ÚRSLIT! SKEHNTILEGT! SIFJASPELL!

Jæja, nú er þetta komið út í hálfgerða vitleysu.

Í dálítilli könnun sem undirritaður framkvæmdi á málskilningi Íslendinga á orðinu sifjaspell tóku þátt 25 manns. Af þeim sögðust 3 afdráttarlaust taka sem gefið að sifjaspelli fylgdi valdbeiting, 18 sögðu svo ekki þurfa að vera samkvæmt sínum málskilningi, og 4 virtust vita mismikið í sinn haus með það hvað þeim fyndist um spurninguna. Af 3 þeirra mátti þó skilja að fyrstu viðbrögð þeirra væru að svara spurningunni játandi. Í fjórða tilvikinu var gerður greinarmunur á andlegu og líkamlegu ofbeldi – sem virðist reyndar taka sem gefið að til þurfi að koma ofbeldi af einhverju tagi.

Þessar spekúlasjónir mínar komu upphaflega til af því að við hjónin vorum að ræða það hvort hugmyndin um ofbeldi í órjúfanlegum tengslum við sifjaspell hefði síast inn í almenna málvitund og væri orðin að meirihlutaviðhorfi meðal þjóðarinnar. Því neitaði ég að trúa og var í framhaldinu manaður til að gera könnun á málinu.

Og því erum við hér.

Ef einungis eru teknir þeir sem tóku eindregna afstöðu (3 já vs. 18 nei), þá má fullyrða að marktækur meirihluti (P = 0.0006) þeirra Íslendinga sem vafra um þennan hluta bloggheima tekur ekki sem gefið að sifjaspell þurfi að fela í sér kynferðislega valdbeitingu. Jafnvel þótt – í ljósi þess sem áður var rakið – vafaatkvæðin séu öll flokkuð með jáunum (=> 7 já vs. 18 nei) telst meirihlutinn samt marktækur (P=0.03). Og er það vel – mér léttir ögn fyrir hönd íslenskrar tungu.

Ég er reyndar ekki sannfærður um að niðurstaðan hefði orðið í þessa veruna ef spurningin hefði verið borin upp á moggablogginu, hvað þá á spjallþræði á barnalandi.

Þeim sem svöruðu spurningunni játandi þakka ég hreinskilnina. Ég vil ekki ætla þeim að vita ekki hvað orðið þýðir, heldur frekar að þeir hafi smitast af því sama og konan mín – að taka því þegjandi sem sjálfsögðum hlut þegar hávær minnihluti hertekur góð og gild orð og ljær þeim nýja merkingu með þeim afleiðingum að sú fyrri á á hættu að standa uppi sem hortittur: hugtak sem búið er að svipta orðinu sem lýsir því.

Ekki merkingarlaust orð, heldur orðlaus merking.

E.t.v. mætti kalla þetta vangefnissýki: þar sem vangefinn er sennilega með skírari dæmum í seinni tíð um orð sem hafa verið svipt merkingu sinni án þess að eiga það endilega skilið. En betri dæmi óskast.

Þeim sem hinsvegar standa á því fastar en fótunum að jú! víst! sifjaspell sé alltaf kynferðislegt ofbeldi! vil ég bara benda á að fletta orðinu upp í orðabók. Og þeir mega þá alveg tékka á orðinu niðrun í leiðinni.

Góðar stundir.