Um nýjan sáttmála

Í október 2008 rofnaði sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Sáttmáli sem má segja að sé rofinn ennþá, og óvíst hvort og þá hvenær gengur saman aftur. Það er einhvern veginn eins og það sé sama hvað er tekið til umræðu þessa dagana, það loga illdeilurnar. Hver höndin rís upp á móti annarri. Það er talað um gjána milli þings og þjóðar. En það er líka gjá milli þings og þings. Og milli þjóðar og þjóðar.

Sáttmálinn er rofinn. Okkur vantar nýjan sáttmála.

– – –

27. nóvember verður kosið til stjórnlagaþings. Nú er tæpur mánuður þangað til. Nánast sléttar fjórar vikur.

Hverja myndir þú vilja sjá á stjórnlagaþingi? Hefurðu velt því fyrir þér? Hefurðu kynnt þér eitthvað af framboðunum?

Þú hefur mánuð.

– – –

Stjórnarskrá þjóðar er sáttmáli hennar við sjálfa sig og yfirvöld sín. Hún segir, „Þetta er sá rammi sem okkur er markaður. Frelsi og skyldur, einstaklinga sem stjórnvalda, skulu hið allraminnsta ná til þess sem hér er talið.“ Útfærslan má ekki vera of nákvæm, einstaklingar geta verið (og eiga að vera) ósammála um þá stjórnarháttu sem fylgt er í þetta eða hitt kjörtímabilið. En svo lengi sem stjórnvöld starfa innan ramma stjórnarskrárinnar á útfærslan ekki að þurfa að skipta máli: Hvort þau séu til hægri eða vinstri innan rammans, íhaldssöm eða frjálslynd, í alþjóðasamstarfi eða þjóðvörn. Svo lengi sem sáttmálinn heldur.

– – –

(Ég kríta náttúrulega pínu: Sá sáttmáli sem ég talaði um að hefði rofnað í október 2008 var auðvitað ekki stjórnarskráin. Ekki bara. En hún var partur af vandamálinu. Og sá partur þess sem stefnt er á að setja í slipp um miðjan febrúar næstkomandi.)

– – –

Ég hef áður sagt að mér þyki nauðsynlegt að endurstilla hlutföllin í þrískiptingu ríkisvaldsins. Draga úr styrk framkvæmdavaldsins. Auka sjálfstæði dómstóla og alþingis. Og ég er ekkert einn um það – mér sýnist meirihluti frambjóðenda vera á þessari skoðun.

En hvernig? Hvað er hægt að gera?

Það er hægt að leggja út í róttækar breytingar á ýmsum köflum stjórnarskrárinnar: Gerbylta skipulaginu, afnema skilyrðið um stuðning meirihluta þings við ríkisstjórn, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, taka upp einmenningskjördæmi eða gera landið allt að einu kjördæmi. Engin af þessum hugmyndum er fyrirfram óraunhæf. Borðið er galopið, það er hægt að taka hvað sem er til greina. Og það er það sem á að gera – hugleiða kosti og galla hverrar þeirrar lausnar sem stendur til boða. Við verðum að gera það.

Mig grunar að þetta verði vandratað – við viljum nýja stjórnarskrá sem er sitt eigið sjálfstæða mannanna verk, þannig að við túlkun á einstökum atriðum hennar verði ekki hægt að halla sér til hæginda upp að því hvernig við túlkuðum þá gömlu. En ef breytingin verður of stór, ef nýja lýðveldið (og já, ég geri ráð fyrir að Ísland verði áfram lýðveldi) verður of ólíkt því gamla, þá er mögulegt að fólki finnist það of framandi, að fólk eigi þá erfiðara með að líta á þessa nýju stjórnarskrá sem sína eigin.

Ein leið til að nálgast þetta væri eftirfarandi: Sjáum hverju er hægt að breyta við núverandi stjórnskipan þannig að hún verði í megindráttum svipuð, en samt þannig að tekið sé fyrir þá galla á skipulaginu sem fólk telur þörf á að bæta. Ef slíkar breytingar duga ekki til að ná því fram sem fólki finnst þurfa, eða ef útkoman er óttalegur hortittur, þá er ekki undan því vikist að grípa til róttækari ráða.

– – –

Svo hvað er vandamálið? Byrjum á því helsta: Framkvæmdavaldið er of sterkt, löggjafar- og dómsvald eru of veik, og stjórnkerfið er í það heila tekið undir of miklum áhrifum frá valdablokkum innan stjórnmálaflokkanna. Hvað getum við gert við því?

Veltum því fyrir okkur til morguns – þá skal ég velta upp nokkrum hugmyndum. En svo væri líka gaman að fá að heyra fleiri.