Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2009

Heimsókn á hamfarasvæðin: Eilíf kvöl (dagar 6-7)

Sótti fyrri meinalíffræðitímann af tveimur á miðvikudagsmorgninum – þetta er jú meginástæðan fyrir því að við erum hérna. Fannst ég vera klárasti nemandinn á svæðinu (og kannski var ég það, ég veit það ekki). Þetta gekk allavega ágætlega.

Vinnudagurinn þar á eftir fór hinsvegar fyrir lítið, þar sem ég þurfti að vera kominn heim um tvöleytið – frúin var búin að panta síðdegið fyrir sínar eigin stúdíur.

Hvað gerði ég með krökkunum? Mest lítið.

Hvenær var það nú aftur… Já, það var á mánudaginn. Þá var ég of seinn heim með strætó – rétt missti af sexunni niðri á Lækjartorgi þannig að frúin var of sein í klippingu. Á meðan fóru tvö þau yngri í heimsókn til gamalla vina og nágranna í … Bakkahverfinu? heitir það það? og við hjónin svo bæði eftir klippinguna til að ná í þau og spjalla við kunningjahjónin af gamla staðnum.

Það var ljúft. Og aldrei þessu vant varla nokkuð rætt um pólitík.

Ég má til með að geta þess að ég er ánægður með þessa klippingu. Hún fer henni.

En þetta var nú útúrdúr.

Aðeins til baka að miðvikudagsmorgninum: Fyrir utan kennslustofuna í Læknagarði lá fyrsta eintakið af morgunblaðinu sem ég hef séð frá því ég kom til landsins – það var ekki einusinni boðið uppá það í Flugleiðavélinni á leiðinni.

Ég blaðaði ekki í því. Ég hafði skárri hluti að gera.

Um kvöldið ákváðum við hjónin svo að skella okkur í bíó. Styrktum íslenska kvikmyndagerð og sáum Jóhannes.

Manni leið vel að henni lokinni. Aðallega fyrir að hafa tekið þátt í að efla íslenska atvinnuvegi.

– – –

Svo átti ég alltaf eftir að geta þess að við vorum dregin afsíðis á Frankfurt til að láta fremja sprengjuleit á fartölvunum okkar. Það var dálítið spes.

– – –

Í lok langs vinnudags í dag var indælt síðdegiskaffi hjá Ellu frænku minni. Þangað mættu bæði Sigga dóttir hennar og strákarnir hennar, og svo stóri bróðir minn með dóttur sinni (þau sjáum við aftur betur á laugardaginn kemur). Svo vorum við sein í kvöldmat með stórtengdafjölskyldunni á eftir.

Nú brá ég mér frá og hringdi í foreldra mína í Hveragerði. Það var ágætt í þeim hljóðið.

En vinnudagurinn sumsé. Hann var langur. Og snerist að hluta til um pólitík í restina. Af öðru og vísindalegra tæi en þá sem hefur verið rædd við önnur tækifæri í heimsókninni. Og sosum hvorki illt né gott um það að segja – þetta er partur af því að vera í bransanum.

En þegar ég gekk út á stoppistöð með ipod í hendi kom ekki til greina að hlusta á neitt annað á leiðinni til hennar Ellu frænku en Kaizers Orchestra. Þeir negla þetta. Ef ekki (blessunarlega) í textanum, þá í taktinum:

Nú eru allir gengnir til náða á heimilinu nema ég sem geng frá þessu lítilræði og sötra Polar. Frúin er í saumaklúbbi með æskuvinkonum sínum úr Borgarnesinu. Megi hún vera sem lengst og njóta þess hið besta.

Á morgun fæ ég frí og verð heimavið með börnunum.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 3-5

Á sunnudeginum fórum við í ánægjulega heimsókn til Magnúsar og fjölskyldu um hádegisbilið. Á leiðinni til baka komum við við uppi í Spöng. Ég var sendur inn í Bónus að kaupa kvartkíló af púðursykri, sex glös af vanilludropum og hjartarsalt.

Þar var ánægjulega lítið að gera. Algjör vitleysa að vera með lágvöruverðsverslun opna á sunnudegi.

Horfðum á lokaþátt Hamarsins um kvöldið. Mér þótti takmarkað til koma. En mig vantaði náttúrulega forsöguna.

– – –

Á mánudagsmorguninn byrjaði vinnan. Vel gekk að fá allt sett upp á mínum gamla vinnustað og allt virkar laglega.

Heldur hefur fækkað frá því síðast.

Gekk gegnum miðbæinn á leiðinni heim þarsem ég þurfti að taka út fyrir strætómiðum. Tók einna helst eftir nýjum sjavarma-stað við Ingólfstorg og risastórt sár á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Hvað ætli eigi eftir að koma þar?

Um kvöldið fórum við í bíltúr og reyndum að ná mynd af friðarsúlunni. Það gekk ekki alveg. En súlan finnst mér orðin ómissandi partur af Reykjavík að hausti.

– – –

Mundi ekki eftir að koma færandi hendi með útlenska nammið í vinnuna fyrr en á þriðjudagsmorgninum. Mauluðum það með morgunkaffinu og ræddum um pólitík. Í hádeginu fór ég út að borða með gömlum skólafélögum. Við sátum og spölluðum um daglega amstrið, fótbolta og pólitík.

Þessu hef ég tekið eftir: Hvar sem tveir eða þrír koma saman er talað um pólitík. Mér finnst það ágætt.

Hugsaði enn og aftur um það í sömu ferð hversu gaman væri ef lækurinn rynni úr Tjörninni meðfram Lækjargötu, yfir torgið og út í sjó. Og betra fyrir lífríkið.

Heimsóttum Óla, Eygló og frumburðinn síðdegis. Svo var fyrsti stórfjölskyldukvöldverðurinn í gærkvöldi.

Og lítið meira að segja í bili.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 2

Las viðtalið við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í Fréttablaði gærdagsins með athygli. Verð að segja að bæði Katrín og Árni Páll hafa komið mér ánægjulega á óvart síðustu daga. Þótt ég sé ekki búinn að útiloka að fartin á greiðslujöfnunarfrumvarpinu hans Árna hafi leitt til þess að þar hafi gleymst inni eitthvað óttalegt klúður sem eigi eftir að baka vandræði.

Í framhaldi af því sóttum við hjónin um undanþágu frá greiðslujöfnun hjá Íbúðalánasjóði. Undarleg tilfinning að þurfa að biðla auðmjúklega til yfirvalda til þess að fá að halda óbreyttri greiðslubyrði. „Afsakið okkur, við erum frávik.“

Ég hef frá upphafi haft hálfgerðan vara á mér fyrir Árna Páli. Sennilega fyrir það hvað hann er alltaf appelsínugulur í framan. Fitt og slank. En ræðan sem hann hélt í fyrradag varð til þess að ég fer að eiga erfitt með að fá ekki aukið álit á manninum. Og svarið frá formanni LÍÚ bætir enn á velþóknun mína á honum Árna – hann er greinilega að gera eitthvað rétt. Grímulausara verður það varla: „Hvur í anskotanum heldurðu eiginlega að þú sért? Hvað heldurðu að þú getir? Veistu ekki við hverja er að eiga?!“

Margur heldur mig sig, svo ég svari í orðastað hans Árna.

– – –

Gærdagurinn var annars yfirmáta tíðindalítill og ætlaði aukþess aldrei að verða búinn – hefur sennilega að gera með þessa tvo tíma sem bættust í sólarhringinn okkar við komuna. Mér fannst einsog það væri að koma kvöld frá því fljótlega uppúr hádegi.

Stelpurnar fóru í afmæli og heimsóknir til vina sinna meðan pjakkurinn lék sér úti í sandkassa. Við fórum ekki neitt. Enda þarf þess ekki: Grafarvogur er Ísland. Það þarf ekkert að sækja það lengra.

Tók mynd af Esjunni með gemsanum mínum til að nota sem veggfóður á skjánum.

Foreldrar mínir, bróðurfjölskylda og systurdóttir komu í kvöldmat: Grillað lamb af læri og hrygg, heimakryddlegið af tengdaföður mínum. Í framhaldinu var sest í betri stofuna, rætt um pólitík milli þess sem sagðar voru sögur af dvölinni ytra. Spilað fyrir svefninn þegar gestir voru farnir.

Foreldrar mínir renna hér við á eftir á leið norður. Vonandi áður en við förum úr húsi sjálf í morgunkaffi til ágætra vina.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Við lentum í Keflavík á fimmta tímanum í gær. Tengdaforeldrarnir biðu okkar eftir hóflegt stopp í fríhöfninni.

Ég skoða orðið auglýsingarnar í flughafnarrampinum af mikilli athygli í hvert skipti sem ég fer þar í gegn. Mest áberandi voru „lífstíls“ auglýsingar frá 66°N og Cintamani. Hvort tveggja herferðir sem mér sýnist hafa skilað sér í vellukkuðu „branding“ (merkjavæðingu?): Þetta snýst um eitthvað annað og meira en fötin.

Ræddi pólitík við tengdapabba á leiðinni í bæinn. Ég hef fylgst alltof vel með málum hér heima – ég er ekki alveg að standa mig í stykkinu með að vera í útlöndum.

Yfir Hafnarfirði gnæfðu þrír byggingarkranar. „Það þarf jú að geyma þetta einhversstaðar,“ sagði tengdapabbi þegar ég minntist á það.

Las Fréttablaðið í flugvélinni í gær og með kaffinu í morgun. Fannst athyglisverður (en sosum ekki óvæntur) hægri slynkur á blaðinu sem ég hafði ekki veitt athygli áður en ég fór utan í vor sem leið. Nú er ég hallur undir þá skoðun að fjölmiðlar hverju sinni eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu. Mér finnst þó miður hve gagnrýnin á sitjandi stjórn er öll frá hægri – það vantar harðara aðhald frá vinstri vængnum.

En þannig snýst víst heimurinn.

Við fengum nýtt slátur með kartöflustöppu og rabarbarasultu í kvöldmatinn. Foreldrar mínir litu í ánægjulega heimsókn uppúr kvöldmatnum; svo koma þau aftur í kvöld með bróður mínum og hans fjölskyldu. Þá verður lamb.

Svo verður fiskur einhverntíma á næstunni. Því hefur mér verið lofað.

Ellefu atriði við hrunið sem ég þoli ekki

Það er víst afmæli í dag. Fyrir mitt leyti hef ég hlakkað meira til annars afmælis sem verður eftir tvo daga. En það breytir því ekki að það er afmæli í dag, hvort sem manni líkar betur eða verr.

Af því tilefni vil ég ryðja frá mér nokkrum punktum um ýmislegt sem mér líkar verr frekar en betur.

– – –

Ég hef fengið nóg af því að heyra fólk halda því fram að það verði að komast á sátt í þjóðfélaginu. Fólk ætti að vera búið að átta sig á því fyrir löngu: Það á aldrei eftir að nást sátt í íslensku þjóðfélagi um hrunið, afleiðingar þess og aðgerðir til að bregðast við því.

– – –

Og ekki nóg með það: Ég hef fengið nóg af fólki sem talar um þetta sáttleysi eins og það sé eitthvað slæmt. Mér sjálfum finnst hreinlega nauðsynlegt að það ríki ósætti um hverja þá ákvörðun sem tekin verður í íslenskri stjórnsýslu um langa framtíð. Helst héðan og til eilífðar. Til að íslensk þjóð komist útúr þessum þrengingum sem hún er í núna er bókstaflega nauðsynlegt að hver höndin sé upp á móti annarri hvert einasta skref leiðarinnar. Ef klórað er undir yfirborðið á orðum margra þeirra sem vilja „ná sátt í þjóðfélaginu“ grunar mig að þá langi í sama samfélagslega drómann sem kom landinu í þessi vandræði til að byrja með. Það má aldrei verða.

Síðasta árið hafa Íslendingar lært að rífa kjaft við valdhafa. Þeir mega aldrei gleyma því aftur.

– – –

Því tengt: Ég er búinn að fá mig fullsaddan á þessu eilífa tuði um þjóðstjórn. Á hverju einasta rauða ljósi og biðskyldumerki sem stjórnvöld hafa ekið framá síðasta árið (allt frá því einn seðlabankastjórinn mætti á sögufrægan fund með skömmum fyrirvara) hefur hvert tækifæri verið gripið til að kalla á þjóðstjórn. En það verður bara að segja þetta upphátt: Það er bókstaflega útilokað að hægt sé að skapa starfhæfa þjóðstjórn, hvorki nú né nokkru sinni. Það mun ekki gerast svo lengi sem vötn renna til sjávar.

– – –

Og líka: Ég þoli ekki þegar vælt er eftir „sameiningartákni“ fyrir „íslenska þjóð“ á „þessum erfiðu tímum.“ Það er ekki til, það á ekki að vera til og það væri eitthvað verulega mikið að ef til væri nokkur skapaður hlutur (hvað þá manneskja) sem skipti nokkru máli og sem allir Íslendingar gætu sameinast um sem táknmynd sína.

Íslendingar eru klofin þjóð. Það er gjá milli þjóðar og þjóðar. Og þjóðar. Og þjóðar.

Já það er nokkuð: kannski gætum við einna helst sameinast um Almannagjá. Ekki útaf sögulegum signifikans, heldur sem jarðfræðilegt fyrirbæri. Sem táknmynd um það jarðrek sem hefur orðið á milli okkar og sem mun aldrei gróa um heilt aftur.

– – –

Sem dæmi: Ég þoli ekki þá sem gjamma um það að þeir neiti að taka að sér að borga skuldir annarra. Oft titlaðra óreiðumanna. Sérstaklega ef þeim finnst í öðru orðinu útilokað að íslenska ríkið taki á sig krónu vegna Icesave klúðurs Landsbankamanna, og í hinu skýlaus krafa að ríkið taki á sig afföll vegna gengistryggðra bílalána. Þarna sést klofningurinn í sinninu sjálfu. Það er til fólk sem gengur um með Almannagjá í höfðinu á sér.

– – –

Fyrir utan að mér finnst óþolandi þegar látið er eins og Icesave samningarnir séu stóri pósturinn í þessum vandræðum öllum, eins og vandræði okkar í dag yrðu eitthvað auðleystari ef þessi ógreiddi fyllerísreikningur sem Icesave er hyrfi fyrir eitthvert kraftaverk eins 0g dögg fyrir sólu. Því þeir eru það ekki. Og þau yrðu það ekki.

– – –

Og í guðanna bænum, ekki minnast á „vinaþjóðir okkar“ í mín eyru. Það er til fólk sem lætur og talar eins og Ísland eigi sér enga vini í veröldinni, fyrir það hvernig fulltrúar nánast allra annarra landa virðast sammála um að draga lappirnar við að aðstoða við viðreisnina þartil Íslendingar sjálfir hafi sýnt einhverja döngun og dug til að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Meiraðsegja „vinaþjóðir okkar“ í Skandinavíu taka þátt í samsærinu um að þvinga okkur til aðgerða, segir fólk.

Gimja breik.

Íslenskan á sér málshátt:

Vinur er sá er til vamms segir.

– – –

Og fyrst ég er farinn að tala um Skandinavíu: Enn ein ástæðan fyrir mig til að láta þá fara í taugarnar á mér sem kveinka sér undan að „greiða skuldir annarra“: Er virkilega mögulegt að þetta sé sama fólk og með hinu munnvikinu kallar eftir endurreisn Skandinavíumódelsins í íslenskri pólitík, með öllum þeim sameiginlegu byrðum sem því fylgja? Er ég einn um að sjá misræmið? Almannagjána í hausnum?

– – –

Ég þoli ekki þegar fólk hrópar eftir „leiðréttingu krónunnar.“ Gott og vel: Ég hef séð bregða fyrir notkuninni í þeirri merkingu að áður hafi krónan verið alltof hátt skráð, og nú sé hún búin að leiðrétta sig. En mig langar stundum til að arga innan í mér þegar fólk kallar eftir að „leiðrétta“ krónuna í þeirri meiningu að fá hana aftur í átt að því sem hún var í þá gömlu góðu daga.

Ég hef sagt það áður: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það. Það vissi það hver sem vildi vita að krónan var alltof hátt skráð. Hver sem augu hafði gat séð það. Og nú er hún að verða búin að leiðrétta sig: Munurinn milli Seðlabankans og erlendra markaða er víst kominn niður fyrir tíu krónur á evruna.

Það eru komnir nýir tímar. Þeim fylgir ný króna.

– – –

Og börnin okkar. Blessuð börnin. Það munu þungar byrðar lenda á þeim af völdum þess sem náði hámarki fyrir ári síðan. Ég tek undir með þeim sem ergja sig yfir því. Ég þoli það ekki. Mér finnst það næstum jafn óþolandi og fólk sem ergir sig yfir þessu í öðru orðinu, og kvartar yfir þeim þungu böggum sem lagðir eru á íslensku þjóðina akkúrat í dag. Niðurskurðinum og skattahækkununum.

En lets feis itt: Þess léttari sem byrðarnar eru núna strax, því meira af þeim lendir á börnunum okkar. Með vöxtum og verðbótum. Ef menn vilja fara þá leið, þá er þeim fullfrjálst að viðra þá skoðun sína. En ef í næstu setningu er talað um að það sé ekki sanngjarnt að velta byrðunum yfir á börnin okkar fer hljómurinn í orðunum að verða býsna holur og klingjandi.

– – –

Að ekki sé minnst á hvert einasta skipti sem ég sé eitthvert af smettunum sem báru bróðurpartinn af sökinni á þessu öllusaman voga sér að bíta í hæla og naga bök yfir því hvernig farið er að því að hreinsa til eftir þau. Ég bara…

…ohhh.

En það er víst nokkuð sem mér skilst að ég sé ekki einn um.

IgNóbel gærdagsins og leiðin útúr kreppunni

Eitt af fáu sem hefur verið árviss viðburður á þessu bloggi mínu síðan ég byrjaði fyrir meira en sex árum eru IgNóbelsverðlaunin, sem veitt eru árlega til að kallast á við Nóbelsverðlaunin og hampa rannsóknum sem fá okkur til að hlæja, og síðan til að hugsa. Ég sá fyrr í vikunni að Nóbelsverðlaunin eiga í dálítilli krísu með það hvort eigi að taka upp nýja verðlaunaflokka í takt við nýja tíma. IgNóbellinn hefur aldrei verið fastur á þeim klafa og tilnefnir bara þá tíu fulltrúa sem þykja eiga það mest skilið, svo eru fræðasviðin ákveðin eftirá. Nánast undantekningarlaust eru þó veitt verðlaun í læknisfræði, líffræði, efnafræði, hagfræði og eðlisfræði, auk bæði Bókmennta- og Friðarverðlauna IgNóbels. Svo koma þetta þrenn til fimm verðlaun hvert úr sinni áttinni.

Nítjánda fyrsta árlega Ignóbelsverðlaunaafhendingin („19th First Annual IgNobel Prize Ceremony„) fór fram í gærkvöldi, og aldrei þessu vant var ég bara skúbbaður af öllum á íslenska internetinu – ég frétti af niðurstöðunum á vef Ríkisútvarpsins í morgun. Sem náttúrulega var vegna þess að IgNóbelsverðlaunin í hagfræði þetta árið unnu (og það verðskuldað) yfirmenn Kaupþings (Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Ármann Þorvaldsson et al.), Landsbankans (Björgólfur Guðmundsson, Halldór J. Kristjánsson, Sigurjón Þ. Árnason et al.), Glitnis (Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding et al.) og Seðlabanka Íslands (Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason, Ingimundur Friðriksson et al.), fyrir sýnikennslu í því hversu hratt er hægt að breyta pííínulitlum bönkum í riiisastóra – og öfugt – og einnig fyrir að sýna fram á að eins er hægt að fara með heilt land eins og það leggur sig: Litlasta land í heimi getur orðið það stórasta – og öfugt.

Þeir kumpánar eru svo sannarlega í góðra vina hópi: Yfirmenn Enron, Arthur Andersen og fleiri álíka góðra fyrirtækja fengu hagfræðiverðlaunin árið 2002 fyrir nýstárlega notkun á ímynduðum tölum í viðskiptum; Nick Leeson og yfirmenn hans í Barings bankanum sáluga fengu hagfræðiverðlaunin árið 1995; Chilebúinn Jan Pablo Davila hlaut hagfræðiverðlaunin árið 1994 fyrir að afreka uppá sitt eindæmi að tapa hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu Chile í spákaupaæði fyrir ríkisfyrirtækið Codelco (þess má geta að síðan hafa Chilebúar notað sögnina „davilar“ um það að klúðra málum á stórfenglegan máta – sbr „að hannesa“); eigendur Lloyd’s í Lundúnum árið 1993 fyrir klúður sem var víst svo skelfilegt að nálgaðist næstum Sjóvárskalann; og Michael Milken árið 1991, en heimurinn stendur í mikilli „þakkarskuld“ við hann fyrir að finna upp hin svokölluðu „ruslbréf“ (junk bonds).

Aðrir vinningshafar gærkvöldsins hafa hinsvegar fallið í skuggann af „Strákunum okkar.“ Það er miður, enda margt af frambærilegum kandídötum í öðrum flokkum:

Dýralæknisfræði: Veitt fyrir að sýna fram á að nytin úr Skjöldu, Huppu og Hyrnu sé meiri en úr nafnlausum stallsystrum þeirra.

Friðarverðlaun IgNóbels: Fyrir að skera úr um það með kontróleruðum tilraunum hvort sé hættulegra að vera barinn í hausinn með fullri bjórflösku eða tómri.

Efnafræði: Fyrir aðferð til þess að búa til demanta úr Tequila. Ósjálfrátt velti ég fyrir mér hvernig vísindamennirnir hafi haldið uppá áfangann.

Læknisfræði: Ignóbellinn í læknisfræði í ár fór til Dr. Donald Unger, sem í þágu vísindanna lét braka í puttunum á vinstri hendi tvisvar á hverjum degi í sextíu ár –  en aldrei á þeirri hægri – til að prófa þá kerlingabók að það orsaki liðagigt í fingrum. Ég mæli með því að smella og lesa frásögnina eins og hún kemur af kúnni með hans eigin ályktunum („This result calls into question whether other parental beliefs, e.g., the importance of eating spinach, are also flawed. Further investigation is likely warranted.“) og viðbrögðum jafningja á fræðasviðinu („Although it is not clear, it appears that the study was not blinded. Blinding would only be possible if the investigator didn’t know left from right.“). Það batnar svo bara í framhaldinu.

Eðlisfræði: Fyrir eðlisfræðilegu skýringuna á því af hverju óléttar konur detta aldrei fram fyrir sig.

Bókmenntaverðlaun IgNóbels: Féllu í skaut írsku umferðarlögreglunni fyrir að hafa skrifað fleiri en fimmtíu umferðarsektir á ökuníðinginn Prawo Jazdy – sem er pólska fyrir „Ökuskírteini.“ Minnir mig reyndar á söguna af einhverjum Íslendingnum sem tókst einhvern tíma að troða sér inná VIP blaðamannafund í útlöndum undir því yfirskini að hann skrifaði fyrir íslenska dagblaðið „Ökuskírteini.“ Hann hefði blaðamannapassa til að sanna það.

Lýðheilsa: Fyrir einkaleyfið á brjóstahaldara sem með nokkrum snöggum handtökum er hægt að breyta í tvær gasgrímur (sjá mynd) fyrir notandann og einn, hömm, heppinn náunga viðkomandi.

Stærðfræði: Þessi verðlaun voru veitt Gídeon Gónó Seðlabankastjóra í Zimbabve, sem veitti almennum þegnum góða talnaþjálfun með því að láta þá höndla með seðla allt frá einu senti upp í hundrað billjón ríkisdali (eða hundrað banderískar trilljónir: $100.000.000.000.000). Svakalega hlægilegt þetta þriðjaheimslið sem getur ekki haft stjórn á sínum eigin efnahag maður! Bloddí hilaríös!

Líffræði: Fyrir að sýna fram á að hægt er að minnka massa eldhúsúrgangs um heil níutíu prósent með bakteríum sem eru unnar úr hægðum risapöndunnar. Hænan sem verpti gulleggjunum bliknar í samanburðinum.

Að lokum: Kannski vísa IgNóbelsverðlaunin okkur veginn áfram? Smáríkið Liechtenstein hlaut í það minnsta hagfræðiverðlaun IgNóbels árið 2003 fyrir að bjóða uppá, fyrir rétt verð, heilt land fyrir hvern þann sem vildi leggja vel í ráðstefnuna sína, brúðkaupið, nú eða bara fyrir fermingar krakkanna.

Skyldi þetta geta verið leiðin útúr kreppunni?

Essasú?

Ég ætlaði að skrifa hérna eitthvað óvinsælt frá eigin hjarta um „Essasú“ myndina sem mér skilst að hafi farið ljósum logum um netheima undanfarið. Eitthvað í þá veruna að börnin okkar komi til með að borga fyrir IceSave hvað sem gert verður. Að þeir sem öskri um landráð að þeim sem vilja lágmarka þann skaða sem orðinn er ættu að athuga að hverjum þeir hrópi það.

En svo áttaði ég mig á því að myndin sem allir hafa séð alstaðar uppá síðkastið er vandfundnari en ég hélt. Ég hef ekki fundið hana ennþá. Vinir mínir eru greinilega snúnari manneskjur en að falla svo glatt fyrir tilfinningakláminu að senda það áfram til mín.

Mikið lifi ég blessunarlega vernduðu lífi.

Og tilraunir mínar til að leita að henni á internetinu leiddu ekki til neins (ég er greinilega næstumþví jafngóður að gúgla og Davíð Oddsson) nema þess má geta að þegar ég sló inn {essasú barn} í leit að myndum fékk ég uppástungu sem var furðulegri en svo að ég geti lýst því með orðum. Sjón verður bara að vera sögu ríkari.

Í hádeginu voru Cevapcici-bitar í paprikusósu. Ekki neitt voðalega svabískt, en virðist þó njóta töluverðrar hylli hérna í suðurríkjunum.