Um bankastarfsemi í útlöndum og kosningapartý

„Þú færð allan minn stuðning Hjörvar,“ sagði einn kunningi minn við mig, „ef þú stendur fyrir því að binda í stjórnarskrá ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar megi hvorki eiga né reka viðskiptabanka í útlöndum.“

Þetta var fyrir um það bil tveimur mánuðum, þegar ég var enn að leita hófanna með það hvort ég ætti að bjóða mig fram. Ég skellti svolítið uppúr og sagði „Já, þú segir það.“

„Mér er alvara með þetta Hjörvar,“ hélt hann áfram. „Þú ert nú í Þýskalandi sjálfur. Sjáðu bara hvernig Þjóðverjarnir höfðu þetta með sína stjórnarskrá árið 1949.“

Ég varð að játa að þetta var ekki alveg út í bláinn hjá honum. Þjóðverjar höfðu valdið bæði sjálfum sér, öðrum þjóðum og ríkjum ómældum skaða nokkrum árum áður. Í nýrri stjórnarskrá sambandsríkisins voru mörg góð og nauðsynleg skref tekin til að fyrirbyggja að það gerðist aftur: Í valdahlutföllum sambandsríkisins við einstök ríki þess. Í dreifingu framkvæmdavaldsins milli handhafa þess. Í ákvæðum um herinn, svo fátt eitt sé nefnt. Og eftir hörmungar síðari heimstyrjaldar báru Þjóðverjar gæfu til að setja sér mannréttindakafla sem átti sér engan sinn líka á þeim tíma og setti ný viðmið fyrir framtíðina. Þeir sem rituðu nýja stjórnarskrá öxluðu ábyrgð fyrir hönd ríkis síns og þjóðar, ekki aðeins gagnvart sínum eigin samborgurum, heldur líka gagnvart því fólki í öðrum löndum sem batt vonir við vinnu þeirra.

Vandamál okkar Íslendinga í dag eru náttúrulega öll svo miklu smærri í sniðum og léttvægari. En við megum samt alveg hugsa út í að fjöldi fólks mun horfa til þess hvernig tekst til með vinnu stjórnlagaþings. Ekki bara hér heima, heldur líka almenningur í nágrannalöndum okkar.

Ég hef engar konkret hugmyndir um það hvernig þetta ætti að móta einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár. Mér finnst bara að þeir sem setjast á stjórnlagaþing þurfi að hafa þetta í huga.

Hann kunningi minn náði allavega ekki aaalveg að selja mér þetta með ákvæðið um viðskiptabankana.

– – –

Hann sendi mér svo tölvupóst í gær, sagðist vera að bjóða í partý fyrir kvöldið í kvöld og vantaði einhverja framboðssnepla til að ota framan í gestina. „Það verður að vera mjög einfalt,“ sagði hann. „Ég er með sterkan fordrykk.“

Svo ég settist niður og útbjó þetta plagg með helstu áherslupunktum hér fyrir neðan og sendi honum til að prenta út.

Ég útbjó svo reyndar annað eintak bara handa honum, með tveimur punktum í viðbót:

  • Öxlum ábyrgð!
  • Ákvæði um að Íslendingum sé bannað að eiga eða reka viðskiptabanka í útlöndum!

En það var nú bara okkar á milli.

manifesto