eins hrifinn af portúgalska framlaginu og ég var síðustu tvö ár. Þótt stelpan kunni að syngja þá finnst mér lagið væmið og asnalegt og þetta er bara alltof Idol eitthvað. Það fer voðalega í mig svona trillerí, alltsaman. Og Portúgal er ekki land sem kemst áfram fyrir neitt minna en toppframmistöðu á öllum vígstöðvum.

Hvað er hægt að segja um lagið frá Makedóníu? Miðaldra skallapoppara með skóreim um hálsinn og fagmennskurokkið í fyrirrúmi?  Ég veit: Það er bara yfirmáta öfmó. Ekkert minna. Varla þess virði að bíða eftir gestarappinu. Ekki einu sinni hammer-on gítarsólóið í restina nær að bjarga því. Það má mikið vera ef makedóníska heilkennið gerir vart við sig í ár. Og annar iðnaðarrokksentransinn frá fyrrum Júgóslavíu þetta kvöldið. Eru einhverjir þungamálmar í vatninu þarna á Balkanskaganum?

Ég veit ekki alveg með Hvíta Rússland. Þrír plús tveir snoppufríðir og sandblásnir táningskrakkar með hugljúfa óperuballöðu. Þetta er náttúrulega alveghreint yfirmáta hallærislegt. Og þá meina ég ekki alveg endilega í bestu merkingu þess orðs. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þeir syngja þetta læf krakkarnir, en það hangir eiginlega allt á því. Þetta gæti heillað. En mér finnst samt líklegast að þetta eigi allt eftir að enda með ósköpum.

Svo er það hún Hera Björk. Og ég verð bara að segja að hún heillar mig ekki. Hún er auðvitað góð söngkona og allt það, en lagið er bara nauðaómerkilegt og ég á enn eftir að heyra og sjá hana flytja það þannig að dugi til nokkurs.  Ég man ekki eftir að hafa verið svona lítt hrifinn af íslensku framlagi síðan einhverntíma á tíunda áratugnum. Hún á sosum séns á að komast áfram, ég er bara ekkert voðalega bjartsýnn á stærðina á honum.

Ég er nokkuð sjúr á að Moldavía, Eistland, Slóvakía, Serbía og Belgía komast áfram eftir kvöldið. Mér finnst líklegra en ekki að Albanía og Grikkland fljóti með (misverðskuldað). Ég myndi mjög gjarnan vilja sjá bæði Finnland og Pólland komast í gegn líka. Og svo tel ég nokkuð garanterað að rússneska furðuverkið fari áfram á brottfluttum atkvæðum.

Ég get alveg liðið bæði Portúgal, Íslandi og Hvíta-Rússlandi (ef þau geta sungið) að komast áfram, þótt mér þyki þau öll ólíklegri kandídatar. Og þá helst á kostnað Grikklands eða Rússlands. En ef Lettland, Bosnía-Herzegóvína, Makedónía eða Malta ná að troða sér inn, þá veit ég ekki hvert ég ætla.

Og læt það duga í bili.