Opið bréf til Biskupsstofu og Aðskilnaðar ríkis og kirkju

Ágætu viðtakendur.

Nú fyrr í dag bárust mér tvö bréf með stuttu millibili, eitt frá Biskupsstofu og annað gegnum síðu og póstlista sem ég er „lækari” og áskrifandi að á Fasbók, um Aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Í bréfinu frá Biskupsstofu sagði eftirfarandi:

„Kæri frambjóðandi til stjórnlagaþings,

Biskupsstofa vill stuðla að upplýstri umræðu um skipan kirkjumála í stjórnarskrá Íslands en ein grein hennar fjallar sérstaklega um þjóðkirkjuna.

Frambjóðendur til stjórnlagaþings, sem ætlað er að að endurskoða stjórnarskána, hafa gefið mismiklar upplýsingar um stefnumál sín og áherslur svo sem um afstöðu sína til sambands ríkis og þjóðkirkju.

Það hlýtur því að skipta kirkjuna og söfnuði landsins máli hver afstaða einstakra frambjóðenda er til þessarar greinar og eins hvernig þeir vilja að sambandi ríkis og þjóðkirkju sé háttað. Það skiptir raunar máli fyrir öll trúfélög í landinu.

Biskupsstofa fer þess visamlegast á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Svör frambjóðenda verða birt á vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, eftir því sem þau berast og kynnt fjölmiðlum.

Könnuninni er svarað á vefnum og við munum senda hana út á morgun. Ef þú hefur frekari spurningar um þetta, vilt ekki svara könnuninni eða fá frekari skeyti frá okkur biðjum við þig að láta okkur vita með tölvupósti …“

Skoðanir mínar á því hvort skilja eigi að ríki og kirkju eru í sjálfu sér ekkert leyndarmál. Þær má meðal annars sjá á kosningavef dómsmálaráðuneytisins („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef Svipunnar („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef DV („Sp: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni? – Sv: Frekar andvíg(ur)“) og í bloggi sem birtist þann áttunda nóvember síðastliðinn, „Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt“ þar sem ég sagði meðal annars:

„… ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.“

Glöggur lesandi hnýtti útí orðalag mitt um að setja „á oddinn,“ og réttilega. Það var kauðslega orðað hjá mér (má e.t.v. skrifa á persónulegt reynsluleysi mitt í pólitík) og ég hef strengt sjálfum mér dýran eið að nota þetta orðalag aldrei framar. Ég reyndi að útskýra betur hvað ég væri að fara í athugasemdaþræðinum í framhaldinu:

„Mér finnst mikilvægt að gerðar verði breytingar á stjórnkerfi ríkisins til hins betra, og að um þær náist breið samstaða á stjórnlagaþingi svo alþingi hafi síður umboð til að krukka í breytingarnar eftir sínu höfði eftir á. Ég er líka hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Maður tiltekur fyrst það sem sett er á oddinn, annað kemur þar á eftir. Bæði hér, á Svipunni og annarsstaðar.

[…]

En það stendur sem ég sagði áður: Ég vil losa tengslin milli ríkis og kirkju. Ég vil bara gera það á þann hátt að sem best sátt náist um það, ef hægt er. Það finnst mér líka ríma fullkomlega við annað sem ég sagði á Svipunni.“

Þetta er semsagt það sem mér finnst, fyrst spurt var. Það er ekkert leyndarmál. Öllum hlekkjum má síðan fylgja til að ganga úr skugga um samhengið.

Að því sögðu vil ég tilkynna fulltrúum biskupsstofu að ég hef alvarlegar efasemdir um að svara spurningunum í könnun þeirra á vefnum kirkjan.is og mun ekki gera það nema að vandlega íhuguðu máli. Þetta svar er ekki sent með það fyrir augum. Ég dreg í efa heilindi þess að þjóðkirkjan, sem aðili með beina og augljósa hagsmuni af því hver afstaða stjórnlagaþingmanna til 62. greinar stjórnarskrárinnar verður, ætli sér að fara að beita sér í aðdraganda kosninganna.

Svo ég nefni hliðstæðu: Ég efast um að ég myndi taka þátt í könnun á vegum L.Í.Ú. þar sem frambjóðendur til stjórnlagaþings væru spurðir um afstöðu þeirra til þess hvort hafa ætti ákvæði um náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskránni.

Sem borgari þessa lands hef ég af þessu áhyggjur.

Þá langar mig að taka til umtals bréfið sem mér barst gegnum áðurnefnda Fasbókarsíðu um aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju, þar sem vísað var á síðu sem sett hefur verið upp með það fyrir augum að flokka aðskilnaðarsinnana á annan veginn og íhaldsfólkið á hinn. Tilgangur síðunnar er útlistaður skilmerkilega á forsíðu hennar:

„Þessarri [svo] vefsíðu er ætlað að upplýsa kjósendur hvaða frambjóðendur til stjórnlagaþings eru aðskilnaðarsinnar (græni listinn) og hverjir eru ríkiskirkjusinnar (rauði listinn). Listarnir voru miðaðir við opinberar yfirlýsingar frambjóðenda á eftirfarandi vefsíðum …“

… og svo er vísað á þær þrjár síður sem ég hlekkjaði á og vitnaði í undir máli mínu hér að framan. „Græni listinn,“ sá sem er aðstandendum síðunnar þóknanlegur, er kynntur með þessum orðum:

„Eftirfarandi frambjóðendur eru þeir sem þorðu að taka skýra og opinbera afstöðu MEÐ aðskilnaði ríkis og kirkju.  Þeir sem sögðust vilja “endurskoða samband ríkis og kirkju” eða eitthvað álíka tvístígandi orðalag komust ekki inn á listann. Ekki heldur þeir sem vildu lýsa yfir prívat stuðiningi [svo] en ekki hafa það part af opinberri lýsingu.“

Kynningin á „Rauða listanum“ er svohljóðandi:

„Eftirfarandi frambjóðendur taka skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju. Við mælum með að aðskilnaðarsinnaðir kjósendur forðist þá eins og heitan eldinn.“

Þegar ég renndi augunum yfir þennan síðari lista rak ég þar augun í nafn frambjóðanda númer 3502, Hjörvars Péturssonar. Þegar þessi orð eru rituð er það þar enn.

Nú langar mig að biðja aðstandendur síðunnar adskilnadur.is um að upplýsa mig um eftirfarandi:

Hvað nákvæmlega var það á kynningarsíðum Dómsmálaráðuneytis, Svipunnar og DV sem varð til þess að þið dróguð þá ályktun að ég tæki „skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju“ og bæri því að forðast „eins og heitan eldinn“ af þeim sem vilja rjúfa tengsl ríkis og kirkju?

Ég get kannski skilið, í ljósi síðustu bloggfærslu minnar um málið, að ykkur finnist ég ekki eiga skilið að komast í hóp þeirra sem eru á „Græna listanum.“ Það er mér að meinalausu. En ég geri mér ekki grein fyrir hvað í orðum mínum og stefnumálum gerir mig að andstæðingi aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Eða var þetta kannski bara eitthvað klúður hjá ykkur?

Ef svo er, þá myndi ég gjarnan þiggja að vera fjarlægður af „Rauða listanum“ ykkar við fyrsta tækifæri, ef það væri ekki of mikil fyrirhöfn. Afsökunarbeiðni væri líka falleg. Og þið mættuð þá líka renna aftur yfir báða listana ykkar til öryggis og lúslesa fyrirliggjandi gögn til að útiloka að nöfn einhverra annarra frambjóðenda séu skrifuð þar sem þau eiga ekki að vera. Það er ykkar verk að hreinsa það upp, ekki þeirra.

Ef, hins vegar, aðstandendum síðunnar finnst mega draga þá ályktun af orðum mínum að ég sé harður andstæðingur þess að skilja að ríki og kirkju, þá þætti mér ágætt að fá skýran rökstuðning á því með vísun í mín eigin orð.

Það má vera að markmiðið með listunum sé að skipta öllum frambjóðendum í tvö horn, ég veit það ekki. Að þeir sem ekki lýsi yfir einörðum ásetningi til þess að skilja að ríki og kirkju séu þarmeð sjálfkrafa á móti því. Að þetta sé ætlað til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Sé sú raunin, þá er það akkúrat það sem mér finnst ekki þurfa á þetta stjórnlagaþing. Megn andúð mín á slíkri flokkadráttahugsun og þverhausamennsku var einmitt ein af höfuðástæðum þess að ég bauð mig fram til að byrja með. Ef svo, þá hafið skömm mína fyrir.

Ég hef reyndar litlu minni ímugust á þessu framtaki ykkar en því sem ég frétti af með bréfinu frá Biskupsstofu. Þótt hugsunin að baki sé virðingarverðari.

Að lokum vil ég benda fulltrúum Biskupsstofu á að þeir geti sparað sér ómakið af könnun sinni og í staðinn einfaldlega sent þá sem vilja láta vísa sér í rétta átt inn á síðu Aðskilnaðar ríkis og kirkju, með öfugum formerkjum. Ættu þá báðir að geta unað við sitt.

Með virðingu og þökk,

Hjörvar Pétursson, einnig þekktur sem 3502.

Sent Árna Svani Daníelssyni og Steinunni Björnsdóttur (fyrir hönd Biskupsstofu) og Reyni Erni (föðurnafn óþekkt, fyrir hönd Aðskilnaðar ríkis og kirkju). Einnig birt á bloggsíðu minni (http://gamla.truflun.net/hjorvar) og í greinasafni mínu á stjórnlagaþingsvef dv.is.

4 replies on “Opið bréf til Biskupsstofu og Aðskilnaðar ríkis og kirkju”

 1. Sæll Hjörvar.

  Ég vil hér með fyrir hönd hópsins biðja þig afsökunar á þessum alvarlegu mistökum.

  Mál með vexti er að listinn okkar var unninn af nokkrum sjálfboðaliðum í sameiginlegu Google Docs skjali. Einn sjálfboðaliðinn hafði merkt þig sem rauðan, og benti á þessan bloggpóst sem rökstuðning:

  http://gamla.truflun.net/hjorvar/2010/11/08/um-thjodfund-kirkjumal-og-sitthvad-smalegt/

  En þetta þykir mér að vera vægast sagt gikkglaður með rauða litinn! Samkvæmt lýsingu þinni á Svipunni átt þú tvímælalaust heima í græna flokknum. Ef sjálfboðaliðanum sárnaði svona þessi bloggpóstur þinn þá hefði hann í mesta lagi átt að færa þig niður í gult (þá hefðir þú endað á hvorugum listanum allavega fyrst um sinn).

  Þannig að já, ég biðst innilega afsökunar á þessum mistökum og þú mátt bóka að ég mun sjálfur fara án tafar yfir alla í rauða flokknum og gaumgæfa rökstuðninginn sem gefinn er upp fyrir hvern frambjóðanda. Vonandi verður þú fyrsti og síðasti frambjóðandinn sem brotið er á á þennan hátt.

  Hvað varðar tilgang hópsins þá er það ekki ætlunin að flokka alla í tvær öfgar, heldur standa 75% frambjóðenda utan listanna tveggja. Sem er ekki skrítið því langflestir frambjóðendur minnast ekki einu orði á tengls ríkis og kirkju í lýsingu sinni.

  Ég vil líka þakka þér fyrir innsláttarvillurnar sem þú bentir á… kennir mér að fara betur yfir þegar ég skrifa seint á kvöldin.

  Virðingarfyllst,
  -Reynir Örn Reynisson

 2. Sæll Reynir og kærar þakkir fyrir skjót og hreinskilin viðbrögð.

  Í augnablikinu virðist ég vera á græna listanum ykkar. Eins og ég sagði, hvort og á hvaða listum ég er er mér að meinalausu, svo lengi sem það er í tengslum við raunveruleikann. Ég ítreka bara efasemdir mínar um framtakið, þótt ég skilji ástæður ykkar að baki því.

 3. Þess má að lokum geta að ég sendi fulltrúum Biskupsstofu eftirfarandi um liðna helgi:

  – – –

  Sæl verið þið.

  Ég bið ykkur innilega að afsaka dráttinn á svarinu. Það er orðið allnokkuð síðan að ég ákvað að svara spurningunum, en síðan hefur farið saman annað vafstur og tvístig yfir orðalagi á svörunum.

  Ég vil líka segja ykkur að mér finnst sem þið hafið sýnt fram á það með útfærslunni að mínar fyrri áhyggjur voru innistæðulausar. Þið hafið mjög vel náð að feta einstigi þess sem er viðeigandi í dálítið eldfimum kringumstæðum og fyrir það eigið þið ekkert nema hrós skilið.

  En þá að svörum mínum við spurningum ykkar:

  – – –

  1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
  Já, það tel ég mega gera. Ég tel að 63. grein færi vel sem upphafsgrein trúmálakaflans: „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins […].“

  2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
  Mér finnst ákvæði um það að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja og því studd af ríkinu að mörgu leyti í mótsögn við önnur ákvæði stjórnarskrárinnar til trú- og félagafrelsis. Þeir eru margir sem hafa ríka þörf til að trúa og vilja geta leitað til síns trúfélags, hvort sem það er evangelíska eða katólska kirkjan, Ásatrúarfélagið eða Baháí-söfnuðurinn. Trúin verður með okkur. Og Orðið ratar til sinna. En mér finnst ekki sjálfgefið að ríkið hjálpi einu trúfélagi umfram önnur á þeirri vegferð.

  – – –

  Með virðingu og bestu kveðjum,
  Hjörvar Pétursson #3502

Comments are closed.