Algjört bíó

Við hjónin fórum í bíó í fyrrakvöld, í fyrsta sinn í svona þrjú ár, eða þarumbil.

(Hvað er annars langt síðan Starsky og Hutch voru í Nýja bíói fyrir norðan?)

Það má með sanni segja (æ mig auman) að nýja Indiana Jones myndin sé algjört bíó og skammlítil viðbót í seríuna. Að vísu varla nokkru sinni sem maður hugsaði „obbosí, hvernig kemur hann sér útúr þessu?“ utan einu sinni þegar hetjan okkar var tíu sekúndum frá því að vera steiktur í tilraunakontrólleruðu kjarnorkubáli. Og ekki nema eitt augnablik þegar ég varð verulega yfir mig hræddur.

(Þegar leit út fyrir að mótorhjólagauðið ætlaði að voga sér að setja upp hattinn, auðvitað.)

– – –

Tengd pæling: Er ég sá eini sem finnst Adam Sandler líta nákvæmlega eins út og Óli Gneisti á plakatinu fyrir Ekki abbast upp á Zjóhann? Ég held að það hafi eitthvað að gera með kringda munnsvipinn…