Útvarpsviðtal og nauðsyn þess að kjósa

Síðustu vikuna hefur ríkisútvarpið gert stórátak í umfjöllun sinni um stjórnlagaþingið. Það er kominn þessi líka fíni stjórnlagaþingsvefur hjá þeim þar sem meðal annars er hægt að hlusta á viðtöl sem óöfundsverðir starfsmenn RÚV tóku við alla frambjóðendur um liðna helgi.

Á sunnudagskvöldið var hringdi Leifur Hauksson í frambjóðanda #3502 og leyfði honum að ausa úr sálarkeröldunum í fimm mínútur. Hér má heyra afraksturinn:

Viðtalið við RÚV

– – –

Nú síðdegis fer fjölskyldan í bíltúr að heimsækja ræðismanninn í Stuttgart. Það er kjördagur í héraði í dag.

Ég gekk frá endanlegu uppkasti að kjörlistanum mínum í gærkvöldi. Þetta er mun einfaldara mál en búið er að reyna að telja fólki trú um. Með orðum Óla Gneista Sóleyjarsonar:

Ég held að það sé ein leið sem virkar betur en önnur þegar farið er að velja og raða niður frambjóðendum á kjörseðilinn. Sú aðferð er að setja þann sem þér þykir bestur efst, næstbesta í annað sætið og svo framvegis. Ekki hafa sérstakar áhyggjur af öðru.

– – –

Í tengslum við það vil ég vekja athygli á vefnum kjostu.org. Þetta er hugmynd sem kom fram meðal frambjóðenda sjálfra til að hvetja fólk til að kjósa á laugardaginn kemur. Helmingurinn af öllum mínum beinu útgjöldum vegna framboðsins hingað til (eða sem nemur einni Ragnheiði af tíu Brynjólfum) er til að taka þátt í kostnaðinum við þetta framtak.

Því það er gríðarlega mikilvægt að fólk fari og kjósi. Eftir því sem færri kjósa, þess veikara umboð hefur stjórnlagaþingið til uppkastsins að nýju stjórnarskránni þegar það kemur til afgreiðslu alþingis. Ef umboðið er sterkt verður erfitt fyrir alþingi að standa í vegi fyrir afgreiðslunni eða gera sínar eigin breytingar. Ef það er veikt, ja þá. Ja þá.

Það vill segja: Mér er sama hvort ég sjálfur er á listanum þínum eða ekki. Það er ekki það sem mestu máli skiptir. Mikilvægast af öllu er að þú farir og skilir inn atkvæðinu þínu.

Ekki vera fúli kallinn:

Fúli kallinn
Fúli kallinn