Ég fór við annan mann til Stuttgart á laugardaginn var. Við skoðuðum Mercedes Benz safnið og sáum FC Nürnberg rassskella VfB Stuttgart á útivelli, 1:4. Það var bjart yfir öllum fyrir leik, VfB hafði átt góðan útisigur gegn Borussia Mönchengladbach helgina áður og Cacau allur að koma til eftir meiðsli. Og heimaliðið byrjaði mun betur, fyrstu tíu mínúturnar. Svo var staðan alltíeinu orðin 0:2. Þá kom ágætur fimm mínútna kafli og munurinn minnkaður í 1:2 fyrir leikhlé. Cacau kom inná í hálfleik og smá von fyrstu fimm mínútur þar á eftir. Svo var þetta bara ömurleg frammistaða. Dómarinn nennti þessu ekki lengur og blés leikinn af eftir 89 mínútur og 48 sekúndur. Það kvartaði enginn yfir því. En við heyrðum leikvanginn blístra og púa á sína menn meðan við gengum út.
Safnið var flott. Ég mæli með því. Og reyndar ógeðslega gaman að fara á leikinn, þótt „sínir menn“ hafi staðið sig hörmulega. Ég er dæmdur til að verða fylgjandi fyrir lífstíð. Kominn með trefil og allt. Og fullkomin byrjun á aðdáandaferlinum ef þeir byrja svo á því að falla niður í aðra deild, eins og allt lítur út fyrir.
– – –
Út-að-borða-með-allra-þjóða-kvikindunum datt hinsvegar uppfyrir. Og sá sem var e.t.v. að snúa aftur er ekki að snúa aftur. Hann flaug í dag til Ítalíu þar sem hann á fjölskyldu og verður þar eitthvað áfram.
Í staðinn vorum við fimm sem hittumst á gríska veitingastaðnum handan við Waldhausen á þriðjudagskvöldið var. Fórum svo þaðan heim til Frakkans í félagsskapnum og spiluðum á spil framyfir miðnættið.
Annars hefur ekkert verið að gerast. Nema vinnan. Sem er skemmtileg þessa síðustu daga fyrir heimför, en sosum ekki til að segja frá henni þannig að lifni ljós í augum barnanna.
– – –
Síðustu dagar fyrir heimför. Núna eru akkúrat fjórar vikur þangað til ég halla höfði í mínu eigin rúmi eftir tveggja ára hlé, þar af tvo og hálfan mánuð fjarri hlýju hjónasængur. Ég er farinn að telja dagana.
En þetta er búinn að vera góður tími hérna úti. Mjög góður.
– – –
Það stefnir í að ég fari eitthvað út með indverskum vinnufélaga (og e.t.v. einhverjum fleirum) ofan af Hertie Institut á föstudaginn eftir viku. Á þriðjudagsmorguninn hef ég rottað mig saman við annan niðri á Med.Gen.Abt. í smá kaffi, Sect og meððí handa öllum á deildinni. Og á sunnudaginn er Tübinger Fasnettsumzug. Vonandi get ég tekið einhverjar myndir til að sýna frá því hérna. Myndirnar hér að ofan eru frá bandaríska meðreiðarsveininum.
– – –
Ég hef fylgst með tíðindum undanfarinna daga og vikna heimanað. En mig langar einhvernveginn takmarkað að tjá mig um þá. Ekki úr þessu, ekki fyrr en ég verð kominn heim, held ég. Þangað til verð ég hérna úti.