Það eru leiðinlegu dagarnir akkúrat núna, eða þeir eru það a.m.k. fyrir aðra að fylgjast með þeim. Ef einhverjir nördar villast hérna inn er bara best að þeir skrolli strax neðst niður.
– – –
Það var brjálað maratonnsprógramm á lokadegi Akureyrardvalar – reynt að koma sem mestu í verk sem farist hafði fyrir um helgina. Um síðmorguninn var byrjað á að hjálpa doktor Sumarbrosi við flutninga. Svo var dögurður hjá frænku frúarinnar. Krakkarnir fóru allir á hestbak í síðasta sinn, og á bakaleiðinni úr hesthúsinu var heilsað uppá fyrrverandi bæjarfélaga frá Tübingen, frúin rak inn nefið hjá vinkonu sinni og keyptar DVD-myndir og gúmmítúttur á krakkalínuna í Nettó á Glerártorgi.
Svo var flogið. Án frekari tíðinda. Jökullinn hættur (a.m.k. í bili) og allt.
Ótrúlegt en satt, þá var gærkvöldið fyrsta kvöldið á landinu sem við fengum fisk. Etið úti á palli í góða veðrinu.
Djödl ógeðslega var það gott.
– – –
Dagurinn í dag er fyrsti af þremur í vinnu. Hlé frá fríinu. Fámennt en góðmennt í Sturlugötunni og ágætir endurfundir við gamla vinnufélaga. Og einn nýjan frá Svabíu sem kom hingað fyrir hálfum öðrum mánuði í fangaskiptum fyrir undirritaðan.
Í hádeginu var etið á Jómfrúnni með tveimur góðum vinum. Og lítið meira af tímanum fram að kvöldi að segja. Nema þegar ég steig útúr strætó í Spönginni og horfði á Úlfarsfellið og Esjuna yfir sólgullin sundin þá kýldi það mig í magann hvað ég elska þetta land. Eins og ég myndi elska drykkfellt stórasystkin í ruglinu, ef ég ætti svoleiðis.
– – –
Ég var nokkuð ánægður með forkeppni kvöldsins. Það var minna af gígantískum gloríum en áður fannst mér, bæði í jákvæðu og neikvæðu merkingunni. Meirihlutinn frá soddan miðjumoði upp í alveg svona ágætt bara. Allur söngur nánast skammlaus, nema stelpan frá Lettlandi, hún var jafnvel enn verri en ég átti von á. Og þurfti mikið til. Flutningur svona allaveganna, en flestir stóðu undir því pari sem hægt var að setja þeim fyrir.
Skorið hjá mér eftir kvöldið er ekki nema sextíu prósent, en ekki nema eitt land sem kom mér á óvart að kæmist áfram: Bosnía-Herzegóvína var skárri en ég hafði átt von á, en ekki það mikið skárri. Portúgalska stúlkan var mun minna óþolandi en fyrirfram mátti ætla og söng alveg ljómandi vel. Það gerðu krakkarnir frá Hvíta-Rússlandi líka, og fiðrildavængjagimmikkið var ódauðlega móment kvöldsins og eitt og sér næg ástæða til að senda þau áfram. Hera Björk söng vel, verð ég að játa. Þetta var fyrsta skiptið sem mér fannst hún syngja þetta vel. Og dugði til.
Eistneska strákinn vantaði einhvern neista þegar til kom. Slóvakísku stelpuna líka (og svo söng hún pínu flatt). Ég er pínu leiður fyrir hönd finnsku stelpnanna – þær hefðu alveg mátt komast áfram. En Pólland maður, hvað var ég eiginlega að spá?!
– – –
Vinna á morgun og hinn, og svo byrjar fríið hjá mér aftur frá og með fimmtudagskvöldinu. Ég hef verið alltof upptekinn til að setja mig alminlega inní fimmtudagsriðilinn. Sennilega verð ég bara að gera honum skil í beinni, eins og ég gerði í fyrra og hafði gaman af. Ég var að gæla við það áðan að gera svoleiðis undir keppninni í kvöld, en svo var tæknin eitthvað að stríða mér á tölvuöld.