Hér er eitt sem mér þætti gaman að sjá einhverja hrekja:
Orðmyndin umvörpum er algengasta villa sem til er í rituðum texta á internetinu.
Örsnöggt gúgl leiddi í ljós að það kemur fyrir u.þ.b. 809 sinnum („Exact phrase, Icelandic pages“) meðan hin rétta orðmynd unnvörpum kemur fyrir u.þ.b 1420 sinnum. Það er: Í 36% tilfella virðist þetta orð skrifað vitlaust.
Það eru reyndar dæmi sem fara nærri:
Ef lagðar eru saman niðurstöður fyrir „rauðann dauðann“ (685) „rauðan dauðan“ (671) og „rauðann dauðan“ (3) og bornar saman við „rauðan dauðann“ (2500) þá virðist þessi frasi sleginn vitlaust inn í 35% tilfella. En ef algengasta villan er borin saman við réttritunina, þá gefur það okkur ekki nema rétt tæplega 22% villutíðni.
Sama er með ýmsar vanskapanir af „ég kvíði“ (4050). Með öllum ég/mig/mér kvíðir/kvíður/hvíðir/hvíður möguleikum (2443) fæst í heildina 38% villutíðni. En algengasta villan („mér kvíður;“ 1210) gefur ekki nema 23% villutíðni út af fyrir sig, borin beint saman við réttu útgáfuna.
Umvörpum. Þrjátíu og sex prósent. Býður einhver betur?