Grein á Vísi og nokkur svör

Dagurinn í gær var mikill greinabirtingadagur. Sú þriðja birtist á visir.is um hádegisbilið og fór nánar út í efnið sem ég impraði á í hinum tveimur. Um það sem mestu máli skiptir.

– – –

Síðustu tvær vikur hef ég fengið nokkur bréf frá félagasamtökum og einstaklingum sem hafa viljað forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings um hin ýmsu mál. Þarna bregður fyrir ýmsum málaflokkum sem ég hef kannski ekki lagt sömu áherslu á og með aðra, en kannski geta svör mín við þeim hjálpað einhverjum á lokametrunum við að ákveða hvort ætti eða ætti ekki að kjósa mig.

– – –

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) spurði mig að eftirfarandi:

Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings? – Með umhverfisverndarákvæði er til dæmis átt við ákvæði um sjálfbæra þróun, um rétt almennings til heilnæms umhverfis, um umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða og um vernd villtra dýrastofna.

Og ég svaraði:

  • Já, það mun ég gera. Það er alls ekki sama hvernig slík ákvæði eru orðuð og þarf að vanda til þeirra svo hafi raunveruleg áhrif á löggjöf og aðgerðir valdhafa. En mér þætti sjálfsagt að styðja tillögur um efni í líkingu við þau dæmi sem tiltekin voru með spurningunni, ef vel er að þeim staðið.

– – –

Ferðaklúbburinn 4×4 hafði svo sérstakan áhuga á að fræðast um viðhorf frambjóðenda til þess að færa í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt  almennings til ferðalaga og nýtingar, eins og honum er lýst í þriðju grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ). Svör frambjóðenda voru svo kynnt á spjallvef klúbbsins. Spurningarnar voru tvær og þær koma hér á eftir, með svörum mínum:

1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

  • Nei. Þriðji kafli laga um náttúruvernd finnst mér góður til síns brúks. Ákvæði um þetta finnst mér að eigi heima þar og innan almennrar löggjafar, frekar en í stjórnarskránni. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að almenningur hafi ferðarétt um íslenska náttúru (og nýtingarrétt að því marki sem tilgreint er í þriðja kafla náttúruverndarlaga), svo lengi sem það stangast ekki á við rétt almennings til heilnæms umhverfis, og sjálfbæra umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða. En rétturinn finnst mér alltaf skýlaust eiga að hvíla hjá því síðarnefnda.

2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

  • Nei. Þetta er ekki eitt af því sem mér þykir mestu máli skipta við ritun nýrrar stjórnarskrár og mér finnst því ekki líklegt að ég myndi hafa frumkvæði að því

Í seinni hluta fyrra svarsins tók ég mér það bessaleyfi að fá lánað orðalag úr spurningum FUMÍ. Enda erindin tengd, þar sem þau hafa bæði að gera með náttúru.

– – –

Þriðja erindið hafði líka að gera með náttúru, þótt af öðrum toga væri. Samtökin 78 lögðu sínar spurningar fyrir frambjóðendur, en ég hef ekki orðið var við opinbera umræðu á viðbrögðum við þeim, ólíkt því sem hefur verið um aðrar fyrirspurnir hagsmunaaðila og félagasamtaka. Svo hér er sennilega eini staðurinn til að fræðast um viðhorf mín til þess sem þar var spurt um:

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?

  • Í persónulegum samskiptum eru þau svipuð og viðhorf mín til tónlistarmanna, Skaftfellinga og aldraðra kvenna sem prjóna: Þetta er eitt af því sem skilgreinir það hver viðkomandi er en skiptir að öðru leyti litlu máli. Sem þjóðfélagshópi ber ég ómælda virðingu fyrir sögu þeirra og réttindabaráttu.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?

  • Tillögu um að bæta skilyrði um kynhneigð inn í 65. grein stjórnarskrárinnar (um mannréttindi og að allir skulu jafnir fyrir lögum) myndi ég styðja heilshugar. Ef engin slík tillaga kæmi frá forsætisnefnd stjórnlagaþings myndi ég vilja taka þátt í að leggja hana fram sjálfur.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?

  • Já.

Og lítið meira um það að segja.

– – –

Að síðustu má bæta við að um síðustu helgi gaf ég fulltrúum Biskupsstofu formleg svör við spurningum þeirra til frambjóðenda til stjórnlagaþings. Það virðist hafa dottið uppfyrir að koma þeim fyrir á kirkjuvefnum. En til að allt mitt sem lyti að þeim málaflokki væri samankomið á einum stað setti ég endanleg svör mín inn sem athugasemd við fyrri grein þar um.

– – –

Þá eru eftir svör mín til nokkurra almennra kjósenda sem vildu forvitnast um hug frambjóðenda til sinna eigin hugðarefna. Ég get vonandi tekið þau saman til að birta hér síðar í dag.