Ignóbelsverðlaunin 2010 voru veitt í Harvard síðastliðið fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn (þá tuttugustu fyrstu árlegu, nánar tiltekið). Þar voru verðlaunuð eftirfarandi vísindaleg afrek sem áttu skilið að fá viðurkenningu fyrir að, með orðum verðlaunanefndarinnar, „fá fólk til að hlæja, og svo til að hugsa.“
Verkfræði: Fyrir að þróa aðferð til að safna hor úr blæstri hvala með fjarstýrðri þyrlu.
Læknisfræði: Fyrir þá uppgötvun að hægt sé að draga úr asma með því að setja asmasjúklinginn í rússíbana.
Samgönguskipulagsfræði: Fyrir að nota slímmyglu við að reikna út hvernig best sé að leggja járnbrautarteina. Hluti viðtakenda voru hér að vinna sín önnur IgNóbelsverðlaun, þar sem þeir voru einnig í hópnum sem vann verðlaunin í hugvísindum árið 2008 fyrir að uppgötva að slímsveppir geta leyst völundarþrautir.
Eðlisfræði: Fyrir að sýna fram á það með tvíblindri slembirannsókn að fólk rennur síður á rassinn í hálku ef það fer í sokkana utan yfir skóna (sjá mynd 1).
Friðarverðlaun: Fyrir vísindalega staðfestingu á þeim gömlu alþýðusannindum að það dregur úr sársauka að bölva hressilega þegar maður meiðir sig.
Lýðheilsuverðlaun: Fyrir að sýna fram á að skeggjaðir vísindamenn eru gróðrarstíur baktería. Ég hvet lesendur eindregið til að kynna sér verðlaunagreinina, „Microbiological Laboratory Hazard of Bearded Men“ eftir Barbeito et al., sem birtist í tímaritinu Applied Microbiology árið 1967. Klassísk grein í fræðunum og vel studd dæmum (sjá myndir 2 og 3).
Hagfræði: Stjórnendur Goldman Sachs, AIG, Lehman Brothers, Bear Stearns, Merrill Lynch, og Magnetar fjármálastofnananna, fyrir að skapa og ýta undir nýjar fjárfestingarleiðir til að hámarka fjárhagslegan gróða og lágmarka áhættu fyrir fjármálakerfi heimsins, eða hluta af því. Hagfræðiverðlaunin í ár kallast því skemmtilega á við hagfræðiverðlaun IgNóbels í fyrra, sem fóru einmitt til Íslands, sællar minningar.
Efnafræði: Veitt rannsakendum frá MIT og háskólanum á Hawaii, sem hröktu þær gömlu kerlingabækur í skýrslu á vegum BP árið 2005 að olía og vatn blandist ekki saman.
Mannauðsstjórnun: Fyrir stærðfræðilega útskýringu á því að affarasælasta leiðin til að veita stöðuhækkanir innan stofnana og fyrirtækja er að velja bara einhvern af handahófi.
Líffræði: Fyrir vísindalega skrásetningu á munnmökum meðal ávaxtaleðurblakna. Bæði er hægt að nálgast greinina í heild sinni, og þeir sem eru ekki fyllilega sannfærðir geta séð þetta með eigin augum á þjónvarpinu.
Góðar stundir.