Sit og horfi á Die Ultimative Chart Show enn eina ferðina, í þetta sinn er rennt í gegnum 50 vinsælustu „Männer Hits“ allra tíma (til mótvægis við „Frauen Hits“ í síðustu viku). Það er komið að 17. sæti og það er einhver í sjónvarpssal að syngja eitthvað lag með Springsteen sem ég hef aldrei heyrt áður. Ekkert sem kemst í hálfkvisti við hann Oswald Sattler blessaðan og Fjallafóstbræðurna.
Frúin fer heim á skerið í fyrramálið og verður í viku. Tengdapabbi kemur hingað út með sömu vél og verður sömu vikuna. Ég mun kannski taka að mér eitthvað af bloggtengdu kvenmannsverkunum á heimilinu meðan á stendur.
Þetta er eitthvað grunsamlegur listi fyrir „Männer Hits.“ Þarna áðan var einhversstaðar lag með Phil Collins. Was ist doch los mit das, segi ég nú bara. Þá kýs ég nú frekar „Engel“ með Rammstein. Eða „Kommisar“ með Falco.
Mér létti mikið í dag þegar ég fékk staðfest að keppnin sem ég missti af í gær var bara undankeppni fyrir úrslitin: Í ágúst mæta og keppa um sigurinn fjögur lög frá Þýskalandi (valin í gær – ég á eftir að grafa upp hverjir komust áfram), fjögur frá Sviss, fjögur frá Austurríki og fjögur frá Suður-Týról. Ef ekkert af lögunum sem ég deildi út hérna í gær komst áfram er það ekkert minna en dómaraskandall.
En ég er strax farinn að hlakka til.
Juminn eini. Status Quo eru mættir læv (eða svonaaa) í sjónvarpssal og trylla lýðinn með „Rocking all over the world“ í þrettánda sæti.
Ég finn bara mikinn mun á mér. Ég er allur meiri karlmaður fyrir vikið.
Ég er farinn í rúmið.