Um ýmsar mögulegar breytingar

Svo ég haldi áfram frá því síðast: Hverju er hægt að breyta við núverandi stjórnskipan þannig að hún verði í megindráttum svipuð, en samt þannig að styrki löggjafar- og dómsvald á kostnað framkvæmdavalds?

Svar: Það er margt og ýmislegt.

Ég er sjálfur hlynntur því að halda í forsetaembættið. Ég á allavega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig hægt væri að leggja embættið niður í stjórnarskrá sem í öðrum megindráttum er svipuð, öðruvísi en að styrkja með því tök flokkakerfisins á framkvæmdavaldinu. Það væri hægt að fara út í stærri breytingar, eins og sameina forseta- og forsætisráðherraembættið í eitt og kjósa þannig sérstaklega til framkvæmdavaldsins. Og slíkar lausnir hefðu margt gott með sér. En sá möguleiki fellur eiginlega utan við það sem ég vil velta fyrir mér hér og nú.

Það væri hægt að skrifa hlutverk forseta Íslands í stjórnskipuninni upp á nýtt með það fyrir augum að draga úr tökum flokkakerfisins á framkvæmdavaldinu. Til dæmis væri hægt að herða á kröfum um kjörgengi til embættisins og undanskilja þar t.d alþingismenn og varamenn þeirra, ráðherra og stjórnendur stjórnmálaflokka, jafnvel flokksbundna sveitarstjórnarmenn. Sníða svo embætti sem yrði pólitískt, en þó utan flokkapólitíkur.

Ákvæði um málskotsrétt forseta til þjóðaratkvæðis þyrfti að skrifa betur en nú er. Til dæmis ætti frumvarpi sem forseti hafnar undirritunar alltaf að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu innan ákveðins tíma (t.d. tveggja mánaða). Ferillinn ætti að vera nauðbundinn – ráðherrar eða alþingi gætu ekki einfaldlega dregið til baka frumvarp sem hefur verið synjað undirritunar. Það er spurning hvort þetta ætti í framhaldinu að setja af stað óafturkræft ferli sem tæki mið af því sem rakið er í 11.gr. núverandi stjórnarskrár: Að annaðhvort þyrfti að rjúfa þing eða leysa forseta frá störfum, eftir því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan færi. Ég er þó frekar á því að slíkt væri ekki æskilegt.

Í stjórnarskrá ætti tvímælalaust að vera kafli um dómstóla og skipan þeirra, og hann mun ítarlegri en þær þrjár greinar sem finna má í stjórnarskránni eins og hún er í dag. Í hverju því tilviki þar sem alþingi kemur við sögu (t.d. við skipan fulltrúa í dómnefnd um hæfni umsækjenda, eða við skipan Dómsmálaráðherra í dómaraembætti) ætti að miða við aukinn meirihluta. Það ætti að auka völd alþingis gegn ráðherravaldinu og draga úr hættunni á flokkspólitískum áhrifum inn í dómskerfið.

Raunar þykir mér að í sem flestum þeim atkvæðagreiðslum á alþingi sem hafa að gera með stjórnskipan ríkisins ætti að tíðkast aukinn meirihluti. Það ætti að ýta undir að þar verði tíðkuð meiri samræðustjórnmál og minni aðgerðapólitík. Enda sér það hver sem vill sjá er lítur yfir farinn veg að þegar klórað er undir yfirborðið á mörgum þeirra ummæla þar sem hvatt var til „aðgerðapólitíkur“ (og þá oft talað í fyrirlitningartóni um „samræðupólitík“) voru það gjarnan skrauthvörf fyrir spillingu, baktjaldamakk og vinagreiða.

Enn í dag er hrópað hátt og jafnvel hærra en fyrr um það vanti meiri aðgerðir í íslensk stjórnmál, mest af öllu. Það sé bara ekki um neitt annað að ræða. En þvert á móti: Það sem vantar mest af öllu í íslensk stjórnmál (og það langtum frekar en meiri aðgerðir) eru meiri samræður.

Svo ég snúi mér aftur að stjórnarskránni: Það er ýmislegt sem hægt er að grípa til, þannig að skapist heilbrigðara jafnvægi milli valdpólanna þriggja. Og margt fleira en það sem talið er upp hér. Myndu slíkar lausnir duga, lausnir sem dytta að því kerfi sem við höfum haft síðustu 66 árin? Eða þarf eitthvað róttækara að koma til?