Á sunnudeginum fórum við í ánægjulega heimsókn til Magnúsar og fjölskyldu um hádegisbilið. Á leiðinni til baka komum við við uppi í Spöng. Ég var sendur inn í Bónus að kaupa kvartkíló af púðursykri, sex glös af vanilludropum og hjartarsalt.
Þar var ánægjulega lítið að gera. Algjör vitleysa að vera með lágvöruverðsverslun opna á sunnudegi.
Horfðum á lokaþátt Hamarsins um kvöldið. Mér þótti takmarkað til koma. En mig vantaði náttúrulega forsöguna.
– – –
Á mánudagsmorguninn byrjaði vinnan. Vel gekk að fá allt sett upp á mínum gamla vinnustað og allt virkar laglega.
Heldur hefur fækkað frá því síðast.
Gekk gegnum miðbæinn á leiðinni heim þarsem ég þurfti að taka út fyrir strætómiðum. Tók einna helst eftir nýjum sjavarma-stað við Ingólfstorg og risastórt sár á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Hvað ætli eigi eftir að koma þar?
Um kvöldið fórum við í bíltúr og reyndum að ná mynd af friðarsúlunni. Það gekk ekki alveg. En súlan finnst mér orðin ómissandi partur af Reykjavík að hausti.
– – –
Mundi ekki eftir að koma færandi hendi með útlenska nammið í vinnuna fyrr en á þriðjudagsmorgninum. Mauluðum það með morgunkaffinu og ræddum um pólitík. Í hádeginu fór ég út að borða með gömlum skólafélögum. Við sátum og spölluðum um daglega amstrið, fótbolta og pólitík.
Þessu hef ég tekið eftir: Hvar sem tveir eða þrír koma saman er talað um pólitík. Mér finnst það ágætt.
Hugsaði enn og aftur um það í sömu ferð hversu gaman væri ef lækurinn rynni úr Tjörninni meðfram Lækjargötu, yfir torgið og út í sjó. Og betra fyrir lífríkið.
Heimsóttum Óla, Eygló og frumburðinn síðdegis. Svo var fyrsti stórfjölskyldukvöldverðurinn í gærkvöldi.
Og lítið meira að segja í bili.