Svo mikið hefur gengið á í fréttunum undanfarnar vikur að það er óhjákvæmilegt að sitthvað lendi milli skips og bryggju (og samt er ég engu nær með söluna á FIH bankanum). Eitt af því eru IgNóbel-verðlaunin, sem voru veitt fyrir hálfri annarri viku síðan og ég varð hvergi var við þangað til ég sá það fyrir slysni núna rétt í þessu.
Svo tökum okkur pásu frá eymdinni og rennum yfir þetta:
Næringarfræði: Fyrir rannsóknir á því hvernig styrkur og tíðni hljóðsins í kartöfluflögum stjórnar því hversu ferskar okkur finnst þær vera þegar við bryðjum þær.
Fornleifafræði: Fyrir kortlagningu á því róti sem beltisdýr geta komið á menningarsöguna.
Líffræði: Fyrir þá uppgötvun að hundaflær hafa meiri stökkkraft en kattaflær.
Hugvísindi: Fyrir að uppgötva að slímsveppir geta leyst völundarþrautir (næsta skref hlýtur að vera að nota þá til að ráða í fréttatilkynningar frá forsætisráðuneytinu).
Læknisfræði: Fyrir að sýna fram á að lyfleysur verka þess betur eftir því sem logið er að sjúklingnum að þær kosti meira (hér má setja inn kreppudjók að eigin vali).
Hagfræði: Fyrir að uppgötva að kjöltudansmeyjar fá meira þjórfé meðan þær eru í egglosi (sjá greinina í pdf-skjali, fyrir þá sem vilja þurrkuntulegu lesninguna).
Eðlisfræði: Fyrir stærðfræðilega sönnun þess að það er óhjákvæmilegt að hár, garn eða hvurslags aðrir þræðir endi í flókabendu ef ekkert er að gert (pdf með grein).
Efnafræði: Fyrir rannsóknir á sæðisdrepandi eiginleikum kóladrykkja (Til tveggja rannsóknarhópa á sama sviði: Umpierre og félaga annarsvegar og Hong og félaga hinsvegar).
Bókmenntaverðlaun IgNóbels: David Sims fyrir ritgerðina „Skítseyðið þitt: Könnun á orðræðu fyrirlitningar í stofnanaumhverfi.“
Friðarverðlaun IgNóbels: Svissneska siðfræðinefndin fyrir að tryggja lagalegan rétt plantna til að halda virðingu sinni (sjá pdf-skjal með siðfræðilegri úttekt).
– – –
Þannig var það nú og nóg um það. Áfram með kreppuna – ég hugsa að ég bloggi um hana bara strax í kvöld. Sennilega fljótlega uppúr kvöldfréttum RÚV.