Um bakgrunn og hagsmunatengsl

Ég heiti Hjörvar Pétursson. Ég er fæddur á Akureyri 1972 en ólst einnig upp á Blönduósi og að Hólum í Hjaltadal áður en ég flutti til Reykjavíkur um tvítugt. Ég útskrifaðist sem líffræðingur (B.Sc.) frá Háskóla Íslands 1996, starfaði á tölfræðideild Íslenskrar Erfðagreiningar frá 1998, og hef starfað við læknisfræðilega erfðafræðideild Háskólasjúkrahússins í Tübingen í Þýskalandi frá vorinu 2009. Jafnframt vinn ég að mastersverkefni um erfðir handskjálfta við læknadeild Háskóla Íslands. Ég er kvæntur Árnýju Guðmundsdóttur táknmálstúlki, bókasafns- og upplýsingafræðingi og mastersnema í fötlunarfræðum. Við eigum þrjú börn, það elsta fætt árið 2000.

Svipan.is hefur undanfarna daga verið að safna saman banka af upplýsingum fyrir stjórnlagaþingkosningarnar (sjá dæmi um undirritaðan). Þar má finna upplýsingar um ekki bara stefnumál frambjóðenda og bakgrunn, heldur líka  hagsmunatengsl þeirra og fleira. Það eru gagnlegar upplýsingar þarna fyrir þá sem þurfa að gera upp hug sinn. Sérstaklega þetta með hagsmunatengslin, sem ég veit ekki hvort nokkur annar vef- eða annarskonar fjölmiðill hefur lagt sig fram um að halda til haga fyrir kjósendur. Þar sem mér finnst skipta mjög miklu máli að fólk viti hvaða hagsmunir geti skarast við störf þeirra sem kjósast á stjórnlagaþing vil ég hnykkja sérstaklega á því fyrir mitt leyti:

  • Ég skráði mig í VG til að geta kosið í prófkjöri fyrir kosningar vorið 2009, en hef hvorki tekið þátt í flokksstarfi í þeim flokki né öðrum.
  • Ég vann um langt árabil á Íslenskri Erfðagreiningu og þykir vænt um það starf sem þar hefur verið unnið. Ég kom ekki auga á þetta strax, en ef upp kæmi umræða í tengslum við möguleg mannréttinda- eða náttúruauðlindaákvæði stjórnarskrár um það hvort kveða ætti á um rétt einstaklinga m.t.t. lífsýna, þá gæti þetta þótt skipta máli. En mér þykir bara svo sjálfsagt að sá réttur sé alltaf metinn einstaklingnum í vil. Og ég tel mig geta sagt að það fannst öllum sem ég hafði þá ánægju að vinna með á Íslenskri Erfðagreiningu.
  • Það má e.t.v. telja til hagsmunatengsla sem ég hef gegnum störf og nám konu minnar að ég hef haft kynni af málstað heyrnarlausra og nauðsyn þess að tryggja mannréttindi þeirra, eins og allra, óháð tungu, menningu eða fötlunum.
  • Ég hef verið utan trúfélaga síðan árið 2007 og ekki verið virkur í neinu félagsstarfi tengdu trúmálum eða afstöðu til þeirra. Kona mín og börn eru í Þjóðkirkjunni.

Ég vil hvetja fólk til að kynna sér bakgrunn og möguleg hagsmunatengsl þeirra sem það gæti hugsað sér að kjósa til stjórnlagaþings. Og ganga eftir því að fá upplýsingar um hagsmunina, ef þær liggja ekki fyrir.

Það er auðvitað ekki það eina sem skiptir máli. En það verður að vera hægt að taka það með í reikninginn.