Þegar ég hafði bara séð „Alla leið“ klippuna af honum Diðriki norska leist mér ekkert á þetta, óttaleg leiðindi. Þegar maður horfir á allt númerið er það mun skárra, en á tæru að þetta verður rosalega brothætt hjá honum stráknum. Það má ekkert útaf bera og þá verður þetta að einu allsherjar fíaskói.
Það er einsog „Fjóru Stóru“ löndin séu smám saman að taka sig á. Franska lagið er tildæmis ekkert alslæmt. Frakkarnir hafa reyndar annað veifið verið að senda inn ágæta entransa, bara aldrei gengið neitt með þá. Kannski standa þeir sig skammlaust í ár, svei mér þá. Fyrst þegar maður sá vídeóið leist manni ekkert á að láta krakkana horfa á þetta, fá bara rauða merkið í hornið takk fyrir (maður er orðinn svo mikil tepra). En sviðsnúmerið verður mjög hófstillt og settlegt, skilst mér. Sem einhverjum finnst ábyggilega alveg agalegt.
Spánn er alveg ágætur í ár líka. En ég er samt ekki sannfærður um að sirkuskonseptið dugi til að fleyta þeim neitt svakalega langt uppávið.
Stóra-Bretland er samt ekkert að fara að læra þetta. Enn eina ferðina send einhver luðran sem hefði varla náð að meikaða á rusladiskói á ofanverðri síðustu öld. Ég bíð bara eftir að hann strumpi falskt á úrslitakvöldinu til að fullkomna ömurlegheitin.
Ég hef áður lýst yfir hrifningu minni á þýska keppandanum. Hún Lena Meyer-Landruth hefur sjarma sem erfitt er að standast. Þjóðverjarnir héldu sjö kvölda keppni um það hver fengi að fara að keppa (undir handleiðslu glataða snillingsins Stefan Raab) og strax frá fyrsta kvöldi var ljóst að spennan fólst í því hver af hinum upphaflegu keppendunum nítján fengi að keppa við Lenu í úrslitaþættinum. Lagið sem áhorfendur kusu handa Lenu var annað að tveimur sem hún og hin stelpan sungu báðar. Mér finnst segja eitthvað hversu mikið hún Lena breytti því frá upprunalegu útgáfunni – beriði saman við flutning Jennifer Braun sem keppti við hana til úrslita. Ég hefði reyndar kosið annað lag handa henni Lenu, lag sem hún samdi í samvinnu við Stefan Raab sérstaklega fyrir kvöldið og má heyra hér: Love me (dálítill Cardigans-fílingur). En áhorfendur fengu að ráða:
– – –
Mér líst bara nokkuð vel á þetta samt. Hún vinnur sennilega ekki (mér skilst að fari tvennum sögum af því hversu vel sjarminn er að skila sér á norska sviðinu) en mig grunar að hún verði meðal tíu efstu. Með hverjum? Segjum að það verði þessir:
Tyrkland – Disney-Gothið svínvirkar. Með smergelinu og öllu.
Rúmenía – Það er bara svaka flott númer.
Hvíta-Rússland – Þetta fiðrildamóment er svo ógleymanlega mikið kitsch.
Ísland – Þartil á þriðjudagskvöldið hafði ég aldrei heyrt Heru syngja þetta skammlaust. Það dugði til að sannfæra mig um að kannski finnst ekki öllum þetta svo ömurlegt.
Serbía – Það er búið að grisja svo garðinn fyrir Júgóslavana að þetta er nánast eitt eftir.
Grikkland – Eins hallærislegt og það er, frá stirðbusanum sem syngur til sætu strákanna sem dansa, þá virkar þetta á einhvern fáránlegan máta.
Belgía – Ég vil sjá Belga fá breik í ár.
Azerbadjan – Það er slatti af tiltölulega rólegum lögum austanað, sungnum af snoppufríðu og mestanpart tónhaldandi kvenfólki. Ég held að azerska laginu muni ganga best af þeim.
Noregur – En ég er samt ekki alveg viss. Það er nánast fiftí-fiftí milli Diðriks og ísraelska stráksins hvor skríður uppí neðri helminginn á topp tíu. Veltur allt á því hvorum þeirra gengur betur að halda lagi.
Svo held ég bara sveimérþá að Grikkland taki þetta. Þótt ég voni náttúrulega á móti öllum líkum að hún Lena slái þessu öllusaman við. En við þurfum allavega ekki að hafa neinar áhyggjur af henni Heru.