Skömm og smekkleysa

Mörgum hefur brugðið ónotalega við nýjustu auglýsingu Vodafone, þar sem hið sígilda ævintýri um Búkollu er notað til að auglýsa svok. „þjónustuver.“ Bóndasonur hringir í 1414 til að fá aðstoð við að finna „beljuna“ (eins og hún er svo snautlega kölluð) og til að sleppa undan tröllkonunni.

Óhætt mun að fullyrða, að annað eins rugl og lágkúra hefur ekki sést um langa hríð í íslenskum fjölmiðlum, og eru menn þó ýmsu vanir á þeim vettvangi.

Nú skal vaðið inn á sjálfan þjóðsagnaarfinn, helgasta dóm Íslendinga, og hann hagnýttur í þágu markaðsvæðingar og græðgi.

Markaðsöflin eru sífellt að færa sig upp á skaftið og þeim virðist fátt heilagt.

Það er Víkingur nokkur Kristjánsson sem fer með hlutverk bóndasonar. Víkingi og hans kumpánum í „leikfélaginu“ Vesturporti hefur mjög verið hampað um skeið og flest talið gott og gilt, sem frá þeim kæmi. Ekki vil ég gera því skóna, að hann vilji með auglýsingunni vísvitandi særa þjóðarvitund fólks, en eitthvað hefur honum þarna brugðist bogalistin. E.t.v. flokkast þetta undir taktleysi.

Athyglisverðastur er þó þáttur Vodafone, sem er framleiðandi auglýsingarinnar. Fram hefur komið, að farið var alla leið til miðbæjar Reykjavíkur til að taka auglýsinguna upp, svo mikið hefur verið lagt í að gera hana sem veglegast úr garði.

Gaman væri, ef Vodafone vildi upplýsa, hvað auglýsingin hefur kostað.

Vafalaust hefur Vodafone góð efni á slíku miðað við allan þann hagnað, sem fyrirtækið sýnir af viðskiptum við landsmenn. Vodafone, sem til skamms tíma kallaðist „Og Vodafone,“ er nú eftir nafnbreytinguna komið í hendur gráðugra peningastráka, sem maka krókinn og reyna með öllum ráðum að hámarka gróðann. Forganga Vodafone í þessu máli er fyrirtækinu lítt til sóma og kann að draga dilk á eftir sér. Vodafone og Víkingur ættu að biðja þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sjá til þess, að auglýsing þessi verði tekin úr umferð.

En því miður er hér angi af stærra vandamáli. Við erum að horfa upp á minnkandi tilfinningu fólks fyrir því sem þjóðlegt er. Þess gætir á ýmsum sviðum, m.a. hvað snertir íslenska frídaga. Ekki er lengra síðan en á bóndadaginn á liðnum vetri, að fram fór á Rás 2 kosning um „Kynþokkafyllsta mann Íslands“, og þótti mörgum sá dagur ekki smekklega valinn fyrir það tilefni.

Hvað segir svona viðhorf okkur? Aldagamlir hátíðisdagar eru stöðugt á undanhaldi fyrir markaðsöflunum. Farið er að auglýsa dansleiki að kveldi bóndadags, einnig aðfaranótt sumardagsins fyrsta, nokkuð sem engum hefði dottið í hug fyrir nokkrum áratugum. Gleymum ekki, að ef við töpum lotningunni fyrir hinu þjóðlega, þá er hætta á ferðum. Þá verður fátt eða ekkert þjóðlegt og þá verður líka allt leyfilegt, jafnt í matargerð sem klæðaburði. Er ekki farið að örla á þeirri þróun á Íslandi?

Hvers megum við vænta, ef auglýsing eins og sú, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, verður látin óátalin? Hvað verður næst á vegi græðginnar? Hvað af þjóðararfinum sleppur ósaurgað? Veltum slíkum spurningum fyrir okkur.

Kannski á þetta eftir allt saman að vera bara sniðugt, eitthvað til að brosa að í hversdagsleikanum. Bóndasonur að tala í farsíma, nota sér nýjustu tækni. Vafalaust finnst einhverjum hugmyndin góð og auglýsingin flott og ekki ástæða til að gera veður út af slíku.

En er eitthvað flott við söguna af Búkollu og að nota hana sem gamansögu með þessum hætti í þágu gráðugra peningamanna? Að mínum dómi er það smekkleysa og skömm. Og best gæti ég trúað, að meirihluti þjóðarinnar sé í hjarta sínu sammála.

Höfundur er líffræðingur í Grafarvogi.

Join the Conversation

  1. Avatar
  2. Avatar
  3. Avatar
  4. Avatar
  5. Avatar
  6. Avatar

9 Comments

  1. Er þessu fólki ekkert heilagt!? Búkolla, helgimynd þjóðarinnar (lík og Marianne er Frökkum), heilög kýr. Er þetta fjölmenningin sem allir keppast við að mæra? Að dirfast að vega svona að heilindum þjóðarinnar.

  2. Nei sko engin hevlítis satíra! Þetta er alveg hreinasatt! Og þetta er þróun sem á rætur að rekja allt til „Siðbótarinnar“ þe þegar kenningar þýska pokaprestsins voru teknar upp af ráðandi öflum í þjóðfélagi þess tíma. Af því hafðist ekkert nema illt, ma. aukið valdníð, eignayfirtökur og fækkun frídaga vinnandi fólks. Og það sem að ofan er lýst er rökrétt framhald af því. Niðurníðsla ráðandi (markaðs)afla og skrumskæling menningararfsins! VEI ÞVÍ!!! Ó, VEEEEI!!!

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *