Kreppan kemur! (Vol 1) – blogg í rauntíma

Ég hef tekið saman eitthvað á annað hundrað lög héðan og þaðan af iPoddinum mínum sem öll segja eitthvað við mig persónulega, í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu – og heiminum – í dag. Fullt af lögum er ekki með, bara fyrir það að þau eru ekki á téðri maskínu.

Það er búið að vera ósköp „terapjútískt“ að taka þetta saman – mér líður einhvern veginn betur með þetta alltsaman á eftir. Ég get mælt með þessu sem meðferð fyrir þá sem eru að fara yfirum á ástandinu: Setja saman pleilista. Allra meina bót. Og þessvegna pósta þá út á internetið. – Eða mp3-mix, ég er bara ekki svo útspekúleraður á tæknifrontinum.

Þetta gæti orðið skrautlegt – tengingin hérna úti í Jóhannesi er ekki sú traustasta og ég er nú þegar að gera tilraun númer tvö. En látum á reyna. Ég pósta þessu hér, ýti á „play“ og editera eftir hendinni. Hér kemur spilalisti sem hægt væri að brenna á eitt stykki geisladisk – ég hætti þegar ég er kominn uppundir 80 mínútur. Fólki er frjálst að gjamma frammí að vild.

 1. Radiohead – Fitter happier. Hæfari, hamingjusamari og afkastameiri svín í búri á sýklalyfjum.
 2. Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason – Hvert er farið blómið blátt? Íslensk útgáfa af Where have all the flowers gone? í yndislega korní útgáfu. Stríð kemur hvergi við sögu. En „allt og allt“ er farið frá mér.
 3. Jam – Start. Jafnvel þótt allt sé að fara til andskotans þarf maður samt að fara út á galeiðuna. Fyrir utan að Íslendingar eru að komast að því núna að „what you give is what you get.“
 4. Blur – For Tomorrow. Það er víst ekki minna af því núna en áður að fólk haldi sér dauðahaldi í morgundaginn. Fyrir utan að þeir hafa réttara fyrir sér núna en nokkru sinni: Nútímalíf er rusl.
 5. Haukur Morthens – Til eru fræ. Von sem hefur vængi sína misst. Skip sem aldrei landi ná. Aldrei geta sumir draumar ræst. Þetta er þarna alltsaman. Allar klisjurnar.
 6. Nick Cave – City of Refuge. Þetta er allt að fara til helvítis. Eins gott fyrir þig að hlaupa. Ekki samt svo að það breyti neinu: andskotinn nær þér samt.
 7. Brian Wilson – Mrs. O’Leary’s Cow. LOL! ROFL! Stóri bruninn í Síkagó 1871 sem metafóra fyrir það hvernig allt fór í kaldakol í Reykjavík í byrjun október 2008. Sjá fyrri færslu um tvífara.
 8. Modest Mouse – Shit Luck. ÞESSI FLUGVÉL ER POTTÞÉTT AÐ BROTLENDA! ÞESSI BÁTUR ER GREINILEGA AÐ SÖKKVA! ÞESSI BYGGING ER ALGJÖRLEGA AÐ BRENNA TIL GRUNNA! Frekari orð eru óþörf.
 9. Bleikar mussur – Ég pant vera Ameríka! Oooo. En sætt. Mitt eigið mjóróma mótmælahróp gegn neyslugeðveikinni frá upphafi ársins 2006. Sjá rokk.is fyrir þá sem vissu ekki af því.
 10. Nýdönsk – Hjálpaðu mér upp. Annað lag sem kemur við sögu í bloggi frá því fyrir skömmu síðan.
 11. Edith and Sherman Collins – What Will You Take in Exchange. Hvítur verkamannablús úr kreppunni. Af diskinum Bænir úr helvíti sem vinnufélagar mínir gáfu mér að skilnaði á sínum tíma.
 12. Queen – Another One Bites the Dust. Bara ekki annað hægt en að hafa þetta með. Skýrir sig sjálft. Og þá er diskurinn hálfnaður.
 13. Rússibanarnir, Vox Academica og Diddú – Gobbedí Gobbedí. Lag Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við ljóð Ísaks Harðarsonar. Og allt fram streymir. En ekki endalaust. Óekkí! Brokka nú jarðfákur! Hraða þér til endalokanna! Gobbedí gobbedí!
 14. Judy Garland – Somewhere Over the Rainbow. En það er nú alltaf ljúft að láta sig dreyma. Haltu í vonina Dórótea mín.
 15. Mr. Mister – Kyrie. Miskunnarsálmur með sítt að aftan.
 16. Bubbi Morthens – Stál og hnífur. „Við bryggjuna bátur vaggar hljóft, í nóft mun ég deyja.“ Æ. Fliss.
 17. The Verve – Bitter Sweet Symphony. Lífið er ljúfsár symfónía. Maður reynir að ná endum saman, þræll peningahyggjunnar, og svo er maður dauður. Geðveikt vídjó vinur. Og eins og Ashcroft orðaði það: langbesta stónslag síðustu þrjátíu ára.
 18. Beck – Cancelled Check. Það eru víst margir sem skrifa gúmmítékka þessa dagana. Fyrir utan að enginn skrifar tékka lengur. Einhverntíma síðasta vetur þurfti ég að beita öllum mínum fortölum á einhvern smástrákinn sem bankaði uppá og bað um stuðning fyrir íþróttafélag eða eitthvað. „Jú víst, þetta er alveg jafngott og alvöru peníngar. Spurðu bara mömmu þína og pabba.“ En hann var náttúrulega ekki úr gúmmíi.
 19. The Isley Brothers – Harvest for the World. Það þarf að gera meira af því að hugsa um náunga okkar á heimsgrundvelli – jafna betur út uppskeruna í heiminum. Sérstaklega fyrst við erum alltíeinu farin að sitja hinumegin við borðið. Misskiptingin er of mikil – það vantar meira handa okkur. Liddl.
 20. Roger Whittaker – New World in the Morning. Akkúrat. Það er ekki nóg að byggja nýjan dag á morgun – morgundagurinn kemur aldrei. Sérstaklega ekki þegar Ísland vantar meiri pening í dag.
 21. John Farnham – You’re the Voice. Annar sálmur með sítt að aftan. Röddin er ykkar. Látið í ykkur heyra – hátt og snjallt. Ekki sitja þögul og full af ótta.
 22. Dátar – Gvendur á Eyrinni. Barningur og brauðstrit. Dag né nótt hann varla svaf. Hann kaus heldur svitabað en kvennafar og skjall. En hann átti í kindakofa átján gamlar ær og „af þeim gleði hlaut.“ Humm.
 23. Judy Garland – Get Happy. Sonanú. Ekki hafa svona miklar áhyggjur. Hrópaðu „Hallelúja!“ vertu glaður og búðu þig undir Ragnarök.

Og þarmeð er diskurinn fullur. Mér finnst hann bara ágætur. En sumsé – ég mæli með þessu sem meðferð gegn móðursýkinni. Og mana jafnvel fólk til að birta sinn eigin afrakstur. Fjöldi laga gefinn frjáls, svo lengi sem hann er milli fjörutíu og áttatíu mínútur að lengd.