Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2010

Grand Prix der Volksmusik 2010: Austurríska forkeppnin

Austurríska forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram laugardaginn 22. maí síðastliðinn, og skilst mér á öllu að hún hafi þótt fara vel fram. Fimmtán keppendur voru skráðir til leiks, og þarsem einungis fjórir fengu náð til að halda áfram í úrslitin voru býsna margir sem lágu sárir hjá garði í lok kvölds. Ég tiltek þar sérstaklega þau skötuhjú Leónu og Sven sem komust í úrslitin í fyrra en urðu að sætta sig við tíunda sætið í ár með lagið sitt „Diese Welt ist wunderschön,“ þrátt fyrir glæsilega hækkun um hálfan og alltsaman. Meðal annarra sem rétt misstu af úrslitasæti voru fljóðin hvert öðru föngulegra: Marlena Martinelli með „Komm doch verführ mich„, Leona Anderson (samt ekki sú sem söng um rottur í herberginu sínu) með „Bitte gib gut auf mich acht“ og Hannah með „Magst mi eh„.

En nóg um það.

– – –

Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að Die Grubertaler ná inn í úrslitin fyrir Austurríkis hönd annað árið í röð, hörkuðu sig uppí fjórða sætið með 7,58% atkvæða. Í fyrra sungu þeir Námadalsbræður um hætturnar við það að glápa á stelpur meðan að maður er að keyra bíl. Ég hef ekki lagt mig eftir því hvað þeir Florian, Michael og Reinhard eru að syngja um í laginu „Wenn, dann jetzt“ í ár — hvað það er sem þurfi til að vera núna.  En ef einhverjir eru núna í GPdV, þá eru það tvímælalaust Die Grubertaler, í þessum óvenju smekklegu vestum með útsaumaða hljómsveitarmerkinu og alles. Þótt ég sé ekki frá því að þeir séu í nákvæmlega sömu gallabuxunum og í fyrra, í mesta lagi búnir að þvo þær:

– – –

Í þriðja sæti með 8,90% atkvæða lenti hljómsveitin  Die Wörtherseer. Þeir Charly, Seppi, Wolfi og Tommy hafa spilað sig saman í fjölda ára og slógu loks í gegn á austurrískan mælikvarða með laginu sínu „Komm tanzen, mi amor.“ Því miður virðist ekki hægt að finna vídeó af flutningi þeirra frá undanúrslitakvöldinu, en í staðinn fann ég eitthvað fríkað þjónvarp þar sem sá fáheyrði atburður á sér stað að Volksmúsíkurlistamenn bresta sjálfir í söng ósvikinni röddu í lifandi flutningi. Heyrn er sögu ríkari, segi ég nú bara. Svo hvetur hann Seppi áhorfendur til að vera duglegir að kjósa þá í undanúrslitunum (sem greinilega hefur borið árangur) og í restina er örstuttur hljóðbútur af laginu eins og það á að vera, ekki sungið hrárri röddu eins og af einhverjum andskotans amatörum:

– – –

Það voru tvö lög sem skáru sig úr á austurríska kvöldinu, a.m.k. hvað varðaði vinsældir hjá innhringjendum. Í því sem greinilega hefur verið æsispennandi símakosning fyrir þá sem fylgdust með númerunum hrannast inn um kvöldið urðu strákarnir í Junge Paldauer því miður að láta sér duga annað sætið með 18,83% atkvæða fyrir lagið „A Bass, a Gitarr und a Ziehharmonika.“ Þeirra helsta sérstaða ku felast í því að bjóða uppá Das Top Live Erlebnis, hvorki meira né minna. Ef rétt er, þá er það aldeilis ekkert til að hæðast að, í þessum bransa. En flutningur þeirra hér á laginu um bassann, gítarinn og dragspilið er þó blessunarlega eins ólifandi á allan máta og hugsast getur, svo sannir aðdáendur Volksmusik þurfa engu að kvíða:

– – –

Hver man ekki þá daga þegar Útvarpið með stórum staf var eitt um hituna á öldum ljósvakans og flutti landsmönnum reglulega nýjustu tíðindi úr þýska Volksmúsíkurgeiranum. Þá riðu hetjur um héruð og enginn þótti maður með mönnum í bransanum nema hann hefði hljómsveit hans sér til fulltingis. Þeir dagar virðast nú löngu liðnir og langt síðan alvöru hljómsveitarstjórar leiddu sína meðlimi til frækinna sigra á tónlistarsviðinu. Þó lifnaði aðeins í gömlum glæðum á austurríska úrslitakvöldinu, þarsem sjarmörinn Marco Ventre og hljómsveit hans rétt mörðu Junge Paldauer með 19,11% atkvæða fyrir lagið „Sehnsucht war gestern,“ eða „Söknuður er svo í gær eitthvað.“

Lagið er náttúrulega bara argasti Schlager, frekar en alvöru Volksmusik. En uppfyllir þó það frumskilyrði allrar sannrar Volksmúsíkur að í það minnsta einu sinni í textanum verður að bregða fyrir minnst einu af þessum þremur orðum: Sehnsucht, Heimweh eða Schicksal. Ég get ekki boðið uppá neina hreyfimynd með laginu, bara stillimyndina af hljómsveitarstjóranum. En hann tekur sig vel út með hökutoppinn, greinilega sannur hljómsveitarstjóri af gamla skólanum hér á ferð:

– – –

Þá er ekki eftir nema þýsku lögin. Af ókunnum ástæðum sé ég framá að geta ekki fjallað um þau hérna fyrr en eftir þetta tvær til þrjár vikur. Ég get þó sagt nú þegar að það var nú meiri skandallinn maður.

Svo þangað til næst.

Grand Prix der Volksmusik 2010: Suður-týrólska forkeppnin

Svæðissjónvarp RAI í Bozen (Bolzano) hélt úrslitakvöld suður-týrólsku forkeppni Grand Prix der Volksmusik þann 21. maí síðastliðinn í smábænum Algund. Borið saman við svissnesku forkeppnina sem ég sagði frá um daginn var ekki mikið um dýrðir í umbúnaðinum, og ef litið er til fyrri forkeppna RAI í Suður-Týról verður að segjast að nú er Snorrabúð stekkur: Allt mun smærra í sniðum en undanfarið og hausinn bitinn af skömminni með því að kynna lögin eingöngu með forklipptum kynningarmyndböndum og snuða þannig áhorfendur um ánægjuna af því að sjá listamennina mæma undir pleibakki í sjónvarpssal.

En fram fór þó keppnin, og var sosum ekki mesta hneisan í GPdV í ár. Meira um það síðar.

– – –

Die Bergdiamanten eru engir nýgræðingar í Volksmúsíkinni, þeir náðu til dæmis alla leið í úrslit GPdV árið 2008 með lagið sitt „Ein bißchen Gottvertrauen.“

(Ég hlekki þarna á upptöku frá forkvöldi RAI Bozen árið 2008 þar sem afturförin leynir sér ekki í samanburðinum: Þarna var hátt til lofts, vítt til veggja, og listamennirnir stóðu sjálfir á sviðinu undir flutningnum og mæmuðu í eigin persónu fyrir áhorfendur í sjónvarpssal. Berið þetta saman við kjallarakytruna þar sem atburðinum var holað niður í ár, og sára vöntun á alvöru líflíkisflutningi. Fyrir utan að 2008 höfðu þau sjálfan Rudy Giovannini til að afkynna herlegheitin.)

Fjallademantarnir koma úr afdalnum Gsiesertal sem er lengst uppí uppsveitum Suður-Týróls. Allir sinna þeir tónlistinni í hjáverkum: Rafvirkinn Werner syngur og spilar á gítar, pípulagningamaðurinn Jóakim þenur dragspil og syngur með, og rafmagnsverkfræðingurinn Erwin blæs í lúðra. En þeir eru líka duglegir að troða upp við hin ýmsustu tækifæri og bjóða ekki einungis uppá bæði Volksmusik og Schlager, heldur líka ítalska standarda og popp og rokk úr alþjóðlegu deildinni. Þeir náðu fjórða sætinu með 9,72% greiddra atkvæða með laginu „Teures Heimatland,“ sem þeir segja að sé ekki aðeins „ein Heimatverbundenes Lied,“ heldur líka „ein Bodenständiger Marsch,“ hvorki meira né minna. Þeir ráðast sko ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, Fjallademantarnir:

– – –

Í þriðja sæti lenti einn af mínum uppáhalds Volksmúsíkurlistamönnum. Hann Alex Pezzei lítur einhvernveginn alltaf út eins og hann sé með eitthvað syndróm, greyið, en það er nú ekki honum að kenna. Eins og ég rakti í pistli á síðasta ári er hann borinn og barnfæddur Suður-Týróli sem hefur verið á fullu í tónlistinni frá því á leikskólaaldri. Hann er frá litlu svæði í grennd við Dólómítana þar sem töluð er ladína (fornt tungumál skylt retórómönsku), en hann er einnig altalandi á þýsku, ítölsku, ensku og spænsku. Á leið okkar fjölskyldunnar um Suður-Týról síðasta sumar ókum við gegnum heimaþorpið hans í Grödnerdalnum, þar héngu borðar yfir aðalstrætum honum til stuðnings og allir greinilega yfir sig stoltir af stráknum. Sem má alveg vera.

Ég er ekki frá því að hann Alex sé minn keppandi í ár. Hér er hann mættur með lag sem er jafnvel enn betra heldur en lagið hans í fyrra (svo ég kveði nú ekki fastar að orði) og heitir „A Narrischer, a Boarischer,“ sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir og get varla ímyndað mér, þótt mér heyrist hann nú vera að syngja á einhvunnlags þýsku. Hitt get ég upplýst að hann lenti í þriðja sæti með 10,36% greiddra atkvæða. Og ekki skemma Alpahornablásararnir úr Grödnerdal fyrir:

– – –

Ég veit ekki mikið um Niederbachersystkinin. En vel taka þau sig út saman eins og sjá má í uppstillingu fyrir framan nákvæmlega sama rúmið þar sem Fjallademantarnir sungu áðan um átthagana dýru:

Niederbachersystkinin

Niederbachersystkinin

Þau eru af annarri kynslóð tónlistarfólks í Niederbacherfjölskyldunni: Hans faðir þeirra byrjaði að spila og syngja með Walter bróður sínum fyrir allmörgum áratugum og það leynir sér ekki að ástin á fagurri tónlist hefur gengið í arf til barnanna. Það fer fáum sögum af tónlistarhæfileikum móður þeirra, en hún hefur að minnsta kosti veitt þeim innblástur til lagsins sem þau náðu þriðja sætinu (með 11.63% atkvæða) með í ár: „Ein Lied für Mama.“ Því miður er hvorki hægt að finna myndbands- né hljóðupptöku af laginu í fullri lengd, en á heimasíðu GPdV má þó hlusta á þrjátíu sekúndna bút til að finna nasaþefinn af því. Til að bæta upp fyrir myndbandsleysið er hérna önnur svona líka afskaplega falleg mynd af þeim systkinum:

Geschwister Niederbacher

Geschwister Niederbacher

Geschwister Niederbacher – Ein Lied für Mama

– – –

Sigurvegarar suður-týrólsku forkeppninnar í ár voru þeir sömu og í fyrra: Hressu strákarnir í Volxrock tóku sig til og rokkuðu keppnina uppúr skónum annað árið í röð með laginu  „Was macht das Edelweiß in meiner Supp’n,“ eða „Þjónn, það er Alparós í súpunni minni.“ Þeir aldeilis burstuðu þetta með 12,89% greiddra atkvæða, og má telja næsta víst að unga fólkið af suður-týrólsku klámkynslóðinni hafi verið duglegt að smassa á Handy-símana sína, enda allt yfirfullt af kynferðislegum vísunum í bæði texta og vídeói. Það á þó eftir að koma í ljós hvort þetta falli í kramið hjá hinni innhringjandi eldri kynslóð á stór-þýska menningarsvæðinu á úrslitakvöldinu í Vín, eða hvort eitthvað meira í ætt við móðurástaróð Niederbachersystkinanna eigi eftir að gera meiri lukku. Og allir syngja með núna: „Wos mocht des Edelweiß…