Að snúa aftur í dag var mjög… athyglisvert.
Það var ljóst strax og stigið var út úr flugvélinni að landið sem ég var kominn til var ekki sama land og ég kom til að heimsækja í endaðan september, fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Þá var landgangurinn veggfóðraður með auglýsingaspjöldum frá Glitni, Landsbanka og Kaupþingi. Yfirstílfærðum, pródúseruðum auglýsingum með hrífandi slagorðum um Ísland sem traustan félaga ferðalangsins á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Nú voru þau öll horfin. Enn allt fullt af auglýsingaspjöldum, meiraðsegja stöku spjald frá Exista, Alfesca og öðrum kantspilurum úr leiknum sem blásinn var af eftir að allir höfðu verið reknir útaf. En aðallega frá aðilum undirstöðuatvinnuveganna. Tildæmis í ferðaþjónustu og útivistarfatnaði.
Þessi öskrandi fjarvera hlægði mig, einhverra hluta vegna. Þetta var ekki Þórðargleði. Meira út í hreinræktaða kaldhæðni.
Það var ekki fyrr en ég var búinn að fylla kerruna í fríhöfninni og sækja töskurnar á færibandið að ég sá eitt lítið veggspjald á leiðinni út: Einfaldir hvítir stafir á eintóna dimmbláum fleti: „Welcome.“ Og neðst niðri í hægra horninu var falið lógóið og undirskriftin, hálfpartinn eins og hvorttveggja skammaðist sín fyrir að vera þarna: „Landsbanki.“
– – –
Íslendingar virðast smámsaman vera að læra tvær mótsagnakenndar lexíur: auðmýkt og uppreisn. Auðmýkt fyrir sjálfum sér og uppreisn gegn þeim sem segja þér að sitja og standa. Og þær hvárartveggju mjög þarfar.
– – –
Börnin komin í ró. Ég söng fyrir strákinn.
Frúin er í partíi með vinnufélögunum: Hún hefur svo sannarlega unnið sér inn fyrir því.
Hún kemur heim á eftir.
Senn slekk ég á tölvunni. Skelli mér kannski í sturtu og skola af mér ferðarykið.
Ég er hamingjusamur. Það er gott að vera kominn heim.
Mig grunar að ég eigi eftir að skora í nótt.