Sit og stanga úr tönnunum sítrónupiparbollu með beikon og ökólógísku kjúklingasalati. Horfi út um gluggann yfir Eyrarsundið og sé birtunni bregða, skýin þykkna. Sigla fraktarar. Blaktir þriggjametrahár veðurhani. Spranga Svíar í pólóskyrtum.
Mikið líður mér vel að vita að kjúklingurinn sem ég var að éta var alinn á sjálfsprottnum haugarfa. Það var reyndar ekkert tekið fram um beikonið.
Louisiana-safnið er einhver sú fegursta bygging sem ég hef gengið um. Eins og það lítur ekki út fyrir að vera neitt neitt þegar maður kemur upp að því – ósköp danskt eitthvað og ómerkilegt tilsýndar. En eftir að inn er komið gleymir maður sér þegar komið er fyrir hvert horn við að dást að því. Nútímalist er mistæk og verkar missterkt á mann, en það er aldrei leiðinlegt að skoða hana þegar húsið sjálft er listaverk út af fyrir sig.
Verður hugsað til þess þegar við hjónin vorum hér í „Weekend Getaway“ í nóvember 2005. Blómamyndir eftir Matisse í öllum sölum. Eldur í arninum á veitingastaðnum (ekki núna, heldur þá). Á fréttaskilti á Ráðhústorginu um kvöldið var stórfrétt dagsins að George Best hefði loksins geispað golunni.
En sumsé, mistæk. Verkar missterkt. Var farinn að halda að ég færi héðan út án þess að vera kýldur í magann þegar ég gekk fram á orgínalana af „Manni og barni“ og „Þremur stúdíum í George Dyer“ eftir Francis Bacon, í allri sinni dýrð.
Hrátt offorsið. Hryllingurinn. Dýrðleg úrkynjunin.
Ég hefði getað setið fyrir framan þær í allt kvöld.
Kannski ég fari og geri það bara.
Enn er meir en hálfur annar tími í lokun.