Ég má til með að segja að ég er ánægður með úrslit atkvæðagreiðslunnar í gær.
– – –
Fólk hefur verið að deila um það um hvað var verið að kjósa og um hvað var ekki verið að kjósa.
Skiljanlega.
Þegar ég tjáði mig í upphafi árs um mögulega neitun Ólafs Ragnars lá málið tiltölulega ljóst fyrir: Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði Já þýtt samþykki á lögunum, Nei hefði þýtt ekki aðeins höfnun laganna heldur sennilegast líka risastóra löngutöng framan í umheiminn og þið getið bara átt ykkur. Að öllu óbreyttu.
Svo þykknaði plottið.
Bretar og Hollendingar komu að borðinu með nýtt og betra tilboð, og meðfylgjandi kröfu um aðkomu og samþykki allra stjórnmálaflokka á alþingi við lausnina. Teik itt or lív itt, mæ frend.
Og sat í grófum dráttum við það þegar kosningar voru haldnar. Svo Já þýddi ekki lengur ósk um lausn deilunnar – hinumegin við borðið beið enn betra tilboð og hálfmarklaust að fara þá að taka því verra. Og nei þýddi ekki lengur það risavaxna fokkjú sem það hefði þýtt ella, heldur ekki endilega neitt meira en það að frekar væri óskað eftir betri samningi, eins og þeim sem virtist í kortunum.
Málin voru, svo gripið sé til frasanna, í farvegi.
– – –
Auðvitað hafði hver sínar ástæður. Þær hafa verið þuldar upp. Sumir vildu ekki borga skuldir óreiðumanna. Sumir vildu fella ríkisstjórnina. Sumir vildu senda „skýr skilaboð til umheimsins.“ Hver hafði sitt að segja með sínu nei-i.
En það er dálítið óhæft til túlkunar á heildinni. Það var bara eitt nei í boði.
– – –
Svo um hvað var verið að kjósa? Hverjir voru kostirnir? Eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við nei? Og ekki síður, eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við já?
– – –
Niðurstaðan verður að segjast skýr. 62,7% kosningabærra landsmanna nýttu kosningaréttinn. Af þeim sögðu 93,2% nei. Það segir okkur í hið allraminnsta að yfir fimmtíuogátta prósent þjóðarinnar höfnuðu lögum númer eitt frá tvöþúsundogtíu.
Það er, hvað sem hver segir, afgerandi niðurstaða. Hvernig sem hún er túlkuð. Hvað sem hún nú annars þýðir.
Hvað áttu öll þessi fimmtíuogátta prósent sameiginlegt? Og hvað áttu þær sameiginlegt, þær tæplega tvöþúsund og sexhundruð sálir sem merktu við já?
Hvað gekk þeim til?
– – –
Eins og áður sagði: Málin eru í farvegi. Tilboðið liggur fyrir. Íslenska samninganefndin er að vinna í málunum. Leitað er eftir samstöðu allra aðila. Hálfgert þjóðstjórnarfyrirkomulag á hlutunum.
Og þetta var vitað fyrir. Þetta er nánast það eina sem var vitað áður en gengið var til kosninganna: Lögunum um gamla samninginn yrði hafnað (lög um annan enn eldri og ósamþykktan tækju aftur gildi) og haldið yrði áfram vinnunni um þann nýja sem fyrir lá.
Það eina sem hefði getað sett það í uppnám hefði verið samþykkt laga 1/2010.
Það er eina skynsamlega ástæðan sem ég sé í hendi mér fyrir þau 2599 sem merktu við já.
Skynsamlega? Er hægt að kalla þetta skynsamlega ástæðu?
– – –
Það er þetta með kröfuna um aðkomu allra aðila. Að allir verði að koma að borðinu. Þjóðstjórn um lausn. Ef fólk trúir því ekki að það muni leiða til farsællar lausnar fyrir þjóðina er skiljanlegt að það kjósi frekar að samþykkja lakari samning en þann sem enn er ósamið um, þótt hann sé betri.
Betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, má segja.
Og þeir sem kjósa nei, þeir væntanlega setja traust sitt frekar á farveginn.
– – –
Eins og áður: Fólk gæti borið mismunandi vonir til þess framhalds. Að það leiði til lægri vaxtaprósentu og betri greiðsluskilmála. Að það leiði til uppreisnar æru fyrir hinn hrjáða íslenska almúga. Að það leiði til þess að flosni upp úr viðræðunum. Að AGS verði rekinn úr landi. Að við fáum gamla góða fólkið okkar aftur í ríkisstjórn.
Fyrsta skrefið liggur fyrir. Fólk getur borið ólíkar vonir til þess sem kemur á eftir. En fyrsta skrefið er ljóst: Samningaviðræðum verður haldið áfram.
– – –
Þetta er það sem mér sýnist mega lesa útúr niðurstöðunum án þess að vera að gera neinum neitt upp.
2599 manns trúðu ekki því að áframhaldandi samningar myndu leiða til betri niðurstöðu en lög 1/2010.
58.4% þjóðarinnar vildu hafna lögunum og fá áframhaldandi viðræður í kjölfarið. Með ólíkum vonum um framhaldið, en þó þetta sameiginlegt.
– – –
Með hliðsjón af því sem ég hef sagt áður er augljóst að ég fagna þessu: Hinn almenni kjósandi hefur axlað sína eigin ábyrgð á því hvernig málum skuli fram haldið, svo langt sem hún nær. Meirihlutinn er ótvíræður, skilaboðin eru skýr (ef ekki neitt yfirmáta afmörkuð).
Þetta segi ég þrátt fyrir mína eigin takmörkuðu trú á samninganefndarferlinu eins og það blasir við í dag. Ég tel tölverðar líkur á að þetta lendi allt í heilu heljarinnar allsherjar klúðri, með ófyrirséðum og ófyrirsjáanlegum skaða fyrir íslenskan efnahag og íslenska sjálfsmynd (ef hægt er að segja að eitthvað slíkt sé til).
Ég verð alsæll ef það kemur í ljós að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona að svo sé. Ég tel mig ekki með forspárri mönnum.
Að minnsta kosti 58.4% kosningabærra manna eru ósammála mér. Það segir mér að Íslendingar eru ennþá bjartsýn þjóð að eðlisfari, þrátt fyrir allt. Það er líka eitthvað til að gleðjast yfir.
En jafnvel þótt fari á versta veg þá yrði það afleiðing ákvörðunar sem tekin var á afgerandi máta af meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.
Allt orkar tvímælis þá gert er. Til góðs eða ills, þá er þetta ákvörðun sem er tekin á óafneitanlega ábyrgð mín og þín, hvers einasta óbreytts Íslendings á gólfinu, hvers einasta starfsmanns á plani. Við tókum þessa ákvörðun – meirihlutinn ræður.
Það er akkúrat það sem við þurftum að gera.
Og því ber að fagna.