Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt.

Jæja, þá er þjóðfundi lokið og virðist sem hann hafi lukkast vel. Þá þarf bara það fólk sem er sammála því sem þar kom fram að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþingið til að framkvæma það.

Þeir sem eru kosnir á stjórnlagaþing eru náttúrulega ekki bundnir af neinu öðru en sinni eigin sannfæringu. Þeir þurfa ekki að taka mark á niðurstöðum þjóðfundar frekar en þá langar.

Mér er þannig farið að það eru þau mál sem mér finnst skipta miklu máli að séu á ákveðinn máta. Köllum þau baráttumál. Til dæmis þetta með þrískiptinguna og áhrif stjórnmálaflokkanna sem ég nefndi í síðustu viku. Svo eru önnur þau mál sem ég hef mína skoðun á, sem ég myndi kjósa að væru á þennan eða hinn veginn, en þar sem ég geri ráð fyrir að afstaða mín myndi að stórum hluta mótast af andrúmsloftinu á þinginu sjálfu. Ég ætla rétt að vona að flestum frambjóðendum sé svipað farið.

Tökum dæmi.

– – –

Ég er utan trúfélaga. Ég hef verið það síðan í nóvemberlok 2007. Þetta verða þrjú ár á kosningadaginn, nánast upp á dag. Og mér líður ljómandi vel með þetta. Enda er ég trúlaus.

Konan mín og börn eru í þjóðkirkjunni, og samkvæmt því ölum við börnin upp. Ég segi þeim hvernig á að koma fram við náungann og fer með bænirnar með þeim á kvöldin. Og mér líður ljómandi vel með það líka. Þannig var ég alinn upp, og komst þó þangað sem ég er í dag.

Einhverjum öðrum trúlausum finnst ég kannski vera að gera þetta afturábak: Að maður eigi ekki að byrja á að innræta börnunum; ef þau vilji taka trú þá geti þau gert það þegar þau þroskast. En mér finnst þetta einmitt eiga að vera á þennan veginn en ekki öfugt: Það þarf þroska til að kasta trúnni.

Ég hef ekkert verið mikið fyrir að útvarpa þessu, þótt þetta sé ekkert leyndarmál – það verður bara hver að segja sínum guðum upp sjálfur, finnst mér.

Í ljósinu af ofansögðu er kannski ekkert skrítið að ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.

Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.

– – –

Ég á enn eftir að nefna það sérstaklega í hér meginmáli að auðkennisnúmer mitt er 3502.

Einnig vil ég benda á stuðningssíðu framboðsins á fasbók.

Join the Conversation

 1. Avatar
 2. Avatar
 3. Avatar
 4. Avatar
 5. Avatar
 6. Avatar

11 Comments

 1. Þetta er skemmtileg nálgun á trúmál. Þetta að kenna börnunum bænir osfrv. Þetta er svipað og að þú kennir þeim ungum að hjóla. Þótt þau hætti að hjóla unglingar þá búa þau alltaf að kennslu þinni og ef þau seinna meir lenda í háska og þurfa að hjóla þá kunna þau það. Þetta vissi Kathólska kirkjan. Ég lít á þetta jákvætt. Þú ert að tryggja börnum þínum ákveðið haldreipi sem þeim verður aðgengilegra ef þau þurfa á að halda seinna.
  Ég er ekki frá því að ég kjósi þig fyrir þetta öfgaleysi.
  Víglundur

 2. Þakka þér traustið Víglundur.

  Sjálfum finnst mér reyndar engir öfgar að vilja ala börnin sín upp í trúleysi. Það er bara önnur nálgun á uppeldinu og hún sjálfsögð og eðlileg, a.m.k. á þeim heimilum þar sem báðir foreldrar eru trúlausir. Svona er fyrirkomulagið bara á okkar heimili og mér finnst það fínt.

  Aðalmálið er náttúrulega að börnin séu alin skikkanlega upp. Og ég held að það sé nú ekkert meira vandamál í trúleysinu en á þeim heimilum þar sem farið er með bænirnar á kvöldin. Nema síður sé.

 3. Þetta finnst mér ljótt að heyra, þ.e. að þú hafir lýst því yfir bæði á Svipunni og hér á þessu bloggi að þú viljir aðskilnað ríkis og kirkju en segir nú „þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.“ Strax byrjaður að draga úr og fara undann í flæmingi og ekki einu sinni búið að kjósa þig. Ég skal viðurkenna að ég ætlaði að kjósa þig en nú hefur mér snúist hugur.

 4. Ja, hvað get ég sagt Daníel. Mér finnst mikilvægt að gerðar verði breytingar á stjórnkerfi ríkisins til hins betra, og að um þær náist breið samstaða á stjórnlagaþingi svo alþingi hafi síður umboð til að krukka í breytingarnar eftir sínu höfði eftir á. Ég er líka hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Maður tiltekur fyrst það sem sett er á oddinn, annað kemur þar á eftir. Bæði hér, á Svipunni og annarsstaðar.

  Ef marka má niðurstöður þjóðfundar stefnir í afnám þjóðkirkjuákvæðisins úr stjórnarskránni. Ég fagna því. En þú og aðrir eiga rétt á að vita hversu miklu máli mér finnst það skipta. Og svarið er að mér finnst það ekki það mikilvægasta. Ef þér finnst aðskilnaður ríkis og kirkju skipta þig meira máli en nokkuð annað, þá kýstu náttúrulega bara þá sem eru á þeirri skoðun. Ég skil það ljómandi vel.

 5. Sjálfum finnst mér aðskilnaður ríkis og kirkju, þ.e. afnám 62. gr., ekki það eina mikilvæga á Stjórnlagaþingi. T.d. finnst mér ákaflega mikilvægt að afmarka betur framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald (í dag eru nánast öll lög samin af framkvæmdavaldinu). Hins vegar finnst mér undarlegt að frambjóðandi sem tiltekur á Svipunni, í svari við spurningunni: „Hverjar eru helstu hugmyndir þínar um breytingar á stjórnarskránni?“, að hann sé hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju skuli síðan á eigin heimasíðu upplýsa að hann setji það mál ekki á oddinn. Af hverju þá að tiltaka það í svarinu? Í spurningunni er jú minns á helstu hugmyndir. Þá skilur fólk væntanlega svarið sem upptalningu á aðalatriðum ekki einhverju sem skiptir viðkomandi litlu máli.

 6. Ég skil hvað þú átt við Daníel. Það er vandi að tiltaka í stuttu máli hvað manni finnst í mörgum málum í senn öðruvísi en í einhverjum „soundbites.“ Ég velti fyrir mér á sínum tíma hvað ég ætti að telja með og hvað ekki. Gerði allteins ráð fyrir að fæla fleiri frá en hitt, með því að hafa þetta inni (og fyrst ég hef núna skýrt mál mitt betur geta þeir sem sluppu gegnum fyrstu síuna hætt við að kjósa mig líka).

  En það stendur sem ég sagði áður: Ég vil losa tengslin milli ríkis og kirkju. Ég vil bara gera það á þann hátt að sem best sátt náist um það, ef hægt er. Það finnst mér líka ríma fullkomlega við annað sem ég sagði á Svipunni.

 7. Frábær pistill Hjörvar, mér líkar afskaplega vel hvernig þú kemur að þessum málum – með opnum huga og tilbúinn til að virða skoðanir annara án þess að kasta þínum eigin fyrir róða.

  Þú færð mitt atkvæði (sem því miður er ekki mikils virði þar sem ég er ekki kjörgeng á Íslandi lengur), en ég kýs þig þá bara í anda.

 8. Já, ætli ég sé ekki bara tiltölulega sammála þér. Það ræðst líklega ekki fyrr en í ljós kemur hvaða frambjóðendur raðast í efstu 25 sætin, en það kann að vera að skynsamlegt sé að láta þessa lagfæringu sitja á hakanum enn um sinn til þess að önnur góð mál nái fram að ganga.
  Mér finnst samt frekar líklegt að meðal þingmanna verði einhverjir sem leggja mikla áherslu á að þetta nái fram að ganga, og líka einhverjir sem taka það ekki í mál. Kannski verður þá hægt að ná málamiðlun, t.d. þannig að þjóðin fái að kjósa sérstaklega um hvort 62. grein núverandi stjórnarskrár verði höfð með í þeirri nýju.

 9. > En mér finnst þetta einmitt eiga að vera á þennan veginn en ekki öfugt: Það þarf þroska til að kasta trúnni.

  Er þetta ekki svipað og að kenna börnum að reykja? það þarf jú þroska til að hætta að reykja.

  Trúmönnum sárnar alltaf líking við tóbakið en ég vona að þú skiljir hvað ég er að fara.

 10. Haha. Jú, ég held ég fari nokkuð nærri því. Munurinn liggur náttúrulega bara í því hvort fólki er tamara að hugsa um „kristinn sið“ eða „kristinn ósið“ (eða hvaða aðra trú sem menn vilja taka sem dæmi).

  Vitur maður sem ég held við þekkjum báðir sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að „kennsla“ væru bara skrauthvörf yfir það hvernig við ljúgum að börnunum okkar. Við þurfum alltaf að smætta heiminn niður í þau líkön sem við teljum hæfa skilningi þeirra. Og ég ákvað í upphafi barneigna að uppeldi innan ramma kristinnar kirkju þyrfti ekki að vera verri leið til þroska en hver önnur. Auk þess sem það eru jú tveir foreldrar á heimilinu.

  Það eru náttúrulega forréttindi hvers foreldris að klúðra uppeldi barnanna sinna eftir eigin höfði. Spurning hvort það ætti ekki að setja eitthvað um það í stjórnarskrána.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *