Mánaðarskipt færslusafn fyrir: febrúar 2008

Húsbóndinn á heimilinu

Nú er ég sáttur við mig.

Tók eftir að þvottavélin var eitthvað biluð í dag. Svo ég greindi hvað var að henni, skrúfaði hana opna, staðfesti greininguna og gerði við. Eins og að drekka vatn.

Og talandi um vatn: ég uppgötvaði í leiðinni hvar hitastýringartakkinn er. Eftir öll þessi ár.

Flottur á því.

Umvörpum (sic)

Hér er eitt sem mér þætti gaman að sjá einhverja hrekja:

Orðmyndin umvörpum er algengasta villa sem til er í rituðum texta á internetinu.

Örsnöggt gúgl leiddi í ljós að það kemur fyrir u.þ.b.  809 sinnum („Exact phrase, Icelandic pages“) meðan hin rétta orðmynd unnvörpum kemur fyrir u.þ.b 1420 sinnum. Það er: Í 36% tilfella virðist þetta orð skrifað vitlaust.

Það eru reyndar dæmi sem fara nærri:

Ef lagðar eru saman niðurstöður fyrir „rauðann dauðann“ (685) „rauðan dauðan“ (671) og „rauðann dauðan“ (3) og bornar saman við „rauðan dauðann“ (2500) þá virðist þessi frasi sleginn vitlaust inn í 35% tilfella. En ef algengasta villan er borin saman við réttritunina, þá gefur það okkur ekki nema rétt tæplega 22% villutíðni.

Sama er með ýmsar vanskapanir af „ég kvíði“ (4050). Með öllum ég/mig/mér kvíðir/kvíður/hvíðir/hvíður möguleikum (2443) fæst í heildina 38% villutíðni. En algengasta villan („mér kvíður;“ 1210) gefur ekki nema 23% villutíðni út af fyrir sig, borin beint saman við réttu útgáfuna.

Umvörpum. Þrjátíu og sex prósent. Býður einhver betur?

Þjóðráð – tillaga að svari við femínísku spursmáli

Mikið sem fólk nennir að bylta sér yfir spurningunni hvað kalla skuli ráðherra sem ekki er herra. Sérstaklega þar sem svarið hefur alltaf verið til staðar í tungumálinu. Lausnin er einföld: við leggjum af þetta óþarfa viðskeyti.

Úr Orðabók Menningarsjóðs (1983):

ráð, -s, -H […] 9 (æðsti) stjórnandi; nefnd […]

Sumsé: Það er ekkert sem segir að þetta orð geti ekki átt við einstakling. Og þekkist meiraðsegja fyrir, að minnsta kosti þegar talað er um rússneska embættismenn (ég minni á ríkisráðið Erast Fandorín).

Ég get ekki sagt að mér þyki nokkuð að eftirtöldum dæmum:

Geir H. Haarde, forsætisráð

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráð

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráð

Árni M. Matthiessen, fjármálaráð (ef ekki bara hreinlega fjárráð!)

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráð

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráð og samstarfsráð Norðurlanda

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráð

…og svo framvegis.

Ég óttast ekki misskilning – ef upp koma agnúar, þá pússast þeir fljótt af. Áður en við verður litið getur þetta orðið eðlilegur partur af daglegu máli.

Reykingar, bjór og borgaraleg gagn-óhlýðni

Sko…

…hjaddna…

…nú er ég afskaplega hrifinn af borgaralegri óhlýðni. En samt verð ég að segja að mér finnst aðgerðir þeirra verta og kúnna sem tóku það upp hjá sér að brjóta reykingabannið um liðna helgi óttalega ógeðfelldar.

Eiginlega hrein viðurstyggð.

(En það er mér reyndar farið að finnast um allar reykingar, nú á gamals aldri.)

Gott og vel: það eru seldar sígarettur. Fólki er frjálst að kaupa þær. Fólki er frjálst að eyðileggja í sjálfu sér heilsuna með þeim – ef það endilega vill.

En það er þetta með frelsi einstaklingsins: það nær ekki nema að nefi þess næsta.

Athugið: Nefi. Ekki lungum.

Óbeinar reykingar drepa. Það er ekkert flóknara.

Spyrjið Ingimar Eydal.

Spyrjið Hauk Mortens.

(Persónulega finnst mér fólki reyndar fullfrjálst – meðan það norpar í sig nikótínið – að næla sér í lungnabólgu í leiðinni. Þetta er jú svo frjálst.)

Gott og vel: Vertar vilja fá að innrétta lofþétt reykherbergi. Breyta lögum og reglugerðum og allthvaðer. En að hvetja til reykinga í almennum rýmum því til áréttingar, það er ekki bara borgaraleg óhlýðni, það er…

…það er gíslataka á reyklausum skemmtistaðagestum. Það er eiturefnahernaður – nakinn stríðsrekstur með eldi og brennisteini.

Svo hvað er til ráða? Hvernig sýnir maður borgaralega gagn-óhlýðni? Hér eru nokkrir möguleikar:

  1. Sniðganga staði þar sem hvatt er til reykinga „á eigin ábyrgð.“ Bara verst hvað það er máttlaust: „Búhú! Viltu ekki vera í reyknum þar sem fjörið er? Farðu þá bara heim til mömmuðinnar aumingi!“
  2. Það er hægt að sýna viðkomandi veitingahúsum sama virðingarleysi í umgengni og reykingamenn gera þegar þeir kveikja sér í. Einn möguleiki er að kaupa sér bjór til þess eins að hella honum á gólfið. Eða á barborðið. Eða skvetta honum á veggina. Samt: þótt það væri dálítill rauður belgur til vertanna (fyrir utan að þurfa sjálfur að punga út fyrir ölinu) þá stæðu þeir stikkfrí sem fremja glæpinn sjálfan, „á eigin ábyrgð.“ Auk þess að þegar líður á nóttina er kominn bjór út um öll gólf og alla veggi hvort sem er, og myndi þá varla sjá högg á vatni.
  3. En það er þetta með að reykja „á eigin ábyrgð.“ Það væri hægt að hella yfir borð þar sem reykingar eru stundaðar. Yfir öskubakka. Yfir hendur með logandi sígarettum. Yfir blússuermar og jakkaboðunga. Það er ekki eins og væri allur skaði af því – það þarf hvort sem er að þvo reykjarbræluna úr þessu öllu saman.

Að sjálfsögðu væri glapræði að ætla sér að stunda opsjónir númer tvö og þrjú upp á sitt eindæmi – þess háttar aðgerðir færi enginn heilvita maður út í nema þær væru samræmdar (og kannski varla þá).

Einhverjar fleiri hugmyndir?

Nýtur manga neinn?

Talandi um það.

Ég hef aldrei skilið hvað fólki finnst svona merkilegt við manga.

Ég fór á Borgarbókasafnið niðrí kvos í gær. Þar var heljarinnar útstilling í anddyrinu með manga-bókum. Og rekki á rekka ofan á annarri hæðinni – ég gekk framhjá þeim í leit að einhverju meira við mitt teiknimyndasöguhæfi inni í horninu þar fyrir innan.

Ég blaðaði nokkrum af þessum bókum. Og ég bara…

…fattaði þetta ekki.

Mér er hreintútsagt fyrirmunað að hafa gaman af manga.

Með einni undantekningu, vitaskuld.

Ég hef mjög gaman af Manga Teits.